27.04.1926
Neðri deild: 63. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (2001)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Magnús Jónsson:

það getur verið dálítill vafi, hvað maður á lengi að endast til að karpa um það, sem milli ber í máli þessu. Jeg reyndi í fyrri ræðu minni að leggja málið svo skýrt fram sem kostur er eftir þeim gögnum, sem jeg hafði við höndina og vitnað hefir verið í jöfnum höndum með og móti 1) ............ . . . . . . . . þetta sjest skýrt á brjefi því, er Norsk hydro skrifaði Búnaðarfjelaginu,

þar sem það tilkynnir því fyrst í febrúar, hvernig kornið sje. Þetta sýnir, að það vill ekkert dylja, en það sýnir einnig, að hjer var ekki um neitt umboð að ræða. Ekkert brjef, engin plögg eða skjöl hafa sannað, að fjelagið hafi gefið búnaðarmálastjóra neitt umboð. Ekki er hægt að kalla það neina „afhendingu“, þó að símað væri ilt samþykki búnaðarmálastjóra með pöntun Nathan & Olsen eftir fundinn 5. mars, þar sem samkomulag náðist um umboðið. Það var ekki nema í fullu samræmi við það, sem Norsk hydro hafði sett upp, vegna þess að það hafði fram að þeim tíma afgreitt pantanir búnaðarmálastjóra. Við hinu er ómögulegt að gera, að stjórn Búnaðarfjelagsins sýnist ekkert hafa botnað í því, hvað fram fór á fundinum fyrst í mars. Það má að því leyti til sanns vegar færa, að búnaðarmálastjóri hafi „farið bak við“ stjórn Búnaðarfjelagsins, að sú blessuð stjórn sýnist vera eintómt bak í þessu máli, engin framhlið, engin augu, sjón eða heyrn. það er þægilegt að koma svo á eftir og skamma einhvern fyrir að „fara bak við“ þessháttar stjórn.

Það hefir verið gert mikið úr því, að Olsen hafi lofað að skýra frá samningunum við Norsk hydro, er hann kæmi heim aftur, en ekkert orðið úr efndum á því. Mjer er óskiljanleg þessi ásökun. Hann sem fer strax eftir heimkomu sína á fund með Búnaðarfjelagi Íslands og Mjólkurfjelaginu (hvaða erindi sem það átti þangað). Auðvitað veit jeg eigi, hvaða orð hafa þar fallið. En hann hefir lagt þar fram tilboðið um 200 tonn af Noregssaltpjetri, og það verður að samkomulagi á þessum kvöldfundi, að Nathan & Olsen fái 140 tonn en Mjólkurfjelagið 60 af þessum 200 tonnum, með því skilyrði að selja hann út á 36 kr. hver 100 kg. á hafnarbakkanum, en 38 kr. úr húsi. Um þetta kemur öllum saman. Jeg skal þá ekki um það segja, hve skýrt fulltrúi firmans hafi tekið þetta fram eða hve góður kennari hann hafi verið. Hann hefir ef til vill ekki farið að eins og þolinmóðasti kennari, sem stagast á hverju atriði þangað til lakasti tossinn í bekknum skilur það eða lærir. En ef nokkur vafi á að vera á þessu efni, þá vil jeg spyrja stjórn Búnaðarfjelagsins að einu: Hver pantaði þessi 200 tonn? Það er firmað Nathan & Olsen, sem pantar áburðinn, en ekki Búnaðarfjelagið. Þetta er alveg játað og upplýst. En þrátt fyrir alt þetta, jafnvel þótt firmað Nathan & Olsen panti, 5. mars, þá veit ekki stjórn Búnaðarfjelagsins, hver er umboðsmaður Norsk hydro, fyr en nærri ári síðar. Trúi því hver sem getur, að Búnaðarfjelagsformaður sje svona sauður!

