09.04.1926
Efri deild: 46. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (1946)

27. mál, verslunarbækur

Jóhann Jósefsson:

Jeg greiddi atkv. á móti því, að þetta mál færi til 3. umr., og ætla jeg að gera grein fyrir ástæðum fyrir því, að jeg álít það ekki þannig vaxið, að nauðsynlegt eða heppilegt sje, að það verði gert að lögum.

Með lögunum um verslunarbækur frá 1911 var fyrirskipað það fyrirkomulag á frumbókarfærslunni, sem þótti og sýnist vera það rjettasta, að það, sem væri innfært og úttekið, væri þannig fært, að bæði kaupmaðurinn og viðskiftamennirnir hefðu hvor sitt samrit. Svo er og gert, þegar ritaðar eru tvíritunarbækur, að þá hefir viðskiftamaðurinn frumritið, en verslunin hefir samritið. Þetta fyrirkomulag nýtur líka lagaverndar eftir 10. gr. laganna, þar sem tekið er fram, að sje skuldar krafist, skuli það, sem skrifað er í frumbókina, hafa sönnunargildi, ef engin sjerstök atvik gera bókunina grunsamlega.

Það er alkunna, að ekki halda allir vel saman nótum sínum eða samriti, og er eðlilegt, að þar fari eitthvað forgörðum, en margir halda þeim þó saman, og þótt nóta hafi tapast, á viðskiftamaðurinn aðgang að versluninni til þess að yfirlíta reikning sinn og fá að vita um þau atriði, sem vanta, og er mjög fljótlegt að sjá það, þótt nótan sje töpuð.

Í ástæðunum fyrir frv. er sagt, að reynslan hafi ekki svarað til tilætlunarinnar með lögunum, að gera viðskiftin. trygg. Það er nú alt af svo, að þótt eitthvert fyrirkomulag sje innleitt, þá kann reynslan að verða sú, að það svari ekki, altaf alveg til þess, sem til var ætlast. En þó hygg jeg, að reynslan hafi hjer svarað vel til þess, sem var til vænst, enda þótt menn geti trassað að halda í samritin. Með frv. er farið fram á það, að fastir viðskiftamenn geti krafist þess, að fá sundurliðuð viðskifti sín í „kontrabækur“. Í hinu daglega lífi er það svo, að einstöku menn vilja jafnframt hafa þessar bækur, og þekki jeg engin dæmi til þess, að viðskiftamönnum sje neitað um þær, þekki engin dæmi til þess, að nokkur verslun vilji ekki láta í tje þessar bækur, ef viðskiftamaðurinn óskar þess. Og mjer skilst, að það atriði verði eftir sem áður að standa, að skrifuð sje frumbók og gefið samrit. En eftir frv. yrði algengt að hafa viðskiftabækur. Yrði þá að tvírita þær, og væri mikil verkatöf fyrir verslanir að skylda þær til þess. Jeg er viss um, að engan lagastaf þarf að hafa um þetta, viðskiftin byggjast á beggja gagni, og þeir, sem vilja hafa „kontrabækur“ geta auðveldlega fengið þær. Sje nú skrifuð frumbók samkvæmt lögunum frá 1911 og ennfremur „kontrabók“ eins og frv. ætlast til, þá er alls ekki útilokað, að eitthvað geti misritast í aðra hvora, að viðskiftabók og frumbók beri ekki saman. En eftir lögunum á frumbókin meiri rjett á sjer. En hjer gæti komið til álita, hvort nokkur af þessum bókum ætti fullkominn rjett á sjer. Sje jeg því eigi, að það hafi nokkra þýðingu að samþ. þetta frv., sem þó verður að játa, að er meinlaust og gagnslaust. Jeg álít ennfremur enga þörf fyrir það, að lögfesta þetta fyrirkomulag, því að þótt því sje haldið fram í greinargerð frv., að það eigi að tryggja betur rjett viðskiftamannanna, þá er reynslan sú hjá þeim, sem þekkja lánsverslanir, að ekki sje fremur hægt að fyrirbyggja villur með viðskiftabók en frumbók. Hjer er því aðeins um það að ræða, að lögbjóða aukaskriffinsku, sem tryggir á engan hátt betur rjett viðskiftamannanna en það fyrirkomulag sem nú er. Sje jeg því ekki, að frv. sem þetta hafi átt nokkurt erindi inn í þingið, og sje ekki neina ástæðu til þess, að það setji svona lög. Að vísu eru á einstaka stað menn, sem vilja hafa viðskiftabækur, og þeir fá þær, en víðast hvar, sem jeg þekki til, er það svo, að þótt menn hafi fengið viðskiftabækur, þá hefir stundum gleymst að hafa þær með, þegar fram í sótti, og hafa þær þá ekki trygt betur rjett viðskiftamanna en hin lögleidda frumbókarfærsla. Greiði jeg því atkv. á móti þessu frv.