10.04.1926
Efri deild: 47. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (1956)

94. mál, skipun sóknarnefnda og hérðasnefnda

Flm. (Eggert Pálsson):

Eins og tekið er fram í greinargerð frv., er það borið fram eftir ósk stjórnar Prestafjelagsins. Ástæðan er sú, að á Prestafjelagsfundinum síðasta kom fram till., sem var samþ., um að borin yrði fram slík breyting, sem hjer er farið fram á. Lög þessi eru orðin mjög gömul, nær 20 ára. Þar er svo ákveðið, að dagpeningar safnaðarfulltrúa, sem sækja hjeraðsfundi, sjeu 3 kr. Þegar þetta ákvæði var sett 1907, þá býst jeg við, að það hafi þótt sæmileg þóknun fyrir þetta starf. Nú svara þessar 3 kr. varla nema til 50–70 aura þá, svo hefir gildi peninga breytst mikið. Og þó býst jeg við, að ef stungið hefði verið upp á 1 kr. 1907, hefði það þótt smánarboð. Það liggur því í hlutarins eðli, að ef menn álíta, að þetta verk eigi að borga á annað borð, þá hljóti að eiga að hækka borgunina að auratali frá því, sem var áður, eins í þessu tilfelli og í öllum öðrum. En það verður ekki hægt að telja annað en sjálfsagt, að borgað sje eitthvað fyrir þessi störf sem hver önnur nefndarstörf, úr því að starfið er lögskipað. Væri starfið ekki lögskipað, en hjeraðsfundir haldnir af eigin hvöt safnaðanna sjálfra, þá kæmi náttúrlega ekki til mála að vera að ákveða með lögum sjerstakt gjald. En þar sem löggjafarvaldið hefir einu sinni skipað þannig fyrir, að hver sókn skuli senda safnaðarfulltrúa á hjeraðsfund, þá ber því líka skylda til þess að sjá um, að þeir fái sómasamlega þóknun fyrir þetta starf sitt.

Jeg hefi hækkað þessa þóknun um helming, í 6 kr., með það fyrir augum, að sýslunefndarmönnum er greitt það kaup nú. Og það má segja, að þetta starf sje mjög hliðstætt, því að ferðalög á hjeraðsfundi og sýslufundi eru í sjálfu sjer nokkuð svipuð, því að það er nú einu sinni þannig, að það mun í flestum tilfellum saman fara, sýsluskifting og prófastsdæma. Hitt er auðvitað, að störf hjeraðsfundamanna taka ekki eins langan tíma eins og sýslunefndarmanna.

Það er dálítið vikið við orðum í seinni hluta málsgreinarinnar frá því, sem var í lögunum. Hjer er það tekið fram, að sóknarnefndir jafni niður á atkvæðisbæra menn í sókninni þessu gjaldi, þar sem söfnuðurinn hefir ekki tekið að sjer umsjón og fjárhald kirkjunnar. Þar sem aftur á móti er svo ástatt, þarf ekki að koma með ný ákvæði, því að það er skýrt tekið fram í lögunum frá 1907, að þetta greiðist úr kirkjusjóði. Annars er þetta mál svo einfalt, að jeg geri ráð fyrir, að hver einasti hv. þm. hafi áttað sig fullkomlega á því. Það veltur ekki á öðru en því, hvort menn vilja hækka þessa þóknun um 3 kr. eða ekki. Þessvegna finst mjer málið þannig vaxið, að það geti ekkert grætt við það að fara til nefndar. En þar sem nú er áliðið þingtímans, þá álit jeg fyrir mitt leyti rjettast, að þessu máli verði vísað nefndarlaust áfram.