09.03.1926
Neðri deild: 26. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (2032)

22. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg get svarað þeim báðum undir eins, hv. frsm. meiri hl. (PO) og hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), að því er snertir það, að atvinnureksturinn í Hafnarfirði sje í lausu lofti. Þeir hafa báðir bygt það á því, að aðalatvinnurekendurnir þar væru útlendingar, sem aðeins hefðu leyfi til að vera hjer um ákveðinn tíma. Jeg vil nú spyrja: Eru nokkrar líkur fyrir því, að leyfi þetta fáist ekki framlengt? Jeg held ekki. Heldur virðist margt benda til þess, að það verði auðsótt að fá það framlengt. Er því ekkert ólíklegt, að togaraflotinn fjölgi þar enn, og jafnframt fólk í bænum.

Þá vjek hv. frsm. meiri hl. (PO) að því, sem jeg sagði um undirbúninginn undir skiftingu Húnavatnssýslu í tvö kjördæmi, og gat ekki neitað því, sem jeg las upp, og viðurkendi jafnframt, að þingið hefði ekki verið nógu strangt í kröfum. En þar lá opin leið að rjettlætinu, og hversvegna skyldi hún ekki eiga að vera það eins hjer?

Jeg get nú farið að stytta þessar umræður. En áður en jeg hætti, vil jeg aðeins víkja örlítið að þeirri yfirlýsingu, sem hv. 2. þm. G. K. (ÓTh) gaf, að hann með ánægju skyldi greiða atkvæði með brtt. um fjölgun þingmanna í Gullbringu- og Kjósarsýslu, þannig að sýslan hefði 2, en Hafnarfjörður 1 þm. Jafnframt skildist mjer á hv. 2. þm. Eyf. (BSt), að hann mundi ljá málinu stuðning á þessum grundvelli. Út af þessu vil jeg nú skjóta því til þessara hv. þm., hvort þeir vilji nú ekki styðja frv. þetta til 3. umr., svo hægt verði að koma þessum breytingum að. Því jeg er tilbúinn að greiða atkvæði um fjölgun þingmanna á þennan hátt.

Jeg vona því, að hv. deild felli ekki málið frá 3. umr.