12.04.1926
Efri deild: 48. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í C-deild Alþingistíðinda. (2074)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Jónas Jónsson:

Mjer þykir vænt um, að hæstvirtur forsrh. (JM) má vera að því í þetta sinn að hlýða á mál mitt; hann gat það ekki vegna anna í fyrra, svo að jeg verð til neyddur í þetta sinn að endurtaka nú nokkur atriði af því, sem jeg þá óskaði svars við, sem er ennþá ókomið; t. d. hvernig hæstv. ráðh. ætlar að samrýma það stjórnlyndi sínu að byrja hjer ríkisrekstur á skólum í stærri stíl. Hjer er sem sje ekki um meira nje minna að ræða en þjóðnýting unglingaskólanna að miklu leyti, ef frv. gengur fram. Í öðru lagi vil jeg spyrja hæstv. forsrh. (JM) , JóhJóh og IHB, hvort þau vilji ekki nú þegar stiga skrefið lengra, svo ekki verði annað eins hálfverk og frv. miðar til. Hvort eigi skuli nú taka upp á arma ríkissjóðs Hvítárbakkaskólann, Núpsskólann, Laugaskólann, hinn væntanlega skóla Árnesinga o. fl., svo að unglingafræðslan verði þegar án frekari umsvifa tekin upp á arma ríkissjóðs. Jeg veit vel, að aðstandendur þessara skóla allra renna hýru auga til stjórnar ríkisins viðvíkjandi þessum málum, og síst mun það draga úr áhuga þeirra, er þeir sjá þann hinn mikla sigur, sem hv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) hefir unnið á stjórninni, að því er Blönduósskólann snertir. Jeg veit, að það getur alls eigi farið framhjá jafn-vitibornum manni og hæstv. forsrh. (JM), að á næstu árum, máske þegar á næsta þingi, verður að bæta við 30–40 nýjum kennaraembættum, ef frv. þetta verður samþykt.

Hæstv. ráðh. (JM) vildi ekki taka við ávítun fyrir það, að frv. þetta kæmi seint fram, en þó máske þingið þurfi ekki, eins og hæstv. ráðh. virðist álíta, mikinn tíma til að athuga þetta mál, hefir það þó tekið allgóðan tíma hjá stjórninni sjálfri. Jeg verð því að gefa háttv. deild nokkrar upplýsingar um þetta mál, sem stjórninni sjálfri að vísu var skyldara að koma fram með. — Það er sem sje svo, að stjórnin virðist í fyrstu ekki hafa hugsað um að taka á sína arma aðra skóla en kvennaskólann í Rvík, og í því formi lá frv. svo fyrir, en eftir að stjórninni hefir borist brjef og tilmæli háttv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ), sem á sæti í skólanefnd Blönduósskólans, er hann fer fram á nákvæmlega hið sama og háttv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) bar fram á þinginu í fyrra og viðhefur nákvæmlega þau sömu rök og þá voru borin fram fyrir upptöku þess skóla, verður niðurstaðan sú, hjá hæstv. stjórn, að Blönduósskólanum er bætt við á þetta frv.; skólarnir eru lyppaðir saman. Það sjá og allir, að frv. er mjög bæklað af þessum ástæðum, og er auðsýnileg á því brotalömin á samskeytunum. Jeg leyfi mjer nú að spyrja hæstv. ráðh. (JM), hverju það sætir, að hann vill heldur taka þessa kröfu til greina, er hún kemur frá háttv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ), enda þótt hann að vísu sje stuðnings og styrktarmaður stjórnarinnar, en er krafan kom annarsstaðar frá? Jeg fæ ekki annað sjeð en að hæstv. stjórn hafi verið ófús að taka við Blönduósskólanum og sje inst í hjarta sínu þeirri stofnun alveg andvíg, líklega líka af því, að stjórninni óar við að taka við öllum unglingaskólunum, sem munu sigla í kjölfar Blönduósskólans, en hæstv. forsrh. (JM) hefir orðið fyrir þunga af hálfu háttv. 4. landsk., og því orðið að ganga nauðugur til leiks, eins og Ari sonur Jóns biskups forðum. Því var það, að stjórnin uppgötvaði ekki fyr en eftir dúk og disk í fyrra, að háttv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) á sæti í skólanefnd Blönduósskólans, sem auðvitað varð gramur undirtektum stjórnarinnar þá. Þetta verður því ekki skoðað á annan veg en þann, að stjórnin sje að stinga tveimur sætum sælgætisbitum upp í tvo mikilsverða stuðningsmenn sína. En bitinn virðist furðanlega stór; það eru hvorki meira nje minna en 8 ný embætti, sem búin eru til, eingöngu vegna þessara tveggja stuðningsmanna stjórnarinnar.

