01.05.1926
Efri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

1. mál, fjárlög 1927

Halldór Steinsson:

Mjer finst það megi ekki minna vera en að jeg segi nokkur orð til að þakka háttv. fjvn. og þessari hv. þingdeild allri fyrir góðar viðtökur og skilning, sem sýndur hefir verið gagnvart tillögum um fjárveitingar til míns kjördæmis, og á jeg þar við fjárveitingarnar til Stykkishólmsvegarins og til hafnarbóta í Ólafsvík, sem hvorttveggja fjekk góða afgreiðslu. Háttv. frsm. fjvn. (EF) mælti vel og rækilega fram með þessum fjárveitingum, enda þótt jeg, sem ennþá kunnugri maður á þessum slóðum hefði getað fundið fleiri rök, ef þörf hefði verið. En hv. deild var fyllilega ljóst, að hjer var um nauðsynjamál að ræða, sem ekki þurftu frekari skýringa við.

Það kann nú einhverjum að sýnast hálffrekjulegt af mjer, er jeg ennþá við þessa umr. kem með brtt. til hækkunar og handa mínu kjördæmi, en ef menn vilja líta á, að hjer er aðeins um smáupphæð að ræða einar 500 kr., sem verja á til góðra hluta og nauðsynlegra, vænti jeg, að háttv. deild taki vægt á þessu og leyfi því, að þessi litla fjárupphæð komist inn í fjárlögin. Kvenfjelagið á Hellissandi hefir í nokkur ár haft margvíslega líknarstarfsemi með höndum og látið margt gott sjer leiða. Fyrir liðlega hálfu öðru ári síðan rjeðist fjelagið í það að ráða í sína þjónustu hjúkrunarkonu og hefir síðan goldið henni fast kaup úr fjelagssjóði. Í slíkum sjávarþorpum og þessu eru híbýli manna talsvert lakari og þrifnaði yfirleitt meira ábótavant en í stærri kaupstöðum og kauptúnum með reglubundnara skipulagi, og þess vegna er í þessháttar smáþorpum við sjóinn almenningur ver við því búinn að taka við sjúkdómum og því öllu, er þeir hafa í för með sjer. Nú er kjörum þess fólks, sem býr þarna, þannig háttað og atvinnuháttum þess, að meiri hlutinn af íbúum þorpsins fer í brott að sumrinu vegna ýmislegrar atvinnu, og þá er venjulega ekki fleira eftir heima fyrir en húsmóðirin og börn, ef þau eru, og ef til vill eitthvað af eldra og lasburða fólki, og ef veikindi ber að höndum meðan svona er ástatt á heimilunum, eru kringumstæðurnar mjög erfiðar til að taka á móti sjúkdómum. Nú hefir kvenfjelagið þarna á Hellissandi ráðist í, og þó af litlum efnum, að hafa fasta hjúkrunarkonu til að greiða úr vandræðum almennings, ef sjúkdóma ber að höndum. En fjelagið er eignalítið og tekjur þess eru aðallega árgjöld meðlima þess og ef til vill einstaka sinnum ágóði af einhverjum skemtunum eða öðrum þessháttar samkomum. Hinsvegar hefir fjelagið margvísleg önnur útgjöld, þar sem það aðallega er góðgerðafjelag og útbýtir oft gjöfum meðal þeirra, sem þess þurfa við, svo sem matvöru, klæðnaði o. fl. Ef þessar 500 kr. fást samþyktar til styrktar starfsemi fjelags þessa, getur hv. þingdeild verið þess fullviss, að þessari fjárupphæð er fult eins vel varið og ýmsum öðrum fjárveitingum, sem veittar hafa verið.

Úr því að jeg stóð upp á annað borð, ætla jeg að fara nokkrum orðum um eina brtt. á þskj. 457. Það er V. brtt., um 3000 kr. til Skúla læknis Guðjónssonar. Jeg er hræddur um, að háttv. flm. brtt. þessarar skilji ekki vel, hvað þeir eru að fara í þessu efni, og að þeir sjái ekki, að þessi brtt. er blátt áfram fálm eitt út í loftið.

