09.03.1926
Neðri deild: 26. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í C-deild Alþingistíðinda. (2030)

22. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Ólafur Thors:

Jeg vil fyrst og fremst leiðrjetta það, sem hv. 2. þm. Reykv. (JBald) sagði um aðstöðu bæjarfulltrúanna í Hafnarfirði til þessa máls. Hann taldi þá undantekningarlaust vera því fylgjandi. En það er fyllilega víst, að svo er ekki, þó að þeir jafnvel fyrir kurteisis sakir hafi ekki látið það koma fram í þeim skjölum, sem sendast áttu til Alþingis.

Þá vildi þessi hv. þm. draga í efa, að atvinnureksturinn í Hafnarfirði stæði ekki föstum fótum. En það er sannarlega víst, hvað sem hann segir. Atvinnureksturinn þar byggist að miklu leyti á því, að þaðan stunda 6 skip veiðar, sem aðeins hafa leyfi til að vera þar um takmarkað árabil. Þegar svo sá leyfistími er útrunninn, er ekki víst, að önnur skip verði til að fylla skarðið. Að minsta kosti sje jeg engar líkur til þess, að botnvörpuskipum fjölgi hjer á næstu árum.

Þá heyrðist mjer þessi hv. þm. vilja halda því fram og leggja jafnvel áherslu á, að jeg væri á móti frv. þessu af því, að það væri borið fram eftir óskum 7–800 manna úr einum stjórnmálaflokki. En þetta er alls ekki rjett. Jeg er á móti því, af því að jeg get ekki orðið við óskum þessara manna, nema með því að breyta á móti óskum annars ennþá stærri flokks og bera rjett hans fyrir borð.

Þá beindi hann þeirri ósk til mín, að jeg kæmi fram með frv. og brtt. um tvo þm. fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu og einn fyrir Hafnarfjörð. Jafnframt beindi hann til hv. 2. þm. Eyf. (BSt) að koma sömuleiðis fram með brtt. um fjölgun þingmanna í Eyjafjarðarsýslu. En þetta tel jeg alveg óskyld mál, svo óskyld, að jeg er ekkert viss um, að jeg væri með fjölgun þingmanna fyrir Eyjafjarðarsýslu, þó jeg fylgdi slíkri fjölgun fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu. Annars vil jeg skora á hv. flm. (JBald) sjálfan að koma fram með slíkar brtt., þá má vel vera, að jeg greiddi þeim atkvæði.