10.05.1926
Efri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (2058)

59. mál, gróðaskattur

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Hv. þm. (JJós) hefir reynt að útmála það með mjög sterkum litum, hve vondir þeir menn hljóti að vera, sem vilja gera tilraun til þess að koma á gróðaskatti á Íslandi. Það mátti skilja það á háttv. þm., að það gætu tæplega aðrir en „bolsar“ eða blóðugir byltingamenn látið sjer detta slíkt í hug. Í Englandi eru 2 íhaldsmenn á móti hverjum einum hinna í þinginu, og þar er mikils hluta af tekjum ríkisins aflað með gróðaskatti. Það er aðeins af vanþekkingu hjá hv. þm. (JJós), að hann talar svona um þetta. Hann veit ekki, að víða í þeim löndum, þar sem flokksbræður hans ráða mestu, er langmestum hluta af tekjunum aflað með beinum sköttum. Eða eru íhaldsmennirnir í Englandi bolsivíkar? Það lítur helst út fyrir, að hv. þm. haldi, að það eigi að hafa eitthvað af honum, að það sjeu „bolsarnir“ í Vestmannaeyjum, sem sjeu að hrella hann. Í upphafi ræðu sinnar hjelt háttv. frsm. meiri hl. því fram, að það væri undarlegt að vera að minnast á útlendu fyrirtækin, en hvað kom fyrir hann sjálfan og hans kæra fjelaga, hv. 1. þm. G.-K. (BK), í síldarmálinu? Fyrst Íhaldsflokkurinn leggur svona mikið á sig vegna síldarleppanna, þá ætti það ekki að vera nein goðgá, þó að jeg bendi á, að leggja ætti gróðaskatt á útlend fyrirtæki, sem gefa af sjer mörg hundruð þúsund krónur í hreinan arð. Eða hver býst við því, að þessir stórgróðamenn eins og Krossanesherrann láti okkur njóta góðs af því, að þeir raka saman fje? Líkara er, að þeir dvelji hjer aðeins inn stundarsakir, meðan þeir eru að raka saman fje, og fari síðan með það, sem þeir hafa aflað. Föðurlandsástin kemur fram í fleiri myndum en að vilja afhenda landið undir útlent vald, hún kemur líka fram í viðkvæmni fyrir því, að útlendir stórgróðamenn þurfi að greiða hjer nokkur gjöld. Jeg kalla það sama sem ekki neitt, þó að fyrirtæki, sem hefir 700 þús. kr. tekjur á ári, greiði 15 þús. kr. útsvar. Þá vildi háttv. frsm. meiri hl. (JJós) halda gróðaskattinum alveg aðgreindum frá landnámssjóðnum. Það er ómögulegt, því að það er tekið fram í frv., til hvers eigi að nota skattinn, og skatturinn er lagður á vegna landnámsins og húsagerðar. En jeg skil það vel, að það er örðugt fyrir hv. þm. (JJós) að hafa óbrjálaðar skoðanir á þessu máli. Samhliða því, að hann heldur fram ágæti útgerðarinnar, upplýsir hann, að mörg fjelög hafi tapað nú á vertíðinni, um hábjargræðistímann, en það var þó heppilegt, að það var ekki Kári, sem fyrir því varð, eftir alt sem á undan var gengið með hann. Annars er gott að fá upplýsingar um þetta, og helst hvaða fjelög það mundu verða, sem næst kæmu til þingsins og heimtuðu ábyrgð ríkissjóðs. Jeg leyfi mjer að benda á, að þessi ágætu fyrirtæki borguðu oft lítið til ríkissjóðs og að á verri árunum lenti það á öðrum. Á slíkum árum borga þessi 30–40 stórgróðafyrirtæki í Reykjavík ca. 1000 kr. hvert. Og nú er það meiningin að ljetta undir með þessum ágætu fyrirtækjum með því að gefa þeim eftir allmikinn hluta af kolatolli og salttolli o. s. frv. það kom óþægilega við háttv. þm., þegar jeg benti honum á, að þessi fyrirtæki, sem eru í einu bæði rík og fátæk, borguðu óeðlilega hátt kaup. En þetta kaup verður vitanlega ekki of hátt fyrir þá, sem við taka, því að þar koma aðrir til skjalanna, bæði lóðaspekúlantar hjer í Reykjavík og Vestmannaeyjum og ýmsir óþarfir milliliðir, sem liggja í launsátri og hirða alt það, sem þessir menn kunna að hafa afgangs. En mundu þá ekki þessar verslanir sumar, sem leggjast á gróðann, geta borgað gróðaskatt? Jeg er hræddur um, að þær mundu verða að gera það í Englandi hjá íhalds-bolsum, sem þar ráða nú. En það kann að vera, að þeir hafi lag á að fara eftir þeirri bendingu sem kom fram í ræðu hæstv. fjrh. (JÞ) í fyrra, þar sem hann sagði, að þessi fyrirtæki mundu neyðast til, annaðhvort að gefa skakt upp eða flýja land.

