01.05.1926
Efri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

1. mál, fjárlög 1927

Einar Árnason:

Jeg á hjer tvær litlar brtt., um styrk handa tveim mönnum til utanfarar. Jeg skal fyrst minnast á b-liðinn, sem er utanfararstyrkur til Freymóðs Jóhannssonar listmálara, til þess að fullkomna sig í leiktjaldamálun. Þessi maður er Norðlendingur. Hugur hans snerist snemma að málaralist. Eftir að hann lauk námi við gagnfræðaskólann á Akureyri, hefir hann stundað málaralist af kappi, bæði sem húsamálari og listmálari. Eftir hann eru til ýmiskonar málverk, einkum landslagsmyndir, sem margar eru ágætagóðar, að dómi þeirra manna, sem skyn bera á slíka hluti. Enda eru málverk hans farin að fá töluverða útbreiðslu, og jeg hefi orðið þeirra var á nokkrum stöðum hjer í Reykjavík. Þessi listamaður er náttúrunnar barn, jafnframt því, sem hann hefir ágætan listasmekk og hugmyndaflug, án þess þó, að hann hafi látið leiðast út á hálar nýtískubrautir í list sinni, sem nú virðist vera orðin tíska. Og það er meira en hægt er að segja um suma þessa svokölluðu listamenn og skáld síðari ára, þar sem það er nú mest í hávegum haft, sem lengst gengur í því að misbjóða og misþyrma heilbrigðri skynsemi óbrjálaðra manna. Þessi maður er algerlega laus við þann ófögnuð. Það er gleðin og hin bjarta hlið lífsins, sem er sterkasti þátturinn í eðli hans sem listamanns.

Hann hefir einnig lagt stund á að mála leiktjöld og útbúnað á leiksviði; hefir hann verið mjög leikinn í því og tekist það mjög vel, að dómi þeirra manna, sem vit hafa á. Hann hefir málað tjöldin í „Æfintýri á gönguför“, „Fjalla-Eyvindi“, „Nýársnóttinni“ o. fl. leikritum, og yfirleitt verið aðalhjálparhellan við leikstarfið norðanlands. Hafa tjöldin, sem hann hefir málað, ekki staðið að baki leiktjöldum hjer í Reykjavík. Nú fer hann fram á að fá 2000 kr. til þess að dvelja í Kaupmannahöfn l. ár til að fullkomna sig í „dekorations“-málun, aðallega leiktjaldamálun. Umsókn hans fylgja meðmæli 16 helstu mentamanna á Akureyri, sem allir eru mjög kunnugir störfum hans.

Þessi maður er fátækur; það þekki jeg persónulega. Hann er ekki fær um að kosta sig til náms ytra, enda hefir hann fyrir heimili að sjá. Er því útilokað með öllu, að hann geti fengið þessa fullkomnun í málaralistinni án styrks. Hinsvegar er hjer full þörf fyrir mann, sem er vel fær í þessari grein.

Jeg ætla þá ekki að tala meira um þennan mann, en snúa mjer að Sigurði Birkis. Það, sem fyrir mjer var aðalástæðan til þess að flytja þessa till., var það, að jeg varð þess var í skrifstofunni, að komnar voru fram brtt. um styrki til tveggja söngvara. Og eftir því sem jeg hafði kunnugleika til um þessa styrki, sem settir hafa verið í fjárlagafrv. til listanáms, þá kom jeg ekki auga á, að nokkur væri eftir, sem ekki hefði fengið áheyrn, annar en þessi maður. Fanst mjer því vera ástæða til þess að gefa hv. deild tækifæri til að sýna afstöðu sína til þessa manns sem annara. Jeg vil taka það fram, að jeg þekki þennan mann ekkert persónulega. En það, sem jeg veit um hann, er það, að hann tók fyrir tveim árum próf við konunglega sönglistaskólann í Kaupmannahöfn. Hafði hann þá hug á því að leita sjer framhaldsnáms í Ítalíu, en gat það ekki vegna efnaskorts. Dvaldi hann síðan 1½ ár við söngkenslu hjer í bænum. Nú er þessi maður staddur í Ítalíu við þetta nám, sem hann lengi hafði þráð, og hefir fengið lán til þeirrar farar. Hefir hann nú sótt um 4 þús. kr., en jeg hefi ekki þorað að fara fram á nema 1500 kr. Fengi hann þær, væri það mikill styrkur fyrir hann, til þess að losa hann við þann kostnað, sem hann hefir haft af förinni til Ítalíu.

