24.04.1926
Neðri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (1978)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal ekki hafa á móti frv. hv. landbn., því að jeg lít svo á, að það sje alveg nýtt frv. Skilst mjer, að ástæðan til þess, að hv. nefnd hefir nú komist að þessari niðurstöðu, sem er gagnstæð niðurstöðu hennar í fyrra, muni vera sú, að breyting hefir orðið á áburðarversluninni. Nú er verslunin á Noregssaltpjetri sem sagt komin í hendur eins firma, í stað þess að í fyrra hafði Búnaðarfjelagið umsjón yfir versluninni.

Jeg vil leyfa mjer að beina þeirri spurningu til hv. landbn., hvort það sje hennar vilji, að stjórnin taki að sjer einkasölu á þessum áburði, þótt hægt verði að fá hann með kjörum, sem landstjórn og stjórn Búnaðarfjelagsins telja aðgengileg. Þessari spurningu vonast jeg til að hv. frsm. (JS) svari.

Þá langar mig til að beina þeirri fyrirspurn til hv. þm. Str. (TrÞ), sem jafnframt er formaður stjórnar Búnaðarfjelagsins, hvað stjórn þess fjelags hafi gert í málinu frá því búnaðarþingi sleit, þar til breytingin varð á versluninni með Noregssaltpjetur.

Jeg sje það af nál., og af fundargerð búnaðarþingsins í fyrra, að það hefir þá samþykt svohljóðandi ályktun:

„Búnaðarþingið beinir því til stjórnar Búnaðarfjelagsins, að hún hlutist til um, að Búnaðarfjelagið hafi á hendi umboð framvegis, um kaup á erlendum áburði.“

Nú vil jeg spyrja hv. þm. Str. (TrÞ), með tilvísun til laga Búnaðarfjelagsins, sem segja, að formaður stjórnar Búnaðarfjelagsins beri ábyrgð á því, að ályktunum búnaðarþingsins sje framfylgt, hvað hann hafi gert til þess að framkvæma þessa ályktun búnaðarþingsins.