Jeg býst við, að það sje Gróusaga, að efnamennirnir sjeu svona slæmir. En jeg tala eins um þetta, hvort sem jeg tala við gróðamenn og spekúlanta úr Vestmannaeyjum eða við bændur. Það er boðið óvenjuhátt kaup, þótt það verði viðtakendum til lítillar hamingju. Það er hart, að bændur í Borgarfirði og Árnessýslu skuli verða að borga hærra kaup en bændur á Sjálandi, aðeins af því, að þessir spekúlantar hjer sprengja upp kaupið. Jeg hefi útskýrt, hvernig útkoman verður, þegar verkamenn fá hærra kaup, því peningarnir eru aftur reittir af þeim með verslun og braski. Ennfremur með hárri húsaleigu. Og þeir, sem finna til með þessu fólki og hafa einhvern skilning á kjörum þess, óska þess, að það komist á jarðir uppi í sveit og geti stofnað þar sjálfstæð heimili, í stað þess að það sje í kaupstöðunum, að vísu á hærra kaupi, en líðandi illa, af því að spekúlantarnir fjefletta það. Hv. frsm. meiri hl. (JJós) talaði um það, að jeg vildi taka síðasta eyrinn af atvinnurekendum. Athugum það. Ef spekúlant í Vestmannaeyjum hefir hundrað þúsund króna gróða, á hann að greiða 250 krónur af hverju þúsundi. Jeg veit ekki, hvernig þetta samrýmist kenningu háttv. frsm. meiri hl., að þetta sje síðasti eyririnn. Ef brtt. er tekin, verður maður, sem hefir jafnmikinn gróða, að borga 100 kr. af þúsundi. Jeg held, að háttv. þm. hafi eitthvað súrnað í augum, svo að þessi upphæð hafi stækkað í huga hans. Hann á eftir, um leið og hann rökstyður þetta með síðasta eyrinn, að sýna fram á, hvernig stendur á því, að íhaldsbolsarnir í Englandi þola að borga 63 milj. hunda í gróðaskatt jafnhliða tekjuskattinum.

Þessi hugmynd um gróðaskatt hefir mikið fylgi. Hún er sterkari í landinu en hún var í fyrra, og er það þróun allra góðra hugmynda. Jeg geri ráð fyrir því, að eins sje með hana og kæliskipið. Fyrst var sú hugmynd hundsuð og hrakin, en þegar hún fór að fá fylgi, urðu þeir með, sem áður voru á móti.

Þá held jeg, að hv. þm. (JJós) hafi eitthvað skjátlast með útsvörin hjerna í bænum, jeg hefi bent á, að þau eru lægri en í fyrra á öllum hinum hærri gjaldendum, en eru þyngst á öllum, sem ekki lifa á spekúlatiónum, af því að þær hafa gengið illa, og svo vilja þeir ekki taka lán til þess að borga útsvörin, þótt aðrir verði að gera það. Háttv. þm. kvartaði undan því, að jeg hefði ekki komið með neinar nýjar röksemdir. Jeg hefi haft nóg af þeim. Það hefir aðeins vantað skilninginn hjá þeim, sem við eiga að taka. Ef heimtaðar eru af mjer aðrar eins röksemdir nú og þær, sem heimtaðar voru af háttv. þm. í síldareinkasölunni, þá verð jeg að segja það, að jeg get ekki leikið það heljarstökk eftir hv. þm. Vestm. (JJós), sagt það hvítt í ár, sem var svart í fyrra. Það er ekki sanngjarnt að heimta af nokkrum hvítum manni annan eins snúning og þann, sem tveir menn í hv. fjhn. hafa gert sig seka um í einkasölumálunum.