Háttv. frsm, lagði ekki mikið upp úr sögusögninni um þessi 2%. En hjer stendur orð á móti orði. (JS: það liggur fyrir tilboð frá Mjólkurfjelaginu). Já, en það mun vera frá alt öðrum tíma, líklega haustinu 1924. En það ónýtir alls ekki tilboð Nathan & Olsen, því að það firma gerði tilboð um að útvega 200 tonn af áburði, sem það bauðst til að dreifa út um landið og selja aðeins með 2% ágóða. Er það afarlítil álagning. En formaður Búnaðarfjelags Íslands bar svo mikla umhyggju fyrir Mjólkurfjelaginu, sem langaði til að selja part af áburðinum, að það var alls ekki nóg, að bændur fengju áburðinn ódýrt, nei, það þurfti bara endilega að láta mjólkurfjelagið selja nokkuð af honum. Varð svo endirinn sá, að ákveðið var að selja áburðinn fyrir 38 kr. hver 100 kg. út úr húsi. Nú er það að vísu fært fram Mjólkurfjelaginu til ágætis, að það hafi selt áburðinn á 36 kr. út úr húsi, en Nathan & Olsen á 38 kr. En þetta sýnir ekkert annað en það, að Mjólkurfjelagið hefir gengið á gerða samninga. En hvað viðvíkur verðinu, þá var það 360 kr. smálestin á hafnarbakka, eða 380 út úr húsi samkvæmt samningum. Norska krónan stóð þá í 88 eða 89 aurum, og hefir því álagningin verið yfir 8%. Þetta er munurinn. Fyrir að Mjólkurfjelagið gæti selt 60 tonn, hafa notendur áburðarins orðið að greiða um 6 þús. kr. meira en ella. Þarna kemur fram áhugi þessara manna fyrir bændunum. Hvernig færi, ef Mjólkurfjelagið hefði allan áburðinn? Og að því einu sýnist vera stefnt með öllu þessu bramli.

Hvað því viðvíkur, að Eyjólfur Kolbeins hafi fengið nokkuð af áburði, sem hann pantaði 1924, og hafi selt hann ódýrara en Nathan & Olsen, þá er alls ekki hægt að fullyrða neitt um það. Maður verður fyrst að vita, hvenær firmað keypti og seldi sinn áburð, og bera saman við gildi norsku krónunnar. Því að hún var um það leyti afar óstöðug, svo að með sömu álagningu gat munað miklu á fáeinum dögum. Jeg veit t. d. um 2 vöruslatta, sem urðu mjög mismunandi dýrir, einmitt sökum þess að norska krónan var svo óstöðug og breytileg. Jeg ætla mjer alls ekki að fara að forsvara firmað Nathan & Olsen, að það reyni ekki að græða á vöru sinni og taka sinn ríflega kaupmannsgróða. En það á ekki heldur að leggja það í einelti, síst ef það er gert meira í þágu annars firma en almennings.

Þá vildi háttv. frsm. (JS) sýna fram á, að ástæða væri til þess að óttast, að Nathan & Olsen seldi vöru sína of dýrt, því þeir hefðu sannanlega selt Chilesaltpjetur dýrara en Mjólkurfjelagið. Jeg hafði nú aðstöðu til þess að grenslast eftir þessu í fundarhljeinu, þar sem annar aðilinn var hjer staddur. Hann sagði mjer, að þessi firmu hefðu ekki bæði haft sömu samböndin, og að Mjólkurfjelagið mundi yfirleitt hafa haft betri sambönd í Chilesaltpjetri, svo að Nathan & Olsen hefðu ekki reynst þar fyllilega samkepnisfærir. En það kostar það eitt, að sá, sem betri fær samböndin, slær hinn af hólmi.

En svo er fleira, sem aðgæta þarf, ef dæma á með fullum rjetti um þetta alt, því margt getur komið til greina og haft áhrif á niðurstöðuna. T. d. þarf að svara þessum spurningum: Var varan jafngóð eða var jafnvel frá henni gengið? Var henni pakkað um í Evrópu eða var hún seld eins og, hún kom frá Chile og í sömu pokum? Og stóðust allir sekkirnir fulla vigt? — Jeg veit ekki, hvort háttv. frsm. (JS) hefir rannsakað þetta. Mjer hefir tjáð verið, að öllum áburði Nathan & Olsen hafi verið pakkað um í Evrópuhöfn, settur í nýja poka og vigtaður upp. Jeg veit ekki, hvort Mjólkurfjelagið hefir látið gera hið sama. En fyrst, er maður veit þetta, getur maður dæmt um verðið.

