24.04.1926
Neðri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (1985)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg hefi nú í raun og veru ekki mikið að segja við hv. þm. Str. (TrÞ). Hann er hróðugur og kveðst ekki á neinn hátt vita, að hann verði að bera af sjer sakir. En þegar hann er mintur á, að 10 mánuðum eftir að búnaðarþingið gerir ályktun um áburðarsöluna, fær hann að vita, að fjelagið hefir tapað umboðinu fyrir 9 mánuðum, þá verð jeg að segja, að slælega sje fylgst með störfum Búnaðarfjelagsins og að saka megi formanninn um frámunalegt eftirlitsleysi og vanrækslu í starfi sínu. Hvort hann gefur landbn. eða Alþ. skýrslu, skiftir ekki máli, því að hvernig sem á það er litið, er það formaður þess, sem á sökina á því, hvernig komið er um þessa áburðarverslun.

Og þó að hv. þm. Str. (TrÞ) vilji afsaka sig með því, að hann hafi ekki verið formaður, þá er það engin gild ástæða. Því sannleikurinn mun sá, að þá var enginn formaður. Guðjón Guðlaugsson ljet af formannsstörfum sama daginn og till. var samþykt, og svo liðu nokkrir dagar þangað til fundur var haldinn og hv. þm. Str. (TrÞ) kosinn formaður. En þessi till. er samþykt búnaðarþings, þar sem það beinir máli sínu til stjórnar Búnaðarfjelagsins, svo hv. þm. Str. (TrÞ) getur ekki sagt, að það sje sjer óviðkomandi, þar sem hann þá var og er í stjórn fjelagsins. Hann getur heldur ekki neitað því, að ef hann hefði símað strax eða skrifað, þá hefði þetta aldrei þurft að koma fyrir, að fjelagið tapaði umboðinu.

Það er um þetta, sem jeg saka hann mest allra manna, af því að hann vissi um allan aðdraganda málsins og vissi í hvaða skyni till. var gerð, en það vissi jeg ekki fyr en löngu síðar.

Hann sagði líka, að Mjólkurfjelag Reykjavíkur væri ánægt með þessi áburðarviðskifti. En jeg hefi annars heyrt, og mjer hefir sagt maður úr fjelaginu, að hann hefði lengi verið að þjarka við firmað Nathan & Olsen um kaup á áburði, en þótti verðið ekki aðgengilegt og keypti þá heldur Chilesaltpjetur en kaupa Noregssaltpjetur hjá Nathan & Olsen. (ÞórJ: Selur ekki Nathan & Olsen dýrara en Mjólkurfjelagið?). Mjer er ekki kunnugt um það, en það má vel vera, að svo sje.

Jeg get vel trúað því, að hv. þm. Str. (TrÞ) hafi einhverra hluta vegna ekki átt heimangengt og þess vegna ekki farið á fund Norsk hydro, en hinu á jeg verra með að trúa, að hann sje svo aumur, að hann finni sig engan mann til þess að semja um slík mál sem þetta. Það er vissulega ekki svo mikill vandi að semja við firma um sölu á vöru til ákveðins lands, að hv. þm. Str. (TrÞ) geti talið mjer trú um, að hann hafi ekki vit á því. Hitt er óafsakanlegt, að eftir 10 mánuði hefir hann ekkert gert til þess að varðveita þann rjett, sem búnaðarþingið sagði honum að varðveita. Fyrir þetta á hann óþökk skilið.