27.04.1926
Neðri deild: 63. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (1997)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Tryggvi Þórhallsson:

Eins og komið er þessu máli, þarf jeg ekki að segja nema fátt til viðbótar því, sem jeg hefi áður sagt. Sá eini, sem ráðist hefir á móti frv. sjálfu, eins og það liggur fyrir, er hv. 4. þm. Reykv. (MJ), en hv. frsm. landbn. (JS) hefir svarað því rækilega. það er satt, sem hv. þm. (MJ) sagði, að jeg bar ekki frv. fram í þeirri mynd, sem það er í nú. Jeg er sammála hv. þm. (MJ) um það, að frv. var þá betra, en jeg er eins og hv. þm. (MJ) með það, að ef ekki fæst það besta, þá geri jeg mig ánægðan með það næstbesta, og því verður ekki neitað, sem hv. deild hefir látið í ljósi, að þetta er nauðsynlegt að gera.

Hv. þm. (MJ) vjek nokkrum orðum að stjórn Búnaðarfjelags Íslands, sem jeg vildi athuga. Hv. þm. (MJ) dró dár að því, að stjórn Búnaðarfjelags Íslands hefði svo og svo marga mánuði vaðið í villu og svima um þetta. Og það er í raun og veru alveg rjett af hv. þm. (MJ) að draga dár að því. En svona var það. Það kemur fram af þessari fundargerð frá 5. mars, sem jeg las upp. Með leyfi hæstv. forseta:

„Búnaðarfjelag Íslands geri ráðstöfun til þess, að af þeim 200 smálestum, sem það á kost á að fá frá Norsk hydro ......“ (MJ: Hver stílaði þetta?) það gerði Valtýr Stefánsson, ritari stjórnarnefndar Búnaðarfjelags Íslands. Fundargerðin er stíluð eftir þeim upplýsingum, sem fyrir lágu. Og þar sem við gátum ráðstafað áburðinum eins og við vildum, og þannig, að fulltrúi notenda, Mjólkurfjelag Reykjavíkur, var fullkomlega ánægt, höfðum við enga ástæðu til að ætla, að ekki stæði við sama. — En ef hv. 4. þm. Reykv. (MJ) vill athuga þetta nokkuð nánar, þá er það ekkert undarlegt, þótt við stöndum nokkuð lengi í þessari trú, því að svo kemur ekkert til, fyr en aftur þarf að fara að panta áburð fyrir næsta vor; þessvegna er það svo eðlilegt, að við vöðum í þessari villu lengi. Hv. þm. (MJ) vildi segja, að Mjólkurfjelag Reykjavíkur hefði vitað, að Nathan & Olsen hefði fengið umboðið. Um það get jeg ekkert sagt, því að jeg er ekki í stjórn Mjólkurfjelags Reykjavíkur, og um þetta hefir það ekki sagt mjer neitt. Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) lá mjer á hálsi fyrir það, að Mjólkurfjelag Reykjavíkur væri ánægðara en Nathan & Olsen. Jeg skal játa, að hjer er um tvo ólíka aðilja að ræða. Nathan & Olsen er kaupmannsfirma, sem hefir fullan hug á að sjá sínum hag borgið í viðskiftunum, en Mjólkurfjelag Reykjavíkur er fulltrúi þeirra manna, sem áburðinn þurfa að nota.

Annars er skemtilegt að bera saman skoðun þeirra nafnanna, hæstv. atvrh. (MG) og hv. 4. þm. Reykv. (MJ), á því, hvernig jeg hefi borið mig að í þessu máli. Hæstv atvrh. (MG) gefur í skyn, að jeg hafi ekki verið á verði fyrir bændur, heldur reynst helst til vinhallur firmanu Nathan & Olsen. En svo rís hv. 4. þm. Reykv. (MJ) upp með þjósti miklum og skammar mig fyrir það, að jeg hafi verið óþægur ljár í þúfu firmanu Nathan & Olsen um þessa áburðarverslun. Sem sagt, báðir skamma mig, en jeg verð að segja það, að collega minn, hv. 4. þm. Reykv. (MJ), fer þar með rjettara mál, er hann segir, að jeg hafi verið vondur við Nathan & Olsen. Enda tel jeg mjer skylt, samkvæmt stöðu minni, ekki aðeins sem þm., heldur sem formaður Búnaðarfjelags Íslands, að standa með framleiðendunum.

Um hitt málið, sem jeg dró inn í umr., ætla jeg ekki mikið að segja, bæði vegna þess, hvernig mjer er farið, og svo líkaði mjer vel, hvað hæstv. fjrh. (JÞ) talaði friðsamlega um það. Hitt skal jeg fúslega játa, að ástæðan til þess, að jeg sneri mjer að þessu máli, var ekki önnur en sú, að jeg vildi fylgja gamla heilræðinu og gjalda hæstv. atvrh. (MG) auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Hann vildi halla á mig og finna mjer að sök, að jeg hefði ekki verið á verði um að gæta hags Búnaðarfjelagsins gagnvart þeim, sem seldu bændum erlendan áburð. Þess vegna dró jeg firmað Jón Þorláksson & Norðmann inn í umr., svo upplýst yrði, hvernig hæstv. atvrh. (MG) gæfi gætur að því firma, jafnhliða því, að hæstv. ráðh. (MG) væri mintur á, að þeir, sem búa í glerhúsi, eiga ekki að kasta steinum að fyrra bragði.

