24.04.1926
Neðri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (1976)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Nefndin hefir nú haft þetta mál með höndum alllengi, og stafar það mjög af því, að hún hefir leitast við að afla sjer góðra gagna um málið. Bæði hefir hún fengið munnlegar skýrslur frá stjórn Búnaðarfjelagsins og framkvæmdastjórum þess og frá þeim mönnum, sem um þessi mál hafa fjallað. Ennfremur hefir stjórn Búnaðarfjelagsins afhent nefndinni ýms skjöl, sem snerta málið. Hefir nefndin gert sjer far um að rannsaka alt þetta sem best, og er nefndarálitið einskonar niðurstaða af þeirri rannsókn. Get jeg því að mestu vísað til þess og skjalanna, og skal jeg aðeins drepa á örfá atriði til skýringar.

Það er nú svo komið, að víða úti um land er vaknaður áhugi fyrir túnasléttum og nýræktun. Ber fyrst og fremst tvent til þess, hin mikla fólksekla í sveitinni og hið háa kaupgjald. Hefir það opnað augu manna fyrir nauðsyn túnræktunarinnar. Það berst oft í tal meðal bænda, að það þurfi að sljetta meira og auka heyskapinn. Þegar jeg hefi hlustað á þessar viðræður, hefir vanalega komið eitt svar: Jeg gat ekki meira, af því að mig vantaði áburð. það er áburðarskorturinn, sem er mestur þrándur í götu ræktunarinnar. Auðvitað eru til ýmsar leiðir til að bæta úr þessu, en hjer á ekki við að tala um nema eina. — Þessar aðrar leiðir eru t. d. að hirða vel áburðinn, nota kol til eldsneytis o. fl. En svo er ein leið, sem altaf verður að fara áður en lýkur, að nota tilbúinn áburð. Það er varla hægt að segja, að hann hafi verið notaður hjer fyr en á allra síðustu árum. Árin 1921 og 1922 voru ekki fluttar inn nema örfáar smálestir af tilbúnum áburði, en árið sem leið var það nálægt 500 smálestum. þessi hraðfara vöxtur bendir á, hverja þýðingu þetta muni hafa fyrir grasræktina. Þessi áburður mun mest hafa verið notaður í kringum kaupstaðina, sakir þess að þar er hægast um flutninga og verðið hæst fyrir afurðirnar. Þar munu menn og fyrst hafa komist upp á að nota tilbúinn áburð, sakir þess að þar voru fyrst notaðir til fulls allir aðrir möguleikar.

Eins og menn geta sjeð, er útlit fyrir, að tilbúinn áburður muni hafa stórmikla þýðingu hjer á landi. Þessvegna er mikil þörf á því að gera áburðinn ódýrari og sjá fyrir því, að ekki sje lagt á hann um skör fram. Til þess eru aðallega tvær leiðir: Í fyrsta lagi að lækka flutningsgjöldin, og í öðru lagi að sjá um, að hæfilega sje lagt á áburðinn. Flutningsgjöldin hafa verið afarhá undanfarið, 60 kr. — danskar held jeg — fyrir smálestina, en lækkuðu síðasta ár niður í 25 kr.

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, gerir ráð fyrir, að ríkissjóður taki á sig að greiða flutningsgjöldin. Nefndin hefir eigi sjeð ástæðu til þess, af því að þau eru nú orðin svo lág, að þau gera áburðinn lítið dýrari. Auk þess fanst okkur sumum, að það væri einskonar ölmusubeiðni frá okkur bændum, að fara þess á leit. Hitt leggjum við áherslu á og beinum því til hæstv. atvrh. og stjórnar Búnaðarfjelagsins, að alt sje gert, sem hægt er, til að fá flutningsgjöldin sem lægst, svo að áburðurinn verði sem minst dýrari á þeim höfnum, þar sem millilandaskipin koma ekki. Jeg geri ráð fyrir, að Eimskipafjelag Íslands muni sýna fullan skilning á þessu, þar sem það er undirstaðan undir ræktun landsins.

Þá kem jeg að hinu höfuðatriðinu, að álagningin sje hæfileg. Á undanförnum árum hefir Búnaðarfjelag Íslands haft á hendi einkasölu á Noregssaltpjetri og jafnan falið öðrum að fara með hana. þetta telur nefndin vera hið ákjósanlegasta skipulag. Með þessu móti getur stjórn Búnaðarfjelagsins alveg ráðið verðinu, en fjelagið þarf ekki að binda sjer neina bagga með því að eiga sjálft við verslunina. En það hefir nú því miður farið svo, að þessu er ekki lengur til að dreifa. Fyrir atvik, sem nánar er skýrt frá í nál. landbn., og jeg hirði eigi að telja hjer upp, hefir Búnaðarfjelagið mist úr hendi sjer þessi yfirráð, og er nú svo komið, að firmað Nathan & Olsen hefir náð í alla verslun með Noregssaltpjetur og annan kalksaltpjetur hjer á landi, og ræður það nú alveg verðinu. Því fremur er ástæða til að harma þetta, sem þessi saltpjetur hefir ýmsa kosti fram yfir annan tilbúinn köfnunarefnisáburð. Því virtist nefndinni komið í óvænt efni, og sá hún eigi annað ráð vænna til að tryggja notendum áburðarins, að eigi verði okrað á honum, heldur en heimila stjórninni einkasölu. Þó sá nefndin ekki ástæðu til að láta heimildina ná til nema köfnunarefnisáburðar, því að verslunin með aðrar tegundir er á fleiri höndum, og má þar vænta heilbrigðrar samkepni. M. a. hefir Mjólkurfjelag Reykjavíkur mikla sölu á áburði, og mun óhætt að treysta því, að það leggi ekki á hann um skör fram. En jafnframt því, sem nefndin leggur til, að þessi heimild sje veitt, skorar hún á stjórn Búnaðarfjelagsins og atvrh. að gera alt til þess að ná aftur umboði frá þeim verksmiðjum, sem framleiða þennan saltpjetur, eða öðrum, sem kunna að vera í uppsiglingu. Því að eins og brtt. okkar bera með sjer, kemur heimildin aðeins til greina, ef slíkt skipulag kemst ekki á. Það er engan veginn óhugsandi, að þetta megi takast, eða að atvrh. geti komist að þeim samningum við Nathan & Olsen, sem telja megi aðgengilega. Engu að síður vill nefndin halda fast við sínar tillögur til öryggis, ef alt samkomulag færi út um þúfur og enginn árangur yrði af tilraun Búnaðarfjelagsins til að ná aftur umboðinu. Um önnur atriði sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða, en vísa aðeins til nál., enda mun það vera nægilega skýrt.