Það er undarlegt, að af engu umhverfðist hv. þm. Vestm. (JJós) eins og orðum þeim, sem jeg hafði eftir húsbónda hans, hæstv. fjrh. (JÞ). Jeg tók þau úr Lögrjettu 1908. En í stað þess að snúa reiði sinni að húsbónda sínum, fyrir að segja þetta, þá beinir hann henni til mín, eins og jeg bæri ábyrgð á því, sem hæstv. ráðherra hefir sagt um eðli íhaldsins, sem jeg veit ekki betur en að sje hárrjett. En þessi reiði verður að koma niður á sjálfum æðstapresti þessara kenninga. Hæstv. fjrh. (JJ) segir í Lögrjettu, að frumástæðan sje hreint og beint sú, að efnamennirnir skipi sjer í flokk til þess að gæta hagsmuna sinna, og að efnaminni mennirnir sjeu í framsóknarflokk, vilji þeir hafa peninga til að koma á framförum, en það vilji hinir ekki, vegna hagsmuna sinna. Hvað á þá að segja um annað eins skynskiftingsskap og það, að áfellast mig fyrir það, sem ráðherrann hefir sagt og getur rökstutt með nægum ástæðum í fræðiritum, ef hann vill knjesetja hv. þm. um þetta atriði.

Háttv. þm. (JJós) kom með dylgjur um, að jeg hefði tvennskonar skoðanir, annarsvegar með bændum og hinsvegar með kommúnistum. Hann kom ekki með nein rök til þess að útskýra þetta. Háttv. þm. veit, að jeg hefi allmjög fylgt fram málum bænda. Jeg þarf ekki að rökstyðja það á annan hátt en að vísa til þessa frv., sem gerir djúptækastar ráðstafanir til bóta á kjörum þeirra, einmitt þess frv., sem hann vill hjer fella. Ef háttv. þm. vefengir, að þetta sje djúptækasta úrræðið þeim til handa, þá vil jeg, að hann nefni úrræði íhaldsins til viðreisnar og eflingar sveitunum. Jeg vil biðja hann að útskýra, hvernig frv. mín og ræður mínar á þingi vinna að því að koma hjer upp ríkisrekstri í einu og öllu. Geti hann það ekki, þá vil jeg leyfa mjer að lýsa hann opinberan ósannindamann að því, að jeg vinni að stefnumálum sameignarmanna. En til þess að bjarga honum frá einni vitleysunni enn, vil jeg segja frá því, hvernig fór fyrir einum af fjelögum hans norður í landi í sumar. Það var hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ). Hann sagði, að ef framsóknarmenn tækju við völdum hjer, færi alt eins og í Rússlandi, allar jarðeignir yrðu teknar af bændunum og gerðar að ríkiseign. Líklega þarf háttv. þm. Vestm. (JJós) sömu lexíu og jeg gaf hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ), þegar hann færi að belgja sig upp með útlenda þekkingu, þá væri hann eins fáfróður og maður, sem þekti örlítið til ensku, en hjeldi, að hann gæti þar af leiðandi lesið bók á frönsku. Hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) vissi ekki, að í Rússlandi hafði aðallinn, keisaraættin og einstakir auðmenn átt nálega allar jarðirnar, og í byltingunni gáfu kommúnistar bændum jarðirnar. Svo kemur þessi háttstandandi íhaldsbolsi og slær um sig í fávisku sinni og lætur sem svo, að byltingamennirnir hafi tekið jarðirnar af bændunum. Það var nákvæmlega öfugt. Svona fer, þegar fávísir en ofsafengnir menn ætla að fara að slá um sig með langsóttri þekkingu, sem þeir hafa aldrei eignast.

Nú hlakka jeg til að heyra röksemdir hv. þm. Vestm. (JJós). En jeg býst þó við, að jeg verði að gefa honum nafnbótina. Jeg býst við, að hann geti ekki um þetta sagt annað en óendanlega vitleysu, hvernig sem hann reynir að svara.

