15.02.1926
Neðri deild: 7. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (2020)

22. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Flm. (Jón Baldvinsson):

Frv. þetta þarf í rauninni engra skýringa við fram yfir það, sem tekið er fram í greinargerð frv. sjálfs. Þó skal jeg víkja aðeins í fáeinum orðum að því sumu, sem þar er tekið fram. Kjördæmaskiftingin í landinu er nú orðin mjög ranglát vegna breyttrar aðstöðu. En það hefir jafnan verið regla löggjafarvaldsins að bæta úr þessu, þar sem kjördæmaskiftingin hefir verið orðin mjög ranglát. Þannig var t. d. á sínum tíma Ísafjarðarsýslu skift í tvö kjördæmi, þrátt fyrir það, þó að vestursýslan hefði eigi nema 1/3, fólksfjölda á móts við norðursýsluna, og ári síðar voru fjórir helstu kaupstaðirnir gerðir að sjerstökum kjördæmum, þeir, er eigi höfðu kosið þingmann sjerstaklega; þingmönnum í Reykjavík var síðar fjölgað úr 2 í fjóra.

Seinna hefir hitt verið tekið upp, að skifta kjördæmunum; var það síðast árið 1922. Þá var skift Húnavatnssýslu, sem áður kaus í einu lagi tvo þingmenn, en nú er það svo, að austur- og vestursýslan kjósa hvor sinn þingmann.

Það, sem hjer er farið fram á, er, að Gullbringu- og Kjósarsýslu sje skift í tvö kjördæmi, að Hafnarfjörður verði eitt kjördæmi og kjósi einn þingmann, Gullbringu- og Kjósarsýsla kjósi einn. þetta mál hefir verið hjer frá því árið 1920, þegar þingmönnum Reykjavíkur var fjölgað, þá kom um leið til orða að bæta við einum þingmanni fyrir Hafnarfjörð; hann var þá orðinn svo fjölmennur, að hann átti fullan rjett á því. Þá var það ekki tekið til greina, en síðar var málið flutt aftur, en þó ekki eins og nú. Það kom fram sú tillaga á þinginu 1922, að bæta við einum þm. fyrir Hafnarfjörð, en að Gullbringu- og Kjósarsýsla kysi tvo eins og áður. Nú hefi jeg ekki treyst mjer til að fara fram á þetta gegn þeirri miklu mótstöðu, sem verið hefir hjer á þinginu gegn því að fjölga kjördæmum, jeg hefi því farið fram á, að kjördæminu verði skift eins og hjer segir. Mannfjöldinn í sýslunum ætla jeg að sje eitthvað hálft sjöunda þúsund, eða það var hann eftir manntali í desember 1924. Geri jeg ekki ráð fyrir, að fjölgað hafi til muna í sjálfum sýslufjelögunum, en hinsvegar hefir fjölgað til muna í Hafnarfirði; nú eru þar um 3000 manns, eða nákvæmlega 2998 manns, eftir manntali í nóvember 1925, en hinsvegar var í Hafnarfirði árið 1924 liðlega 2400 manns. Það sýnir sig því, að í sýslunum mun vera nálægt 4000 manns, á móti því, sem Hafnarfjörður hefir nú 3000; það munar því dálitlu. Má í þessu sambandi benda á Vestur-Ísafjarðarsýslu, sem kýs sjerstök á móti norðursýslunni, sem mun hafa eitthvað 1/3 færri íbúa.

Atvinnuhættir manna í Hafnarfirði eru nokkrir aðrir en í sýslunni; í kaupstaðnum er allur fjöldinn daglaunamenn. Áður var svo, að í Kjósarsýslu var mest stundaður landbúnaður og er enn, en í Gullbringusýslu stunduðu menn mest sjó, þó einnig væri þar nokkur búskapur. En nú er þetta að breytast þannig, að í Gullbringusýslu er nú á síðari árum að aukast ræktun landsins, og margir að hverfa frá sjávarútveginum og stunda nær eingöngu landbúnað. Er því nú orðið svipað um atvinnuhætti í sýslunum. Fer því vel á því, að þær kjósi einn fulltrúa saman, en að Hafnfirðingar, sem hafa annara hagsmuna að gæta, fái sinn sjerstaka þingmann. Vonast jeg til, að ekki þurfi að flytja fleiri rök fyrir þessu máli, og vil biðja þess, að frv. verði vísað til allshn., sem mun eiga að hafa slík mál sem þessi til meðferðar.