19.02.1926
Neðri deild: 10. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (1930)

27. mál, verslunarbækur

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer skilst hálfpartinn á þessu frv., eins og hv. flm. (HStef) gangi út frá því, að það sje ósamrýmanlegt lögunum frá 1911, að hafa þessar sjerstöku viðskiftabækur, sem frv. ræðir um og alment eru kallaðar „kontrabækur“. En mjer skilst af annari grein þeirra laga, að það sje ekkert því til fyrirstöðu, að samrit í slíkar bækur sje látið í tje, og jeg skal taka það fram, að mjer er kunnugt um, að ýmsar verslanir hafa slíkar viðskiftabækur. Jeg man eftir því, að jeg hafði sjálfur eina slíka viðskiftabók meðan jeg var á Norðurlandi, og jeg hefi til skamms tíma haft slíka bók frá verslun hjer í bænum. Mjer skilst því, að tæpast muni vera þörf á þessu frv., svo framarlega sem kaupmenn vilja láta viðskiftamönnum sínum þær í tje, en að flestir aftur á móti nota svonefndar tvíritunarbækur, kemur til af því, að það er minni fyrirhöfn. Jeg vildi aðeins skjóta þessu fram, án þess að jeg vilji á nokkurn hátt mótmæla þessu frv., en jeg lít svo á, að lögin frá 1911 sjeu því ekki til fyrirstöðu, að „kontrabækur“ sjeu notaðar.