19.02.1926
Neðri deild: 10. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (1931)

27. mál, verslunarbækur

Flm. (Halldór Stefánsson):

Út af ræðu hæstv. atvrh. (MG) vil jeg taka það fram, að jeg hygg, að verslanir telji sjer ekki skylt að láta slíkar viðskiftabækur í tje. Jeg kannast við það, að sumir hafa með frjálsu samkomulagi getað fengið þessar bækur, en ekki allir. En ef svo er, að eftir lögunum frá 1911 sje skylt að láta þessar bækur í tje, þá er frv. óþarft. Væntanleg nefnd mun taka það til athugunar, hvort um skýlaus fyrirmæli er að ræða eða ekki, og sker þá úr um skilning á þessu atriði. Og ef álitið verður, að um skyldu sje að ræða, þá hefir náðst það, sem ætlað var með þessu frv.