10.03.1926
Neðri deild: 27. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í C-deild Alþingistíðinda. (1972)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Jón Sigurðsson:

Jeg skal ekki tefja tímann lengi. Jeg vildi aðeins geta þess, að þetta frv. reynir að ráða bót á ástandi því, sem nú er, og er tilraun til að tryggja notendum lægra verð á áburðinum en nú er. En jeg verð því miður að játa það, að þetta frv. ræður ekki nema að litlu leyti bót á því öngþveiti, sem þetta mál er komið í í höndum Búnaðarfjelagsins. Það er alkunna, enda drap hv. flm. (TrÞ) á það í ræðu sinni, að ein besta áburðartegundin er í höndum einkaverslunar hjer í bænum og komst þangað með svo undarlegum hætti, að fá eru dæmi til slíks. Það var talsvert talað um þetta í fyrra, og þá upplýstist, að Búnaðarfjelagið hefir hingað til haft umboðið, en svo kemur það á daginn, að framkvæmdastjóri þess hefir afsalað þessum rjetti í hendur einkaverslunar, þvert ofan í vilja Búnaðarþingsins og án vitundar Búnaðarfjelagsstjórnarinnar. Það er full ástæða til þess að taka þetta mál til ítarlegrar athugunar, því að jeg álít, að hjer sje um stórfelt brot að ræða. Það má undarlegt heita, ef ekki er hægt að ná aftur einkaumboðinu frá þessu firma, þegar það er fengið með slíkum hætti. Búnaðarfjelagið átti að hafa það, og það þarf ekki að lýsa því, hvaða þýðingu þetta getur haft fyrir landbúnaðinn, þegar þess er gætt, að þetta sama verslunarhús er einnig búið að ná einkasöluumboði fyrir Ísland á flestum hinum áburðartegundunum líka. Missir umboðsins fyrir Norsk hydro er því háskalegt atriði, því að meðan umboðið var í höndum slíkrar stofnunar, gat hún ráðið verðinu og verndað notendur fyrir okri.