12.04.1926
Efri deild: 48. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (2073)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Einar Árnason:

Ekki sakast jeg um, þótt frv. þetta komi seint fram. Mjer finst sannast að segja ekki svo langt síðan það var hjer í hv. deild, að það hefði ekki mátt hvíla sig enn um stund.

Frv. er flutt af meiri hl. mentmn., og skildist það á hv. 3. landsk. (JJ), að það hefði aldrei verið rætt í nefndinni. Mun það því eigi vera tilætlunin, að því verði vísað til þeirrar nefndar aftur, enda þýðir víst ekki að stinga upp á því. En mjer finst mál þetta þannig vaxið, að rjett sje, að það sje athugað í nefnd. Mjer hefir talist svo til, að með frv. væru stofnuð hjer 7–8 ný og föst embætti. Þetta snertir því auðsjáanlega fjárhag ríkisins mjög mikið.

Fyrir utan það geng jeg út frá því, eins og líka hv. 1. landsk. (SE) benti á, að ekki mundi líða á löngu áður en það hefði í för með sjer nýjan og aukinn kostnað, þegar ríkissjóður væri búinn að taka við þessum skólum.

Er ekki laust við, að farið sje hjer að brydda á sömu stefnu og 1919, þegar alt þótti fært. Enda hefir ríkissjóður alt til þessa orðið að bera allþunga launabagga, er þá voru lagðir á hann og erfitt hefir reynst að fleyta fram.

Vil jeg út af þessu leggja til, að málinu verði vísað til fjhn., til þess að hún fái ástæðu til að athuga launakjör hinna nýju embættismanna, sem ríkissjóður á að taka á sínar herðar með þessu frv.