27.04.1926
Neðri deild: 63. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (2002)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Fjármálaráðherra (JÞ):

það eru aðeins fáein orð til að andmæla því, sem hv. 4. þm. Reykv. (MJ) sagði, þó að jeg að vísu hafi hrakið það áður, að hjer væri ekki um einkasölu að ræða, vegna þess að enn sje hægt að fá hjer aðrar köfnunarefnistegundir til áburðar. Þetta er að vísu að nokkru leyti rjett, en þar sem öll verslun með kalksaltpjetur er þegar komin á hendur eins firma, er ekki lengur hægt að ræða um frjálsa verslun með þá vöru. (MJ: Jeg á við Noregssaltpjeturinn). Jeg vona, að jeg þurfi ekki að útskýra það fyrir háttv. þm. (MJ), að Noregssaltpjeturinn er kalksaltpjetur, en hann er talinn vera langhentugasta áburðartegundin af því tæi hjer á landi. Þessa vöru er aðeins hægt að fá frá verksmiðjunum; frá náttúrunnar hendi er ekkert til af þessari vöru, og að sleptum verksmiðjum Norsk hydro er ekki nema um samband þýsku verksmiðjanna að ræða, sem framleiða þessar vörur, en jeg hygg, að þaðan hafi ekki tekist að fá þær hingað. Nú hefir firmað Nathan & Olsen fengið einkaumboð á Íslandi fyrir sölu á þeim kalksaltpjetri, sem hingað er hægt að fá, og er hjer því um fullkomna einokun að ræða. Jeg skal játa það að vísu, að frv. fer lengra en það, að láta sjer nægja að tryggja sjer þessa vörutegund eina, en tekur til allra tilbúinna áburðartegunda yfir höfuð, en jeg fer ekki frekar út í það að svo stöddu, af hvaða ástæðum það er, enda veit jeg það ekki. En þegar þessari verslun er eins komið og nú er ástatt um hana, tel jeg, að ríkisvaldið geti aldrei við það unað. Ein leiðin til að kippa henni í lag er sú, sem frv. bendir til, og þó að hún sje óeðlileg að vísu, tel jeg þó, að til hennar megi gripa í bili.