24.04.1926
Neðri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (1984)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg ætla ekki að lengja umr. mikið úr þessu, og mun jeg því halda mjer á sama grundvelli og áður, enda þótt hæstv. atvrh. (MG) hefði undir öðrum kringumstæðum gefið mjer ástæðu til harðari deilu frá minni hendi.

Hann sagði, að jeg hefði átt að gefa skýrslu um málið. Það er einmitt það, sem jeg hefi gert, eða öllu heldur öll stjórn Búnaðarfjelags Íslands. Við gáfum landbúnaðarnefnd þingsins allar þær upplýsingar og skýrslur, eins og við vissum þær sannastar og rjettastar, og jeg álít, að þar sje hinn rjetti vettvangur. Hinsvegar tel jeg mjer ekki skylt að svara fyrirspurnum hjer í hv. deild, nema því aðeins að þær komi frá ráðherrastóli. Hæstv. atvrh. getur heldur ekki neitað því, að jeg hafi svarað honum, eins og jeg líka tel mjer skylt, þar sem jeg er form. Búnaðarfjelags Íslands.

Hann sagði líka, hæstv. ráðh. MG., að jeg hefði viljað bera af sjálfum mjer sakir. En fyrir hvað? Jeg er ekki mjer þess meðvitandi, að jeg hafi nokkuð það gert, er jeg þurfi að biðja afsökunar á.

En væri nú um einhverja sök að ræða frá minni hendi í starfsemi minni, þá eru háttv. landbúnaðarnefndir Alþingis sá rjetti aðili, sem dæma á um slíkt. Og þeim hefi jeg nú gefið skýrslu mína, sem þær hafa athugað, og ekki fengið neitt frá þeim að heyra, er þær telja saknæmt eða aðfinningavert í starfsemi minni sem trúnaðarmanns þeirra í stjórn Búnaðarfjelags Íslands.

Hæstv. atvrh. (M. G.) telur það sjerstaklega ásökunarvert í minni framkomu, að jeg skuli ekki hafa þegar í stað, er búnaðarþingi sleit, símað til Norsk hydro, eða að minsta kosti skrifað. En jeg var ekki formaður þá, og varð það ekki fyr en nokkru seinna. Og þessa ásökun í minn garð vildi hæstv. atvrh. (MG) styðja með till., er síðasta búnaðarþing samþykti. Hann las þessa till. upp, og jeg ætla líka að gera það. Hún hljóðar svo:

„Búnaðarþingið beinir því til stjórnar Búnaðarfjelagsins, að hún hlutist til um, að Búnaðarfjelagið hafi á hendi umboð framvegis um kaup á erlendum áburði.“

Mjer ætti nú að vera kunnugt um, engu síður en hæstv. ráðh. (MG), hvað lá á bak við þessa till.: að Búnaðarfjelagið hefði ástæðu til að ráða að miklu eða öllu leyti verðinu á áburðinum. Annað lá ekki á bak við till., eins og mjer mundi hafa veitst auðvelt að svara, hefði jeg gerðabók Búnaðarfjelagsins hjer við höndina.

En allar þessar umr. komu mjer að óvörum, svo jeg er ver undir það búinn að svara ýmsu því, sem til mín er beint. Þó reyndi jeg að síma eftir ýmsum gögnum, en hefi ekki fengið svar. Vegna þessa ónóga undirbúnings geta svör mín ekki miðast við nákvæmar dagsetningar.

Við töluðum um það á einhverjum fyrsta fundi búnaðarfjelagsstjórnarinnar — man ekki upp á dag, hvenær það var — að Búnaðarfjelagið hefði áhrif á verðlag það, sem yrði á áburðinum. Þetta tókst, og Mjólkurfjelag Reykajvíkur var fullkomlega ánægt með ráðstöfun Búnaðarfjelagsins. Við ljetum okkur þá ekki gruna, að nein breyting hefði orðið um þetta mál, og þetta því gert í anda Búnaðarþingsins, eins og vitanlega alt, sem gert var af okkar hálfu í máli þessu. Þessvegna er ekki um neinar ásakanir að ræða í garð þess heiðursmanns, sem þá var formaður Búnaðarfjelagsins, nje annara í stjórn þess.

Hæstv. atvrh. (MG) færði mjer helst að sök, að jeg hefði ekki þegar brugðið við og farið utan með fyrstu ferð, eftir að uppvíst var, hvernig komið var þessu máli. En jeg átti ekki heimangengt og gat ekki farið. Við vildum líka, að færasti maðurinn færi för þessa, en hann gat það heldur ekki. Þetta kom heldur ekki að neinni sök, enda skrifaði jeg Norsk hydro þá með næstu ferð, sem fjell. En þó að jeg hefði getað farið, sem mjer var óljúft og ómögulegt, þá játa jeg, að mig skorti alla sjerþekkingu til þess að semja um þessi mál í öðru ríki. En sem sagt, við bæði símuðum og skrifuðum strax og sendum síðan mann, sem enginn neitar, að væri vel hæfur til slíkrar farar.

Annars sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta að þessu sinni. En við 3. umr. býst jeg við að hafa betri gögn í höndum og nákvæmari dagsetningar en nú.