27.04.1926
Neðri deild: 63. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (1992)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Fjármálaráðherra, (JÞ):

Jeg hefi verið hundinn við fjárlagaumr. í hv. Ed., en mjer var flutt, að hv. þm. Str. (TrÞ) hefði eitthvað gert að umtalsefni starfsemi mína sem landsverkfræðings, á árunum 1905–1917, og vissi jeg ekki, að tilefni til þessa mundi vera hægt að finna við umræður um það mál, sem hjer er til umræðu. Nú veit jeg ekki, hvað hv. þm. Str. (TrÞ) hefir sagt, en jeg heyrði á endirinn í svari hæstv. atvrh. (MG) til hans, og af því skildi jeg, að um einhverjar aðdróttanir eða dylgjur til mín hafi verið að ræða, um það, að jeg, Jón Þorláksson, hafi selt landsverkfræðingi Jóni Þorlákssyni einhverjar vörur á þessu tímabili. Jeg vil nota tækifærið til að lýsa því yfir, að þetta er með öllu tilhæfulaust. Jeg hefi aldrei selt ríkinu tangur eða tetur af þessu tæi. Jeg keypti þessar vörur inn fyrir hönd ríkisins frá góðum verksmiðjum, eins og skylda mín var sem slíks embættismanns, og það hefir aldrei runnið inn til mín eyris virði af því fje, sem varið var til vörukaupa til vegamála ríkisins. Jeg gef þessa yfirlýsingu hjer vegna þess, að þetta er ekki í fyrsta skiftið, sem þetta er notað til pólitískra árása á mig, og hafi hv. þm. (TrÞ) komið með einhverjar dylgjur eða aðdróttanir til mín um þetta, bið jeg þessa hv. deild, að hún leyfi það, að þessum hv. þm. (TrÞ) verði gefið tækifæri til að standa við það, sem hann hefir sagt, á öðrum vettvangi, utan þings; en hafi hv. þm. ekkert sagt í þessa átt, bið jeg hann hjer með afsökunar á þessum orðum mínum.

Um verslunina Jón Þorláksson & Norðmann get jeg sagt það, að jeg hefi átt og á ennþá hlut í því firma, en síðan jeg varð ráðherra hefi jeg engin afskifti haft af þeirri starfsemi. Og þeir opinberir starfsmenn ríkisins, sem átt hafa viðskifti við þetta firma, ef nokkrir eru, eiga þar sjálfir til að svara, því mjer er ókunnugt um það alt. Jeg veit ekkert um það nú, hverjir skifta við það firma. Hverjir hafi selt sement til skólans að Laugum, er mjer ókunnugt um; jeg hefi aldrei vitað neitt um það.