Hæstv. atvrh. (MG) spurði mig við 2. umr. eins og jeg leyfði mjer nú að spyrja hann við 3. umr. En sá er munurinn, að hann spurði mig óviðbúinn, og jeg svaraði samstundis orði til orðs, að öðru leyti en því, að jeg hafði ekki nákvæmar dagsetningar að vitna í, en hefi nú komið með þær. Hæstv. ráðh. (MG) var ekki eins lipur í svörum sínum til mín eins og jeg við hann, því að enn hefir hann engu svarað og ætlar vist ekki að gera það. Hefði jeg því getað látið vera að fara frekar út í þetta mál, ef svo illa hefði ekki tekist til, að hæstv. fjrh. (JÞ) var ekki viðstaddur, er jeg hóf spurningar mínar, en kom að vísu von bráðar, en eftir svari hans að dæma hafa einhverjir flutt honum miður áreiðanlegar fregnir af því, sem jeg var að spyrja um, og afbakað orð mín. Jeg verð að neita því fastlega, að jeg væri með dylgjur í garð hæstv. fjrh. (JÞ) eða hefði dróttað neinu óleyfilegu að honum í sambandi við starf hans sem ráðherra eða verkfræðings, þótt jeg hinsvegar mintist á firmað Jón Þorláksson & Norðmann, og spyrði hæstv. atvrh (MG) hver afstaða hans væri gagnvart því. (Fjrh. JÞ: Ýmsir hv. þdm. hafa skilið ummæli hv. þm. Str. (TrÞ) á þá leið). Það er þá gamla sagan, sem endurtekur sig, að „fýsir eyru ilt að heyra“.

Jeg spurði aðeins eins og liggur beint fyrir að spyrja, úr því að Jón Þorláksson stofnaði stóra verslun stuttu eftir að hann slepti landsverkfræðingsstarfinu, og hafði þar á boðstólum sömu vörur, sem hann hafði áður keypt fyrir landið, hvort hann hefði þá áður, sem landsverkfræðingur, verslað fyrir sig eða landið. Um annað spurði jeg ekki og skal því með fúsu geði endurtaka það utan þinghelginnar. Ef hæstv. fjrh. (JÞ) er það jafnfast í hendi, að jeg spyrji um þetta á öðrum vettvang, þá er mjer ljúft að endurtaka spurningar þessar í blaði því, er jeg stjórna. Og segjum svo, sem vel má gera ráð fyrir, að hæstv. ráðh. (JÞ) höfði mál gegn mjer fyrir þessar spurningar og að einhver dómari fáist til að dæma mig í sekt og skaðabætur fyrir þær, við getum t. d. hugsað okkur 25 þúsund krónur, þá man jeg samt ekki hika við að endurtaka spurningarnar, ef hæstv. ráðh. (JÞ) heldur áfram að krefjast þess. Hæstv. ráðh. hefir engu um það svarað, hver afstaða þessa firma hans sje gagnvart stjórninni. Hæstv. atvrh. (MG) segir aðeins, að fyrirskipað sje að kaupa efni til ríkisbygginga, þar sem best sje og ódýrast. Þetta má vel vera, en ekki verður því neitað, að aðstaðan er sjerstök, þegar eitt firmað er fjármálaráðherrans. Að minsta kosti verður því ekki neitað, hvernig sem á þetta er litið, að óheppilegt sje, að maður í jafnvandasamri stöðu eins og fjármálaráðherrasessinum skuli reka verslun með þær vörur aðallega, sem ríkið þarf að kaupa, bæði til bygginga sinna, sem margar hverjar eru ekkert smásmíði, svo og margs annars. En út í þetta skal jeg ekki fara frekar en orðið er.

Hinsvegar vildi jeg ljúka máli mínu með því að benda á í sambandi við þetta, að út af öðru frv. sem hjer er á ferðinni um sölu á síld, er mikið talað um stjórnlyndi. Að því, frv. standa allir flokksmenn hæstv. fjrh. (JÞ) í sjútvn. Virðist mjer sem þetta beri vott um það, að íhaldsflokkurinn sje að breytast og hallast að þeirri stefnu, sem hæstv. fjrh. (JÞ) hefir nýlega í tímaritsgrein nefnt stjórnlyndi. Enda verður því ekki neitað, að í þessu frv., sem meiri hl. sjútvn. ber fram, er mikið um stjórnlyndi. Jeg er ekki að víta það, en vildi aðeins vekja eftirtekt á þessari stefnubreytingu Íhaldsflokksins.