10.05.1926
Efri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í C-deild Alþingistíðinda. (2059)

59. mál, gróðaskattur

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Háttv. 3. landsk. (JJ) hefir haldið stóra ræðu og dálítið broslega. Hann flýtti sjer að því að kalla mig opinberan ósannindamann. Honum er auðsjáanlega ekkert vel við að heyra kommúnisma nefndan, og stendur það áreiðanlega í sambandi við það, hvernig hann lýsir mjer. En eins og þessi hv. þm. (JJ) getur getið sjer til, þá stendur mjer nokkuð á sama, hvað hann segir um mig og hvernig hann lýsir mjer. Hann verður að hafa það eins og það er, og læt jeg mjer það í ljettu rúmi liggja.

Hv. 3. landsk. (JJ) taldi þennan gróðaskatt litla upphæð, en þegar hann var að lýsa útlátunum, sem efnamennirnir yrðu fyrir, þá tók hann aðeins fram, hve mikill gróðaskatturinn yrði, en slepti öllu öðru. En jeg er hræddur um, að sá maður, sem kominn er svo hátt, að hann kemur til með að borga gróðaskatt, yrði líka að gjalda eitthvað meira, t. d. háan tekju- og eignaskatt, sem yrði hærri en gróðaskatturinn, og svo er jeg hræddur um, að niðurjöfnunarnefndirnar myndu vita af honum.

Það er því villandi að vera að tala um gróðaskatt, því þótt hv. þm. (JJ) vilji láta líta svo út, sem þetta sje gróðaskattur, þá veit hann þó, að sá skattur kemur ofan á alt annað, sem menn verða að greiða, jafnvel þó um engann raunverulegan gróða sje að ræða. Hv. þm. var í þessu sambandi að tala um frv. um síldarsölu. Jeg veit nú ekki, hvað það kemur þessu máli við. Og hvað snertir þessa verksmiðju, sem hann var að tala um, þá verð jeg að segja það, að jeg tel gróða hennar alls ekki sannaðan. Það hefir aðeins einhver sagt hv. þm. það, en það er a. m. k. hægt að deila um það, hvort það er satt. Jeg get ekki láð hv. þm., þótt hann taki djúpt í árinni með frv. sitt. Það getur verið nokkuð vafasamt, hve mikið hrós það er fyrir frv., þó segja mætti, að í því fælist djúptækasta ráðið. Það er satt. Það er djúptækt á sumum sviðum. Meiri hl. fjárhagsnefndar hefir leitt rök að því í nál. um frv. um landnámssjóð, að þeir, sem fengju hjálp úr honum, yrðu eftir það ófrjálsir menn með eignir sínar. Það er ef til vill það, sem flm. ætlast til, og að því leyti er þetta djúptækt ráð, svo djúptækt, að það skerðir stórlega eignarrjettarfrelsi þeirra manna, sem fyrir hjálpinni verða. Hv. flm. talaði um tíundasvik. Það hafa verið leidd ljós rök að því hjer í deildinni, að eitt sambandskaupfjelagið á „meginlandinu“ hefir gert sig sekt um að koma sjer hjá skatti. Það hefir látið fara fram vöruafhendingu til utanfjelagsmanns undir nafni formannsins til þess að koma sjer hjá að greiða útsvar af hagnaði á viðskiftum við utanfjelagsmenn. Hv. flm. hefir ef til vill ekki heyrt þetta. Hv. flm. lýsti því yfir, að meiri hl. nefndarinnar hefði aldrei komið með neina lífvænlega hugmynd í nokkru máli. Það er nú svo vanalegt að heyra þennan hv. þm. viðhafa svona orðatiltæki, að jeg ætla ekki út í neinn meting um þetta atriði. Jeg læt deildina dæma um, hvort meðnefndarmenn mínir eigi þessi virðulegu ummæli skilin. Það er sjálfsagt ekki af heimsku sagt, heldur viti, þegar þessi hv. þm. (JJ) hagar svona orðum sínum, en jeg býst við, að fáir vilji því taka undir þessi ummæli hans, eins og oft vill verða. Það verður að virða hv. þm. það til vorkunnar, að honum er ekki sú gáfa gefin að kunna að stilla í hóf orðum sínum. Hv. flm. (JJ) þarf ekki að æsast svo mjög, þó að hann sje bendlaður við kommúnismann. Hann veit, að það er almenn skoðun um alt land, að hann sje mikið riðinn við þá hreyfingu hjer á landi. Sú stefna hefir blandast meira hjer socialisma og samvinnustefnu heldur en erlendis. Þessar stefnur eru hjer að verki saman bæði utan þings og innan. Hv. flm. (JJ) þarf ekki að reisa kambinn móti því. Hann ætti þá a. m. k. ekki að vera með verkföllum eða róa undir þau (JJ: Sannanir!) Hv. flm. hefir ekki getað hrundið því af sjer, að hann hafi verið með í verkfallinu 1918. (JJ: Allir, sem það hafa borið fram, hafa orðið ósannindamenn). Það situr ekki á hv. flm. að bera sig illa, þó honum sje lýst að gefnu tilefni. Hann sagðist taka það fram til þess, að það sæist í þingtíðindunum, hverskonar menn andstæðingar sínir í nefndinni væru. Það er því ekki nema sjálfsögð kurteisisskylda að láta þess getið, hver hann er sjálfur.

