10.05.1926
Efri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (2062)

59. mál, gróðaskattur

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Hv. 3. landsk. (JJ) byrjaði á miklum fyrirlestri um vilja fólks til að eiga heimili og halda saman. það hefir ekki verið deiluefni milli okkar. Við, sem erum í fjhn., höfum komið með ákveðnar till. út af frv. um byggingar- og landnámssjóð, og hefði hv. 3. landsk. (JJ) því getað sparað sjer ómak að tala um, að við höfum ekki viljað sinna þeirri hugmynd. Okkur er það engu lakar ljóst en honum, að til þess að hjálpa þessu stórmáli áleiðis verður að koma ríflegur styrkur af opinberu fje.

Jeg veit, að þess gerist ekki þörf að fara að færa fram kosti þess hv. þm. í fjhn., sem hv. 3. landsk. (JJ) veittist mest að. Hann er svo þjóðkunnur maður, að þótt hv. 3. landsk. (JJ) vildi tvöfalda alt það níð, sem hann hefir um hann haft hin síðari ár, þá stæði hann jafnrjettur, ef ekki rjettari eftir.

Mjer er ekki vel ljóst, hvað hv. þm. (JJ) vildi með því, að blanda hæstv. forseta inn í þessar deilur. Sje jeg enga ástæðu til að gera ummæli þm. í því efni að umtalsefni, því síður sem þau koma ekki málinu við. Jeg hefi verið verkamaður og verkstjóri sjálfur og haft af þeim þá kynningu, að jeg get virt verkamenn og fyrirsvarsmenn þeirra, þegar þeir koma ærlega fram. En jeg virði ekki æsingamennina, sem róa undir óeirðum ,en þykjast svo hvergi hafa nærri komið.

Hv. 3. landsk. (JJ) mintist á smáverkfall í Vestmannaeyjum í vetur og vildi gera sjer úr því mikinn mat. Hv. þm. hefir áður talað um það við mig á öðrum vettvangi. Fyrir þessu verkfalli stóð að nokkru leyti unglingur hjeðan úr Reykjavík, og tókst honum að gera af því mikinn hávaða. En hv. 3. landsk. (JJ) hafði mikla samúð með þessu verkfalli, ef marka má það, sem hann hefir áður sagt við mig út af því. Sagði hann, að sjer hefði legið við að hringja mig upp til að samgleðjast mjer. Og þess munu dæmi hjeðan úr bænum, að hann hefir mikla samúð með verkfallsmönnum og æsingalýð. Hann var nú fyrir skemstu kallaður bolsjeviki af einum hv. þm. öðrum en mjer, og hefir hann ekki borið það neitt af sjer.

Það er ekki til neins fyrir hv. þm. (JJ) að vera að reyna að klína á mig ósannindamannsnafni vegna þeirra ummæla, er jeg hefi við haft. Það lítur út fyrir, að hann hafi sjerstaka fróun af því, að fleiri en hann sjeu taldir ósannindamenn.

Hv. þm. er furðu minnisgóður, er hann getur fullyrt nú eftir 9 ár, að jeg hafi verið líklegur til að vera í þeim hóp, er vildi svíkja verkamenn. En nú skora jeg á hv. 3. landsk. (JJ) að finna einn einasta verkamann, sem jeg hefi haft nokkuð saman við að sælda, er getur borið það og sannað, að jeg hafi vísvitandi reynt að svíkja hann um kaupgjald. Jeg veit, að það er að bera í bakkafullan lækinn að lýsa hv. 3. landsk. (JJ) ósannindamann að þessum aðdróttunum. En ef hann getur fundið nokkurn slíkan verkamann, þá má hann á hverjum tíma telja mig til þeirra, sem ætla mætti, að hefðu viljað svíkja verkamenn 1916. Jeg held annars, að hv. 3. landsk. (JJ) hafi komið nær þeim atburðum, sem þá gerðust, en jeg.

Þá var hv. þm. (JJ) enn að tala um hina „órólegu þrá“. Bar hann það nú fram, að allir aðrir en bændur væru spekúlantar. (JJ: Skáldskapur). Hann var búinn að halda þessu fram áður, og sagði jeg þá, að sem betur fer væru til menn, sem haldnir væru af þeirri órólegu þrá, að koma einhverjum framkvæmdum í verk. Jeg veit, að háttv. 3. landsk. (JJ) er ekki haldinn af þessari þrá, heldur af annari, sem er engu rólegri.

Hvorir tveggja bera í brjósti sjer órólega þrá. En þrá hv. 3. landsk. (JJ) er að rífa niður það, sem þeir byggja upp, er framfarahug og framkvæmdadug hafa til að bera. Hans þrá er að gera lítið úr verkum þeirra og bera þeim óráðvandar hvatir á brýn. Þessi er hin órólega þrá hv. þm., sem hvervetna hefir komið fram í öllu hans pólitíska lífi og afskiftum af opinberum málum.

Loks skal það tekið fram, að hv. 3. landsk. (JJ) hefir alls ekki reynt að mótmæla því, er jeg sagði áðan, að kommúnistar, socialistar og framsóknarmenn hafa unnið saman oft og einatt hjer á landi og að þessar stefnur eru hjer mjög tvinnaðar saman. Þetta ástand mun óvíða eða hvergi eiga sjer stað annarsstaðar.