08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (2017)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Frsm. (Ágúst Helgason):

Mjer skildist á hv. 1. landsk. (SE), að hann teldi líklegt, að firmað Nathan & Olsen hefði lagt lítið á áburðinn. Jeg get þá sagt hv. þingm., að árið 1924 lagði firmað 15–18% á áburðinn, og tel jeg það ekkert smáræði. En á sama tíma bauðst annað firma til þess að selja áburðinn fyrir Búnaðarfjelag Íslands með aðeins 2% álagningu. Hjer er nokkuð mikill munur á.

Háttv. 1. þm. G.-K. (BK) hjelt því fram, að firmað Nathan & Olsen mundi halda umboðinu jafnt eftir sem áður, þó að frv. þetta yrði samþ., og halda sínum launum. Háttv. þm. ætti þá ekki að taka sárt firmans vegna, þó frv. yrði samþykt. En þar sem firmað hefir ekki gert samning við Norsk hydro nema til tveggja ára, er ekki ólíklegt, að eftir þau 2 ár gætu umboðslaunin til Nathan & Olsen horfið. Mjer finst kenna nokkurs ósamræmis hjá háttv. 1. þm. G.-K. (BK), þar sem hann segir, að hagnaður firmans af þessari verslun sje mjög lítill, en telur hins vegar verið að svifta firmað lífsviðurværi sínu með frumv. (BK: Brot af því). Búnaðarfjelag Íslands á ekkert lífsviðurværi að hafa af sölu áburðarins, það er munurinn; það á engar tekjur að hafa af sölunni, en bændur eiga að fá áburðinn með sannvirði, álagslaust. Í því liggur munurinn.