Þá hefir frsm. landbn. (JS) rekið hornin í það, sem jeg sagði um fjelagið, að það mundi heldur vilja skifta við reglulegt verslunarhús en þá, sem hefðu slíkt fyrir aukastarfa. Jeg hefi heyrt, að Ræktunarfjelag Norðurlands hafi einu sinni leitast við að komast í samband við Norsk hydro, einnig reyndi Mjólkurfjelagið það og Búnaðarfjelagið, en ekkert þeirra hefir haft umboðið eða getað fengið það. Það er fyrst, þegar Nathan & Olsen kom til sögunnar, að Norsk hydro lætur umboðið til þeirra. Þeim einum virðist Norsk hydro hafa treyst til þess að fara með það, svo í lagi yrði.

Það er langt frá því, að jeg sje að væna þá menn, er í landbn. sitja, um nokkuð persónulegt í þessu máli. Enginn þeirra er heldur í Mjólkurfjelaginu, nje hið minsta við þetta riðinn. Vona jeg þá líka, að þeir væni mig ekki neins persónulegs í þessu efni, því að jeg hefi hjer alls engra hagsmuna að gæta fyrir sjálfan mig eða nokkurn möguleika til hagsmuna.

Jeg er ekkert að hafa á móti því í sjálfu sjer, að Mjólkurfjelagið hafi þetta umboð. Það er gott og öflugt fyrirtæki, og í þessari áburðarsölu skiftir það ekki aðeins við samlagsmenn, heldur og við hvern sem vera skal eins og hver annar kaupmaður. Það er alveg eins og með kaupfjelög með söludeild, sem versla við alla, meðlimi og aðra, til þess að græða sem mest. Mjólkurfjelagið mundi sennilega eins og hver annar kaupmaður vilja fá eitthvað fyrir sinn snúð, eins og sjá má af dæmi því, sem jeg hefi áður nefnt. Í því þarf ekkert óhreint að slæðast, og það er rjett, að jeg geti þess til þess að taka fyrir allan misskilning, að þó að jeg segði frá verðhækkun þeirri, sem Mjólkurfjelagið varð orsök í, þá sagði jeg það ekki til þess að sverta þá menn, sem hlut eiga að máli. Það má vel vera, að sú álagning, sem þá var sett á, hafi verið hæfileg eins og áhættan var þá mikil, og hver þarf að gæta að sjer. En það kom nú svona út, að notendurnir urðu að borga miklu hærra verð. Og jeg veit ekki, hvernig stjórn Búnaðarfjelagsins ætlar að forsvara slíka ráðstöfun, að hafna 2% álagningu, en taka 6–8%.

Mjer finst vanta hjer allar ástæður fyrir einkasölu aðrar en þær, sem eru fyrir öllum einkasölum yfirleitt. Þeir menn, sem vilja nú koma á fót einkasölu á þesari vöru, hljóta að gera það annaðhvort af einhverjum persónulegum ástæðum eða af því, að þeir vilja í einu og öllu ætíð hafa einkasölu, eru einkasölumenn í hjarta sínu. Hjer þarf alls enga einkasölu. Búnaðarfjelag Íslands og stjórnarráðið geta haft fult vald yfir verðinu Stjórnin er það voldug, að ekkert firma þorir, beint eða óbeint, að leggja sig gegn henni. En ef það kæmi fyrir, að firmað neitaði að leggja fram öll gögn, svo að hægt væri að hafa hönd í bagga, gæti jeg orðið með því að gera þær ráðstafanir, sem duga. En mjög litlar líkur eru til, að þess þurfi í þessu tilfelli, því frá Norsk hydro liggur beinlínis fyrir yfirlýst í brjefi, að það vilji láta t. d. Búnaðarfjelagið hafa gát á verðinu. Og þetta liggur líka í augum uppi. Fjelagsins hagur er auðvitað, að álagning sje sem minst.

