08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2012)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Björn Kristjánsson:

Það má segja, að Íslendingum sje laus höndin, þegar um það er að ræða að búa til „Monopol“.

Ef einhver ymprar á því að koma á „Monopol“ á einhverri vörugrein, þá en það gert í von um aukinn gróða. Ávalt skýtur þeirri hugsun upp hjá sumum stjórnmálaflokkunum í landinu, að enginn megi eignast neitt og að enginn megi hagnast á öðrum. Þeir vilja með öllu upphefja það náttúrulögmál, að einn lifi á öðrum, og að hollast sje, „að báðir hafi haginn“ í viðskiftunum. En það get jeg fullvissað alla góða menn um, að það tekst aldrei að ná yfirleitt í síðasta eyrinn af hagnum í viðskiftunum, þó að menn verji til þess persónulegu, fjárhagslegu og pólitísku sjálfstæði sínu og jafnvel drengskapnum. Sá þroskalausi hugsunarháttur færir aldrei varanlegan ágóða heim í hlaðið, heldur tap og aftur tap. Viðskifti, sem bygð eru á þeim hugsunarhætti að ná í síðasta eyrinn, verða aldrei arðvænleg til frambúðar, og viðskiftaástandið í landinu ber ljósastan vott um, hve slík viðleitni, að ná í síðasta eyrinn í viðskiftunum, er hættuleg.

Af þessum hættulega viðskiftahugsunarhætti, sem er áreiðanlega mesta böl Íslands, er frv. þetta sprottið. Saga þessa máls er stuttlega sögð þannig, eftir upplýsingum þeim, er jeg hefi aflað mjer:

Árið 1922 fór búnaðarmálastjóri á fund Norsk hydro til að vita, með hvaða kjörum fjelag þetta vildi selja saltpjetur til Íslands. Mun hafa samist um, að Búnaðarfjelagið gerði einhverja tilraun með sölu saltpjetursins. Einkasölu fjekk það þó ekki. Þegar heim kom, pantaði búnaðarmálastjóri dálítinn slatta til reynslu. En á fundi Búnaðarfjelagsins, í janúar 1923, samþykti það svohljóðandi tillögu:

Samþ. að Búnaðarfjelagið hafi enga áburðarsölu á þessu ári, en vísi þeim, sem um áburð spyrja, til Sambands íslenskra samvinnufjelaga, sem pantar áburð fyrir kaupfjelögin.“

En Sambandið vildi ekki taka að sjer söluna. — Þegar S. Í. S. vildi ekki sinna málinu, fer búnaðarmálastjóri til Nathan & Olsen til þess að fá þá til að vinna fyrir því að innleiða þessa vöru. Og endalokin verða, að Nathan & Olsen fá 1925 aðalumboð hjá Norsk hydro til að selja þessa vöru hjer á landi.

Búnaðarmálastjóri hefir lagt samþykki sitt á álagningu Nathan & Olsens, sem ákveðin hefir verið á vorin 7–8%, og hefir firmað auk annars borið áhættuna af gengistapi. Verðið hefir þannig verið ákveðið á vorin, svo menn gætu pantað í tíma, sem þó sársjaldan tekst. Hefir firmað því oftast tekið á sig áhættuna af að panta vöruna upp á væntanlega sölu, svo hún yrði til í tíma. Firmað hefir svo selt saltpjeturinn út um alt land, stundum á 10 hafnir í senn, og orðið að hafa þar umboðsmenn og þess utan orðið að lána vöruna um óákveðinn tíma.