Jeg skil ekki, með hvaða rjetti það er gert hjer þing eftir þing að kalla atvinnurekendurna við sjóinn spekúlanta frekar en aðra atvinnurekendur. Þetta er orð, sem hv. flm. (JJ) heldur mjög á lofti og notar sem skammaryrði um alla, sem stunda atvinnufyrirtæki við sjávarsíðuna, ef þeir eru honum ekki sammála í öllu. En það er ekki með neinum rjetti hægt að kalla sjávarútvegsmenn þessu nafni frekar en landbúnaðarmenn. Hvorir tveggja eiga nokkuð á hættu. Enginn veit fyrirfram um útkomuna. Hv. flm. reynir margsinnis að niðra sjávarútvegsmönnum með þessu orði. Jeg verð að segja, að mjer finst það mjög ómaklegt, að um leið og hann ber lóminn vegna landbúnaðarins og telur sig fulltrúa hans, skuli hann á allar lundir reyna til að niðra sjávarútveginum. Að því er snertir þetta háa kaupboð, þá veit jeg ekki betur en að landbúnaðarmenn bjóði líka hátt kaup. Ástæðan er sú sama hjá báðum: fólk fæst ekki nema fyrir hátt kaup.

Hv. flm. (JJ) talar mikið um vanþekkingu og heimsku andstæðinga sinna og segir, að jeg viti ekki, hvaða lög sjeu um þetta í Englandi. En getur nú ekki verið, að það eigi við á Englandi, sem ekki á við á Íslandi. A. m. k. er öllum vitanlegt, að ekki er hægt að gera neinn samanburð á efnum enskra stóreignamanna og þeirra, sem kallaðir eru efnamenn á Íslandi. Á Englandi eru samansöfnuð fleiri alda auðæfi. Jeg veit um firmu þar, sem eru á annað hundrað ára gömul. Þar eru stórar aðalseignir, sem verið hafa fleiri aldir í sömu ættinni. Er nokkurt vit í að bera auðmenn Englands saman við atvinnurekendur á Íslandi, þar sem öll stærri atvinnufyrirtæki eru sama sem ný, togaraflotinn rjett hlaupinn af stokkunum og verksmiðjuiðnaður alveg í byrjun, og alls ekki um neinar stóreignaættir að ræða.

Allir vita, hve gamalt verslunarfrelsið er hjer á landi. Innlend verslunarstjett er nýsprottin upp. Því fer fjarri, að á nokkurn hátt sje hægt að bera þetta saman við ævagömul auðsöfn á hinu ríka Englandi. Við 1. umr. málsins talaði hv. flm. (JJ) mikið um, hvað Lloyd George vildi á Englandi og hann sjálfur á Íslandi. Það er nokkuð sama, hvort tekið er til samanburðar, mennirnir eða ástandið. Hv. flm. (JJ) veit, að „munur er á 'onum Sankti Páli og 'enni Helgu skrínu“. Það verður ávalt ósanngjarnt að bera íslenskar frumbýlingsástæður saman við eldgömul auðsöfn á Englandi.

Hv. flm. (JJ) er laus við þessa órólegu þrá til framkvæmda, sem ríkt hefir og mun ríkja í brjóstum athafnamannanna. Hann telur sig víst heppinn að vera laus við þessa þrá. Jeg hefi ekki þekt marga menn af hans tagi, en jeg hefi þekt marga menn, sem vakandi og sofandi hafa hugsað um að koma atvinnufyrirtækjum sínum í gott horf, menn, sem fylgst hafa með þróun útvegsins frá smábátaútgerð til nýtískutogara. Mjer er talsvert kunnugt um erfiðleika þá og áhyggjur, sem þessir menn hafa við að stríða, þetta sem hv. flm. kallar í háði — órólega þrá. Jeg efast um, að þeir menn, sem lausir eru við þessa þrá, sem tekið hafa sjer stöðu utan við svið verklegra framkvæmda, jeg efast um, að þeir hafi nokkurn rjett til þess að niðra þeim mönnum, sem tekið hafa að sjer að standa fyrir framkvæmdum á ýmsum tröppustigum sjávarútvegsins. Jeg held, að ekki sje rjett að kalla þessa menn í háði „spekúlanta“. Jeg veit, að á þessu landi eru margir ágætismenn, sem gengið hafa þessa braut, menn, sem hafa verið hjeruðum sínum til mikillar uppbyggingar. Jeg er ekki fús á að draga einkaástæður eða nöfn vissra manna inn í umræður hjer í deildinni, það eru sumir fúsari til þess en jeg. En jeg gæti nefnt marga menn, sem verið hafa máttarstólpar þjóðfjelagsins, menn, sem hafa haft með höndum það, sem hv. flm. (JJ) kallar að „spekúlera“. Hann kallar alt spekúlanta, nema forstöðumann samvinnuskólans og bændur í sveit. Jeg veit, að þessari þjóð yfir höfuð vegnaði ekki betur, ef allir hugsuðu eins og háttv. flm., væru lausir við þessa órólegu þrá eða framfarahug á verklegu athafnasviði einstaklingsins. Og jeg held, að þessir menn sjeu miklu nauðsynlegri en hinir, sem valið hafa sjer hægara hlutskifti, líkt og hv. 3. landsk. þm. (JJ) hefir gert.