Jeg sje, að hæstv. fjrh. (JÞ) er ekki við, en jeg verð að segja það, að enda þótt jeg ætli nú ekki að segja stjórninni upp trú og hollustu út af þessu máli, þá þótti mjer æði strembið að sitja undir síðustu ræðu hans. Fylgi mitt við núverandi stjórn hefir ekki síst bygst á eindregnu trausti til stefnu fjármálaráðherrans í verslunarmálum, og það var því hart að heyra hann nú fara að tína fram gatslitin rök einkasölumanna, einkum þeirra, sem veikir eru í málinu og þykjast aldrei vilja einkasölu alment, en finst jafnan, að í hverju máli sjeu „alveg sjerstakar ástæður“. En hjer hlaut að lenda í rökþrotum, því að hinar sjerstöku ástæður vantar. Hjer er engin einokun á köfnunarefnisáburði. Nathan & Olsen hafa að vísu einkaumboð á Noregssaltpjetri og öðrum kalksaltpjetri, en við hlið hans er Chilesaltpjeturinn, sem allir geta verslað með. Af honum er framleitt margfalt meira, og þó að köfnunarefnið sje þar bundið öðru efni, er það mjög svipað í notkun, en báðar tegundir notaðar hjer. Verðið á báðum stendur hjer um bil í járnum, því að köfnunarefnið er jafndýrt í báðum tegundunum. Jeg held, að hæstv. fjrh. (JÞ) hafi oft lagst dýpra en í þessu máli.

Hann segir, að betri sje ríkiseinkasala en einstakra manna. En einstakra manna einkasölu er bara alls ekki til að dreifa hjer. Og hann kveðst trúa stjórn Búnaðarfejlagsins fyrir henni, eftir að hafa heyrt skýra yfirlýsingu hennar um það, að hún væri í vasa Mjólkurfjelagsins. En jeg verð að segja fyrir mig, að jeg treysti henni alls ekki. — Fjrh. (JÞ) sagði, að hann óskaði þess, að Nathan & Olsen afsöluðu sjer umboðinu. En ef um það væri að ræða að fá firmað góðfúslega til að sleppa þessu umboði, þá verð jeg að segja, að valin hefir verið óheppileg leið við það að bera fram þessar tillögur, tala kuldalega og jafnvel illa um firmað sem hálfgert okurfjelag, sem hafi hjer klófest þessa nauðsynjavöru í þeim tilgangi að græða á henni. Hefði ekki verið betra að fara samningaleiðina, án þessa storms á Alþingi. Jeg veit ekki, hvort þetta hefir verið gert, býst þó ekki við því, enda liggur ekkert fyrir um það. En hætt er við, að ekki verði hægt að orða þetta nú, eftir alt, sem á undan er gengið.

Jeg hjelt, að hv. þm. Str. (TrÞ) mundi ekki verða mjer eins þakklátur og raun er á orðin, út af því, sem jeg sagði um sljóleik stjórnar Búnaðarfjelagsins, að geta ekki sjeð, hvor hefði umboðið, Búnaðarfjelagið eða Nathan & Olsen. Jeg er jafnundrandi ennþá yfir þessu, en verð þó að trúa formanni fjelagsins. Mig skal því ekki furða, þótt landbn. ympraði á því að fá betri stjórn fyrir fjelagið. En alt virðist þó þar vera í kærleika, þrátt fyrir vantraust nefndarinnar á stjórn Búnaðarfjelags Íslands.

Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði það staðreynd, að Mjólkurfjelagið og Búnaðarfjelagið hefðu ekkert um þetta vitað. En jeg get nú sannað það mótsetta um Mjólkurfjelagið. Og þar sem jeg geri ráð fyrir, að Mjólkurfjelag Reykjavíkur og Búnaðarfjelag Íslands sje nær eitt og hið sama í þessu máli, enda yfirlýst af formanni Búnaðarfjelagsins, að bæði sje hann meðlimur Mjólkurfjelagsins og vilji alt gera til að þóknast því, þá ætti þetta að vera nóg, því að þá ætti hann að hafa vitað þá hluti, sem Mjólkurfjelagið vissi um. En 20. mars er fjelaginu skrifað frá Norsk hydro, að það verði að snúa sjer til Nathan & Olsen með kaup á Noregssaltpjetri, því að fjelagið geti ekki fengið vöruna beint frá verksmiðjunni. Það er þá áreiðanlega sannað, að Mjólkurfjelagið vissi um þetta strax í marsmánuði, og sömuleiðis er það staðreynd, að allir, sem komið höfðu nærri þessum málum, vissu um það, að firmað Nathan & Olsen hafði fengið einkaumboðið í hendur. Það er aðeins stjórn Búnaðarfjelags Íslands, sem ekki vissi um þetta fyr er hjer um bil 8 mánuðum síðar, og læt jeg svo endanlega útrætt um þessa blindni Búnaðarfjelagsformannsins.