Tökum þetta frv., það lýtur að því að fjölga sjálfstæðum heimilum í sveitunum. Er þetta vísasti vegurinn, samkvæmt reynslu í öðrum löndum, til þess að gera menn að sameignarmönnum? Það er alkunna, að sárafáir þeirra manna, sem flytja úr borgunum á býli uppi í sveitum, verði socialistar, nálega engir kommúnistar, heldur allflestir radikalir, það ber öllum saman um það, að um leið og verkamennirnir komi úr bæjunum, þar sem þeir voru socialistar, og á býli sín í sveitunum, þá fari þeir að elska eignarrjettinn og sjeu langt frá því að óska eftir sameign, og að sú stefna fái engan stuðning frá þeim. Það er hart að þurfa að misbjóða öðrum í deildinni með svo einfaldri fræðslu um það, sem allir ættu að vita, en þar sem hv. þm. (JJós) er svona illa að sjer, þá má til að útskýra þetta. Ef jeg þá óskaði eftir sameign, þá væri auðvitað vitlaust að vera að vinna að framgangi þessa frv., sem skapaði hinn mesta þröskuld yfir veg sameignarstefnumanna. Ef þetta kemst í framkvæmd og 50–100 nýbýli verða til árlega, þá gildir einu, hvernig íhaldið kúgar, þá verður sveitin svo sterk, að engin hætta verður á, að bylting skelli yfir. Í Danmörku kemur aldrei bylting, vegna þess að sveitin er þar svo sterk, að mestur hluti fólksins unir öðru betur en sameign. Jeg óska þess, að úr því að hv. þm. (JJós) hefir farið að tala um kommúnisma í sambandi við byggingu sveitanna, að hann reyni að tala um það af einhverju viti og þekkingu um málið.

Þá sagði hv. þm. (JJós), út frá skýringum hæstv. fjrh. (JÞ) á óvináttu efnamannanna til skattanna, að mjer færist ekki, þar sem jeg lægi á baki bændanna og væri sæmilega eigingjarn fyrir sjálfan mig. Jeg vil þá loks segja það, að bændum er í lófa lagið að segja mjer upp hvenær sem er. En það hefir ekki bólað á því, að þeir vildu það, og mikill meiri hluti bænda lítur svo á, að óvinátta sú, sem mjer er sýnd af spekúlöntum og allskonar trantaralýð, standi í nánu sambandi við þá gagnlegu vinnu, sem jeg legg fram til þess, að bændur geti haldið hlut sínum móti óaldarflokkum í landinu. Það hefir aldrei komið fram nein rödd á Sambandsfundi um það, að jeg ætti að hætta starfinu fyrir samvinnufjelögin, og eru þar þó 50 fulltrúarbænda hvaðanæva af landinu. Annars gerir það mjer ekkert til, þótt það kæmi fyrir, að þeir vildu fá einhvern annan en mig. Þeir gera mjer ekkert tjón með því, jeg gæti unnið mjer inn daglegt brauð á annan hátt, því að mjer standa nógir vegir opnir. M. a. hefir helsti samvinnumaður Dana boðið mjer að starfa þar í landi að sömu áhugamálum. Hv. þm. (JJós) þarf því ekki að bera kvíðboga fyrir efnalegri afkomu minni. Jeg hefi enga óstöðvandi þrá eftir síldar- og mótorbátagróða, sem fyllir huga þessa hv. þm., svo að hann verður sjóndapur á almenna hagsmuni. Þar sem jeg bar hv. þm. á brýn lágar hvatir, þá gerði jeg ekki annað en benda á skoðun ráðherrans og afleiðingar hennar. Og svo lengi sem hv. þm. (JJós) hefir ekki sannað, að íhaldsmenn sjeu öreigar, þá stendur ásökunin um lágar hvatir í hugum þeirra, sem vinna á móti gróðaskatti, algerlega óhrakin. En jeg vil benda honum á það, að hann ætti að gefa þá skýringu, að allir, sem græða, væru að tapa. Hann ætti þá að gefa fyrir hönd síns firma út samskonar fátæklega yfirlýsingu og þá, er hv. 1. þm. G.-K. (BK) gaf út fyrir nokkrum árum.