10.03.1926
Efri deild: 24. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (2051)

59. mál, gróðaskattur

Flm. (Jónas Jónsson):

Það voru á síðasta þingi tvö mál til umr., sem áttu sammerkt í því, að bæði vöktu mikla eftirtekt, og um þau stóð sá styr, sem hverju stóru nýmæli fylgir, en bæði dagaði uppi að lokum.

Að öðru þessu máli, ríkislögreglunni, stóð hæstv. forsrh. (JM), en hitt flutti jeg, og vildi jeg með því auka ræktun landsins til stórra muna og fjölga nýbýlum. Jeg held, að það sje ekki ofmælt, að við flm. höfum með þessum frv. vakið meira umtal um þau tvö mál en venja hefir verið um önnur mál, sem borin hafa verið fram á Alþingi, þó óskyld væru að efni og ekki lægi annað fyrir þeim en að sofna í nefnd. Bæði þessi mál hafa vakið mikla eftirtekt út um land, en sú athygli er ekki sama eðlis. Alþingi hafa nú í vetur borist ákveðnari mótmæli gegn ríkislögreglu víðsvegar að af landinu en dæmi eru til um nokkurt annað mál, sem fyrir því hefir legið.

Hitt frv., sem jeg flutti, um ræktun landsins og fjölgun býla, hefir að vísu ekki hlotið mikil opinber meðmæli, svo kunnugt sje, en hins vegar hefir mjer borist fjöldi áskorana úr öllum kjördæmum landsins og einróma óskir um, að það fái fram að ganga. Hæstv. forsrh. (JM) hefir ekki borið sitt stóra frv. um ríkislögreglu fram í vetur, enda mun hann ekki treysta sjer til að blása lífi í það. Það er því að líkindum dauðadæmt um tíma og eilífð. Hinsvegar geri jeg ráð fyrir að koma með frv. í líka átt og í fyrra einu sinni á ári, á meðan jeg á sæti á Alþingi, ef það gengur ekki fram áður. Og það geri jeg vegna þess, að mjer er ljóst, að hjer liggur á bak við svo merkileg hugsjón, að hún á það skilið að vera borin fram til sigurs.

Þó að ýmsir vilji, af vanmætti þó, vekja ótrú á þessu máli, játar þó allur fjöldinn, að hjer sje um þá nauðsyn að ræða, sem framtíð sveitanna og landsins yfir höfuð byggist á. — Jeg skal t. d. geta þess, að áhrifamikill embættismaður, sem er andstæðingur minn í landsmálum, sagði í haust, að það yrði að kaupa fólkið til þess að vera kyrt í sveitunum, eða koma þangað heim aftur nokkru af þeim fjölda, sem útgerðin hefir sogað til sín og gengur nú atvinnulaus á mölinni. Sú skoðun ryður sjer meir og meir til rúms, að framtíð landsins velti á ræktun sveitanna. Þessvegna verður þjóðfjelagið að hlynna að því, að sveitirnar verði vistlegri og byggilegri.

Eins og hv. þdm. rekur minni til, var frv. mitt í fyrra í dálítið öðru formi. Nú hef jeg ráðist í að bera það fram í tveim frv., og er þetta sá hlutinn, sem fjallar um, hversu fjár ber að afla til byggingar- og landnámssjóðsins.

Á þskj. 101 er gerð grein fyrir tilgangi þessa frv. og lagt til, að tekinn sje upp hátekjuskattur og eignaskattur, í líkingu við það, sem Englendingar kalla „Supertax“.

Það, sem aðallega vakti mótbyr í fyrra hjer í hv. deild, var, að þeir, sem greiða áttu skatt af tekjum sínum og eignum og með því bera kostnaðinn af ræktun landsins, urðu að greiða skattinn af höndum, hvort sem áraði fyrir þeim vel eða illa.

Jeg færði þá fram sem rök fyrir þessari skoðun minni, að eins og skattamálum landsins er nú háttað, þá er gengið jafnhart eftir sköttum hjá almenningi, án nokkurs tillits til þess, hvernig áraði. T. d. þektist engin ívilnun um tollana, allir yrðu jafnt að greiða þá, þó afkoma almennings væri á öllum svið- um mjög slæm.

En til þess nú að mæta þessum mótbárum, sem búast mátti við, að stinga mundu aftur upp höfðinu, sá jeg, að heppilegra mundi vera að breyta þessu á þá leið að gera úr því hreinan og beinan gróðaskatt (Supertax), þ. e. m. ö. o., að þeir, sem hafa tekjur yfir eitthvert ákveðið lágmark, greiða ákveðið hundraðsgjald í sjóðinn, sömuleiðis þeir, sem eiga eignir, sem virtar eru yfir ákveðna lágmarksupphæð. Með þessu er ekki hægt að segja, að skatturinn komi hart niður í vondu ári, því hann greiðist því aðeins, að um raunverulegar tekjur og eignir sje að ræða. Hinsvegar má vel vera, að finna megi heppilegri skattstiga, en þann, sem jeg hefi komið með í 3. gr. frv.