Muninn á því, að Mjólkurfjelagið eða Nathan & Olsen fari með þetta umboð, sje jeg ekki, því að hjer er aðeins um tvo hliðstæða keppinauta að ræða. það hefði ekki verið fundið að því, þó búnaðarmálastjóri hefði „afhent“ Mjólkurfjelaginu þetta ímyndaða umboð, sem hann ekki hafði. Og einu sinni óskaði hann beinlínis eftir því, að S. Í. S. tæki að sjer þessa áburðarsölu, en það vildi ekki líta við henni. En óðar en Nathan & Olsen hafa fengið umboð þetta í hendur og taka að reka verslunina með alvöru er gerður hinn mesti hvellur út af þessu.

Háttv. þm. Str. (TrÞ) kvartaði yfir því, að jeg hefði skammað hann fyrir að vera of vondur við Nathan & Olsen. Það er síður en svo, að þetta sje rjett. Það var svo langt frá því, að jeg setti ofan í við hann fyrir þetta, að mjer þótti hann einmitt alt of góður við þetta firma, þegar hann á fundinum 5. mars útvegaði firmanu alveg „óforþjent“ nokkur þúsund kr. í hreinan ágóða af þessari verslun fram yfir það, sem firmað sjálft ætlaði að setja upp.

Við háttv. þm. Barð. (HK) ætla jeg ekki að ræða málið. Jeg hefi þegar lagt fram gögnin í þessu máli og læt svo háttv. deild dæma þar um. Jeg rakti sögu málsins hlutdrægnislaust og eins og jeg vissi hana rjettasta, en háttv. þm. (HK) segir, að jeg hafi leitast við að snúa ranghverfunni út. Háttv. þm. (HK) segist vera hissa á því, að jeg, jafn-greinargóður maður og jeg sje, telji þann mann meiri einkasölumann, sem vilji koma á fót einkasölu, en (þann, sem berjist á móti einkasölufyrirkomulaginu! Jeg fer ekki að ræða frekara um þetta við hv. þm. Barð. (HK), en læt hv. þingdeild dæma okkar í milli um þetta atriði. Hitt skal jeg ekki segja neitt um, hvort háttv. þm. Barð. verður hjer eftir jafn-andvígur öllum einkasölum og áður, er hann hefir barist fyrir þessari.

Jeg get svo endað mál mitt með því að rifja upp það, sem jeg tel mig hafa upplýst í þessu máli:

1. Jeg hefi sannað, að Búnaðarfjelag Íslands hefir aldrei haft neitt „umboð“ frá Norsk hydro, og því síður nokkur sölulaun.

2. Jeg hefi sannað, að búnaðarmálastjóri hefir ekkert umboð afhent, þar sem hann hefir aldrei haft það, enda yfirlýst af Norsk hydro, að hann hafi ekki mælt með Nathan & Olsen.

3. Jeg hefi sýnt, að hjer er um alls enga einkasölu á köfnunarefnisáburði að ræða, og því ekki sú ástæða fyrir hendi til þess að koma á ríkiseinkasölu.

4. Jeg hefi sýnt, að engin ástæða er til að gruna, að verðið á Noregssaltpjetri verði ósanngjarnt, bæði af því að Norsk hydro óskar eftir eftirliti á því og af því að það er sannað, að Nathan & Olsen hefir boðið betri kjör 5. mars 1925 en Búnaðarfjelag Íslands vildi ganga að. Sú ástæða er þá ekki heldur fyrir hendi til einkasölustofnunar.

Þetta læt jeg mjer nægja að hafa sýnt og sannað og læt þar með staðar numið.

1) Hjer vantar kafla í ræðuna frá hendi skrifaranna. M. J.