Jeg hefi í höndum meðmæli frá söngkennara hans á Ítalíu, dags. 17. mars í vetur, og ætla jeg að lesa það, með leyfi hæstv. forseta:

„Jeg undirritaður votta, að hr. Sigurður Birkis, sem kominn er að stunda söng í söngskóla mínum, hefir fagra og blíða, lyriska tenorrödd, og er jeg þess vegna sannfærður um, að hann muni, með því að halda áfram ástundun sinni, eiga í vændum fagran feril og verða ágætur listamaður.“

Auk þess hefir hann meðmæli frá 4 dönskum söngkennurum og söngmönnum.

Hafa sumir þeirra kent honum, en sumir hlýtt á hann, þegar hann hefir dvalið í Höfn.

Jeg þekki þennan mann ekkert persónulega. Það, sem jeg veit um hann, hefi jeg algerlega frá öðrum. En menn, sem bera gott skyn á söng, segja, að maðurinn sje mjög efnilegur.

Eitt virðist sameiginlegt um þessa tvo menn, sem brtt. mín hljóðar um. Þeir hafa ekki haft formælendur utan þings eða innan, og þess vegna orðið á hakanum. Reynslan er sú, að þeir komast lengst, þegar um styrkveitingar er að ræða, sem duglegasta hafa „agitatora“ innan þings eða utan. Það eru þá ekki altaf verðleikarnir, sem mest koma til greina.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta. Jeg vænti, að deildin taki þessum mönnum vel og láti þá ekki gjalda þess, að þeim er fátæklega fylgt úr hlaði af minni hendi. Mjer er óljúft að teygja lopann með löngum lofræðum um menn, og læt jeg skeika að sköpuðu, hvernig deildin fer með þessa till.

Þá vildi jeg drepa á örfáar brtt. á þskj. 457. Þar er brtt. frá hv. 1. landsk. (SE), um styrk til fjelagsins Landnáms. Jeg verð að segja, að jeg á dálítið örðugt með þessa till. Jeg viðurkenni, að þetta er gott fjelag, en mjer finst eðlilegast, að Búnaðarfjelag Íslands hafi yfirumsjón þessara mála, og þaðan fengi fjelag eins og þetta styrk. Það má vel vera, að styrkurinn til Búnaðarfjelagsins sje of lítill til þess, að það geti látið nokkuð teljandi af hendi rakna. En hjer virðist, ef gengið er inn á þessa braut, að mörg fjelög gætu orðið sett á stofn, sem þá yrðu hliðstæð við þetta fjelag. En það er langeðlilegast, að öll þessi ræktunarfjelög starfi undir yfirstjórn Búnaðarfjelagsins. Þá er 24. brtt. á sama þskj., um styrk til Gunnlaugs Briems, að fyrir „lokanám“ komi „framhaldsnám“. Jeg skildi „lokanám“ í frv. þannig, að ekki yrðu veittir fleiri styrkir þessum manni. Með því að samþykkja þessa brtt. finst mjer bent í þá átt, að styrkur þessi geti haldið áfram, en það hjelt jeg, að væri ekki tilætlunin.

Þá eru þrjár brtt. frá hæstv. fjrh. (JÞ), XXIX–XXXI, eftirgjafir á lánum til þriggja hreppa, að liðirnir falli niður. Jeg sje ekki, hvernig hægt er að sigla þessum brtt. framhjá þingsköpunum. Mjer sýnist hjer vera alveg sama mál á ferðinni og felt var við 2. umr. fjárlaganna. Jeg skal ekki fara langt út í þetta, en vænti þess, að hæstv. forseti segi til, hvort hann telur fært að láta þetta koma til atkvæða. Jeg tel mig ekki skyldan til að greiða atkv. um þessar till. Jeg gerði það við 2. umr. og þykist ekki þurfa að gera það aftur.