09.04.1926
Efri deild: 46. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (1947)

27. mál, verslunarbækur

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Hv. þm. Vestm. (JJós) hefði ekki þurft að segja seinustu orðin, því að hann greiddi atkv. móti þessu frv. við 2. umr. En þessi ræða hv. þm. hefir ekki getað sannfært mig um það, að þetta frv. sje fráleitt. (JJós: Jeg sagði, að það væri gagnslaust). (GunnÓ: Og eiginlega óhafandi). Þessu bætir nú þessi hv. þm. við. Jú, hann kallaði frv. óheppilegt og til einskis nýtt.

Hv. þm. Vestm. (JJós) sagði, að hver hefði sitt samrit og ekki væri nauðsynlegt að glata þeim. En ástæða mín er sú, að samritin tapast oft af lausum blöðum. Og jeg held því fram, að fleiri geti týnt samritinu en verstu trassar. Þá sagði hv. þm., að frv. væri óþarft, vegna þess að hægt væri að fá „kontrabækur“ hjá verslunum, ef aðeins væri beðið um þær. Þá játar hann líka, að frv. sje nauðsynlegt. En er það víst, að verslanirnar vilji gera það? Það hefir ekkert komið ennþá fram frá háttv. þm., sem sýni, að þær myndu láta þessar bækur í tje, þótt þess væri óskað. Það sýnir sig nú, að þeir, sem andmæla frv., vilja vegna fyrirhafnarinnar, sem af frv. myndi leiða, vera lausir við það. Og þótt smámenni færu að ympra á því, að fá bækur yfir viðskifti sín, þá býst jeg við því, að þeir sjeu ekki sumir neitt keppikefli fyrir kaupmenn vegna viðskiftanna, svo að ekki væri alveg víst, að þeir fengju rétt sinn. (JJós: Því þá?). Þá sagði þessi sami hv. þm., að oft gæti farið svo, að „kontrabækur“ gleymdust heima og viðskiftamaðurinn væri ekki með þær, þegar hann tæki út, og gæti þá orðið lítið gagn að þeim. Út af þessu vil jeg segja það, að þótt svona gæti farið í eitt skifti, myndi maðurinn líta eftir því, ef bókina vantaði, hvað í reikning hans hefði verið skrifað, og setja á sig, hvað hann tæki út, og sjá um, að það kæmi ekki fyrir oftar, að bókina vantaði. En það er leiðinlegt að vera að þrátta um það við fullorðna menn, hvort betra sje að halda vísri einni bók heldur en mörgum smásneplum. Eftir allan mótblásturinn á móti, vegna fyrirhafnarinnar, sem leiða myndi af frv., segir hv. þm., að ekki megi samþ. það vegna rjettar viðskiftamannanna. En nú er frv. einmitt mikil rjettarbót fyrir þá, eins og sýnt hefir verið. Jeg býst við því, að frumbækurnar sjeu ekki altaf gott sönnunargagn hjá einstökum verslunum og eiga heldur ekki að vera það, nema þær sjeu vel færðar. Og ef nóturnar tapast, þá er ekki gott að hafa eftirlit með því, hvað skrifað hefir verið í þær. Það er auðsjeð, að viðskiftamenn þessa hv. þm. eru kaupstaðarbúar, en ekki sveitamenn, því að þá myndi hann ekki vera á móti þessu sjálfsagða frv.