27.04.1926
Neðri deild: 63. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (1998)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Fjármálaráðherra (JÞ):

það er misskilningur hjá hv. þm. Str. (TrÞ), að jeg hafi beðið hann að endurtaka það, sem hann sagði nú. Hinu skaut jeg til hv. deildar, að hún leyfði mjer að láta þennan hv. þm. (TrÞ) standa við þær aðdróttanir, utan þinghelginnar, sem hann mælti í minn garð og ýmsir hv. þdm. skildu á þá leið, að væri bæði um sviksemi frá minni hálfu að ræða og misbeiting á embættisvaldi mínu. Slík ummæli, hafi þau verið sögð á þann hátt, þoli jeg ekki að komi hjer fram í þinghelginni, án þess að mjer veitist tækifæri til þess, að viðkomandi sje látinn standa við þau. En hvað það snertir, að ritstjóri tímans hafi góð orð um að endurtaka eitthvað þessu líkt í blaði sínu, þá er því að svara, að jeg mun ekki elta ólar við það, sem um mig kann að verða sagt í því blaði eða öðrum álíka saurblöðum.

En um afstöðu mína sem fjrh. til firmans Jón Þorláksson & Norðmann, þá er annara að svara því.

Þó skal jeg geta þess, sem raunar öllum hv. þdm. er kunnugt, að þegar jeg stofnaði verslun mína, var jeg hvorki þm. nje ráðherra, og gat ekki álitið öðruvísi en var, að mjer mundi frjálst að reka hvaða verslun sem væri, ef jeg að öðru fullnægði þeim ákvæðum, sem verslunarlöggjöfin heimtar. Hinsvegar hætti jeg að hafa afskifti af firmanu, þegar jeg varð ráðherra, og eins og jeg tók fram í dag, hefi jeg enga hugmynd um, hvort ríkissjóður verslar meira við þetta firma en önnur, enda liggja allar opinberar ráðstafanir á því sviði undir aðra deild ráðuneytisins en þá, sem jeg veiti forstöðu.