Það má nú nærri geta, hvort slík verslun gefur mikinn arð eins og á stendur, þar sem bæði verður að hafa umboðsmenn út um alt land fyrir hvern smávöruslatta og að lána vöruna að auki, þegar bankavextir eru 7½%. Menn ættu að þekkja, hversu fljótt borgun kemur, í landi, þar sem almennast er, að menn þekkja engan gjalddaga á skuld eða í verslun. Sem dæmi um þetta vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp brjefkafla frá merkum bónda, sem býr nálægt einum hafnleysukaupstaðnum og er að panta saltpjetur. Brjefið er dagsett 20. mars þ. á. og hljóðar svo:

„Heildsalar Nathan & Olsen, Rvík. Hjer með leyfi jeg mjer að gefa yður til kynna, að jeg óska að kaupa af yður á þessu ári 7 sekki af Noregssaltpjetri, og vona jeg, að jeg sje ekki of seinn með þá pöntun. Þess vil jeg geta undir eins, að jeg get ekki borgað við móttöku, en að sjálfsögðu einhverntíma á árinu.“

Firmað Nathan & Olsen á nú að þola hegningu fyrir það, sem jeg hefi nú lýst, með því að setja lög um „Monopól“, sem sviftir firmað þessum viðskiftum, sem það er löglega að komið. — Og þetta á að gera þrátt fyrir það, að firmað hefir boðist til að selja hverjum sem er saltpjeturinn með aðeins 2% álagi, ef það þarf ekki að hafa ábyrgðina á gengistapi eða öðru, nje bíða reksturstap. En þetta er alveg sama þóknunin, sem Nathan & Olsen mundu halda áfram að fá frá Norsk hydro, þó að þetta frumvarp yrði að lögum. Það er því síður en svo, að firma þetta missi nokkurs í, þótt frumvarp þetta verði að lögum.

Og það getur því ekki verið það, sem verið er að seilast eftir, að hafa fjárhagslegan hag af frumvarpinu. Nei, alls ekki. Í hinu felst hagurinn, að búa til nýjan „Monopól“; það er sósíalistastefnan, sem hjer stingur upp höfðinu enn á ný.

Og ávinningurinn yrði ekki lítill, því það eru mörg firmu hjer, sem hafa samskonar aðalumboð á útlendum nauðsynjavörum, svo sem herra H. Benediktsson; hann hefir einkasölu á smurningsolíum, sementi, hveiti og rúgmjöli frá stórum firmum. Tóbaksverslun Íslands hefir aðalumboð fyrir Ísland á tóbaki einnar stærstu heimsverslunarinnar. Þeir Johnson & Kaaber hafa aðalumboð fyrir mörg útlend firmu, þar á meðal Ludvig Davids Exportkaffi o. s. frv.

Og þessi aðalumboð þýða ekki neitt einokunarverð á vörunum; það er laust við það. Venjuleg aðalumboðslaun er 1–2% af vörunni.

Ef nú þetta frumvarp verður að lögum, þá verður næsta stigið að taka einkasöluumboðið af þessum firmum og öðrum, sem hafa aðalumboð, og að því er sjáanlega stefnt. Jeg hefi spurst fyrir um það hjá Nathan & Olsen, hvort þeir leggi nokkra áherslu á að hafa þessa sölu á hendi til einstakra manna eða fjelaga, og kváðu þeir það ekki vera. Þeir vilja gjarnan sleppa umstanginu og ábyrgðinni af sölu til almennings og una við 2% sölulaunin frá verksmiðjunni.

Jeg vænti jeg hafi þá skýrt, hversu tilefnislaust þetta frumvarp er, ef það er framborið í því skyni, að landbúnaðurinn græði á því.

Ef Norsk hydro ætti að fá sjálft að senda þessa smáslatta á allar hafnir og taka á sig alla áhættuna og ómakið, þá mundi vara þessi verða enn dýrari, og sennilega eins, þó að öðrum væri falin smásalan.

Menn ættu að sjá af þessu, að það er ekki nóg, þó að þingmenn skrifi frumvarp á hnje sjer, sem fer í þá átt að umsteypa verslunarvenjum og verslunarlögmáli heimsins.

Það hefst ekkert upp úr því nema skömm og skaði. Og það er ekki eins og Noregssaltpjetur sje eini fáanlegi saltpjeturinn til áburðar. Chilesaltpjetur er líka til og er nú sem stendur heldur ódýrari en sá norski. Það er því opin leið til að skapa samkepni, enda kvað nú í ár hafa verið pöntuð um 100 tonn af þessum saltpjetri.

Það er því ekkert, sem getur rjettlætt „Monopól“ á þessari vöru.