Annars virðist mjer ekki úr vegi að benda hv. þdm. á það, að þó að við tækjum upp gróðaskatt, þá er það ekkert einsdæmi. Í því atriði þykir mjer hlýða að nefna fáein atriði úr síðustu fjárlögum Englendinga. Árið 1925 námu tollar og óbeinir skattar um 240 milj. £, beinu skattarnir 430 milj., tekjuskattur 262 milj. og gróðaskattur eða „Supertax“ um 63 miljónum sterlingspunda.

Nú eru að vísu ólíkar ástæður okkar og Englendinga og tölurnar að því leyti ekki sambærilegar. En þó að efnamismunurinn sje mikill, sýnir þetta þó, að þessi mikla fjármálaþjóð hefir gróðaskatt. Stóreignamenn á Englandi greiða þannig ekki aðeins venjulegan tekjuskatt, heldur einnig hátekjuskatt. Og ef hæstv. stjórn teldi sjer skylt að vera á móti þessu frv. um gróðaskatt, af því að hún er íhaldsstjórn, þá skal jeg benda henni á það, að henni mundi sæma fullvel að fara að dæmi Englendinga í þessu efni. En það var einmitt Íhaldsstjórnin á Englandi, sem stóð að fjárlögum þar 1925.

Þá vil jeg minna á það, að áður fyr á stríðsárunum var hjer settur gróðaskattur, sem fjell niður, þegar tekjuskattslögin voru sett 1921. En við umræður þess máls, á þingi 1921, kom það í ljós, að þau lög eru mjög væg á hærri tekjum, og er enda alment álit, að svo hafi líka verið.

Að síðustu skal jeg víkja að því atriði, hversvegna mjer finst einmitt þessi tegund skatta eiga að mæta þeirri tegund eyðslu, sem hjer er til ætlast. Það er kunnugt, að eftir síðustu kosningar voru lögð fyrir þingið og samþykt með nærri einróma samþykki allra þingmanna nokkur skattalög, sem gengu æði nærri pyngju því nær allra landsmanna, þar á meðal lögin um verðtoll og lög um 25% gengisviðauka á tollum. Þessi skattur hefir dregið ríkissjóði drjúgt og átt mestan þátt í því að rjetta fjárhag hans, en jafnframt er gengið mjög nærri öllum þorra gjaldenda, svo sjálfur fjrh. (JÞ) talar nú um, að slaka verði á klónni, þegar talað er um ný útgjöld. Jeg álít, að í hvert skifti sem efnt er til nýrra útgjalda, eins og t. d. berklavarnalagannna, þá verði um leið að sjá fyrir nýjum tekjum. Því það er ekki nóg að sýna fram á þörf fyrir eyðslu, það verður jafnframt að sjá fyrir tekjum til þess að mæta eyðslunni. Jeg hefi nú gert það sennilegt, að ekki muni auðvelt að koma á nýjum sköttum samskonar og verðtollinum 1924. Sú leið hefir nú verið reynd til þrautar. En þar sem nú megnið af tekjum ríkissjóðs er fengið með sköttum, sem nálega hvíla jafnþungt á öllum, án tillits til efna og ástæðna, þá er auðsjeð, að þeir menn sleppa tiltölulega vel, sem miklar tekjur hafa. Og þar sem nú er farið að reka höfuðatvinnuveginn, útgerðina, í stærri og stærri stíl ár frá ári, þá hefir löggjafinn tæplega við að fylgja þeirri þróun eftir. Þegar hjer voru fyrst sett lög um tekjuskatt 1877, þá voru þeir menn svo fáir, sem miklar tekjur höfðu, að ekki þótti taka því að hafa skattstigann hækkandi, svo að um munaði.

Nú hefir stóreignamönnum fjölgað, og sömuleiðis hafa risið hjer upp stóratvinnufyrirtæki, sem rekin eru af útlendum mönnum að sumu leyti. Jeg er ekki í vafa um það, að t. d. síldarverksmiðjurnar, sem sumar hafa rakað saman miklu fje, borga nú minna en vera ætti. En eftir þessu frv. koma þær til með að greiða allmikið af þessum nauðsynlegu útgjöldum. Hjer er ekki um annað að gera en að styðja býlafjölgun og ræktun landsins með fje frá þeim mönnum og fyrirtækjum, sem mestar hafa tekjur og meiri eignir eiga en allur fjöldinn af landsmönnum, og nú sleppa að margra áliti óþarflega ljett við skatta til ríkisins. Ennfremur álít jeg, að eðlilegt samband sje á milli ræktunar og hátekjuskatts. Því það, sem nú er að gerast í þjóðfjelaginu, er þetta: Stórfyrirtæki, eins og t. d. síldarverksmiðjur, bjóða fólkinu með hverju ári meira og meira kaup og hafa á þann hátt dregið til sín fólkið úr sveitunum, og með vinnu þess fólks safna þær nú gróða sínum. Það virðist því eðlilegt, að stórfyrirtækjum, sem bygð eru að miklu leyti á vinnu þessa fólks, sem fátæk sveitabýlin hafa alið upp, gefist nú kostur á því að gjalda þá skuld.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara um málið fleiri orðum, en geri það loks að till. minni, að frv. verði, að þessari umr. lokinni, vísað til fjhn.