Það er alment viðurkent af læknum hvar sem er, að bætiefnarannsóknir eru merkileg vísindagrein, sem getur haft talsverða þýðingu fyrir lifnaðarhætti manna í ýmsum löndum, og er því sjálfsagt að styðja þessa vísindagrein til frekari fullkomnunar. Erlendis er nú víða kappsamlega unnið að allskonar bætiefnarannsóknum. Nú er það svo, að við Íslendingar eigum fyllilega aðgang að árangri þessara rannsókna, og þess vegna er eiginlega ekki veruleg ástæða til slíkra rannsókna hjer nema á þeim fæðutegundum, sem eingöngu eða mestmegnis eru notaðar af okkur sjálfum og því koma ekki til rannsókna annarsstaðar. Jeg lít svo á, að með þessari brtt. sje útilokað, að þessi tilgangur náist; mjer skilst sem sje, að á annan veg verði brtt. ekki skilin en að þessi rannsókn verði að fara fram hjer á landi, en háttv. flm. vita ekki, hve mikið þarf til, til þess að þetta geti orðið. Það þarf t. d. m. a. alveg sjerstakar vinnustofur (laboratorium) og merkileg og dýr áhöld, og auk þess þarf að hafa og ala talsvert af dýrum til að framkvæma tilraunirnar á. (IHB: Þetta vitum við vel, og er óþarfi að taka þetta fram). Ef svo er, þá furðar mig enn meir á því, að þessi brtt. er borin hjer fram. Í stað þess hefði heldur átt að koma með brtt. um fjárframlög til að koma upp fullkominni rannsóknarstofu til bætiefnarannsókna. En til þess þarf allmikið fje. Jeg hefi talað við ýmsa lækna um þetta mál, og allir hafa þeir verið sömu skoðunar, þ. e. að það, sem brtt. fer fram á, væri fálm út í loftið. (IHB: Kemur mjer ekki á óvart, hvað þessir læknar hafa sagt). Háttv. þm. (IHB) ætti ekki að þykjast vera upp úr því vaxin að hafa ráð sjer fróðari manna um hvaða mál sem er. Margir af landsins bestu læknum hafa látið uppi það álit, að fjárveiting þessi væri þýðingarlaus eins og hún er stíluð. Þótt háttv. þm. (IHB) trúi því ekki, sem jeg segi, mun hún að líkindum trúa þessum mönnum, svo sem Gunnlaugi Claessen, Guðmundi Thoroddsen, Þórði Sveinssyni o. fl. o. fl. Nei, til að koma hjer upp bætiefnarannsóknarstofu hefði ekki veitt af tugum þúsunda, ef rannsóknastofan ætti að vera útbúin með öllu því, er þar til þarf. En eins og jeg sagði áður, eru fullkomnar rannsóknastofur víða erlendis og árangur starfs þeirra er öllum aðgengilegur, sem skilyrði hafa til að hagnýta hann. Að vísu hafa ekki verið gerðar verulegar rannsóknir á íslenskum fæðutegundum, en þó hafa nokkrar þeirra þegar verið rannsakaðar, og þarf auðvitað að senda þær vörur út, sem rannsaka skal; t. d. hafa nokkrar ísl. fæðutegundir verið sendar til Noregs til rannsóknar, þar á meðal t. d. íslenskt smjörlíki, og þetta hefir alls ekki orðið neitt tiltakanlega dýrt; það hefir kostað 170–180 kr. hver rannsókn. Þess vegna mætti fyrir þá upphæð, sem hjer er farið fram á að veita, láta rannsaka bætiefni í ca. 20 ísl. fæðutegundum. Það er því augsýnilegt, að af hagsýnisástæðum er ekkert vit í að veita þessa upphæð með þeim forsendum, sem hjer er farið fram á. Jeg vona, að háttv. þingmenn sannfærist alment um þetta. Það getur að vísu verið, að háttv. 4. landsk. (IHB) láti ekki sannfærast, og þykir mjer það leitt, að hún skuli ekki láta sjer segjast við umsagnir sjer fróðari og meiri manna í þessum efnum.