Hæstv. forsrh. (JM) telur málið ekki þurfa skýringar við hjer í deildinni. Mjer verður þá að spyrja, hvort tilgangurinn sje, að frv. fari alls ekki til neinnar nefndar? Bæði hæstv. forsrh. og flm. frv. vilja ekki láta ræða þetta mál, því þeir eru hræddir um, að málið muni missa fylgi á umræðum um það, og þegar þeir eru svona hræddir um sinn málstað, virðist mjer, að þeir hefðu aldrei átt að bera þetta frv. fram.

Jeg get ekki látið hjá líða að minnast lítið eitt á athugasemdir háttv. 4. landsk. (IHB). Það var rjett, sem hún skýrði frá um minni hlutann í mentamálanefndinni, en hún hefði líka átt að segja frá því, að þetta mál er enn alveg órætt í þeirri nefnd; hefir aldrei verið borið undir nefndina alla, hvort hún vildi taka að sjér flutning frv. fyrir hæstv. ríkisstjórn. Þá er það einnig órannsakað, hversu margir þeir skólar eru, sem hliðstæðir eru þessum kvennaskólum, hjeraðsskólarnir. Það gætti ónákvæmni í ræðu háttv. 4. landsk., er hún sagði, að kvennaskólinn í Rvík gæti útskrifað umsvifalítið ca. 50 gagnfræðinga. Hver er þá munurinn á kenslu í þessum skóla hennar og unglingafræðslunni? Þetta er þá yfirlýsing um, að skólinn þurfi ekki að breytast til að geta útskrifað gagnfræðinga. Jeg skal taka það fram, að jeg veit um mjög marga nemendur, t. d. frá Eiðaskóla, sem hafa aðeins þurft lítinn undirbúning í viðbót til að standast hjer gagnfræðapróf. Af hverju er þetta? Af því að Eiðaskólinn er í svo litlu frábrugðinn skólunum hjer. Það er því játað með þessum orðum háttv. 4. landsk. (IHB), að kvennaskólinn sje aðeins almennur unglingaskóli, og sje hægt með mjög litlum breytingum á þeim skóla að útskrifa þaðan gagnfræðinga. Það þarf heldur ekki miklar breytingar á Eiðaskóla til þess sama. Skólinn í Flensborg í Hafnarfirði, sem er einkaskóli, er líka gagnfræðaskóli fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu o. fl., og þaðan koma árlega hópar nemenda, sem ganga inn í Mentaskóla Reykjavíkur.

Hjer er þá alls ekki að ræða um neinn sjerskóla fyrir konur, þar sem eru þessir kvennaskólar, en það hefir víst orðið óvart, að háttv. 4. landsk. kom með þessa játningu; en auðvitað var áður búið að sanna henni, að kvennaskóli Reykjavíkur væri hliðstæður öðrum unglingaskólum.

Öðru máli gegnir um þessa sjerskóla kvenna erlendis; ef t. d. nemandi frá Sóreyjarskóla ætti að ganga þar undir gagnfræðapróf, mundi nemandinn ekki geta staðist slíkt próf, sem ekki er heldur von. Sóreyjarskólinn veitir konum alt aðra mentun en gagnfræðaskólar; þótt sú mentun geti verið fullgóð og þeim hentugri fyrir því.

Jeg vona því, að það verði skýrt og einarðlega játað hjer eftir af flm. þessa frv., að hjer sje um ekkert annað að ræða en að taka tvo skóla upp á arma ríkissjóðs, sem eru algerlega hliðstæðir 5–6 skólum öðrum í landinu.

Þá vil jeg taka undir og undirstrika það, sem hv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) og háttv. 1. landsk. (SE) sögðu, að kostnaður sá, sem af þessu frv. leiddi, yrði gífurlegur fyrir ríkissjóð. Vegna húsnæðisleysis skólans hjer í Reykjavík verður ríkið að byggja yfir hann, og getur það ekki orðið fyrir minna en 200 þús. kr., með heimavistum í skólanum. (SE: 200 þús. hrökkva ekki neitt). Jæja, hvað þá heldur, ef svo er. Þá vil jeg benda á eitt, sem háttv. 4. landsk. (IHB) hefir sagt, og mjer dettur alls ekki í hug að fara að hrekja eða draga í efa, að eftirsókn þessara skóla, eftir að komast á ríkissjóð, væri vegna öryggis um fjárframlög frá stjórnarinnar hálfu til skólanna. En skyldu þá ekki ýmsir aðrir þm. vera til hjer á þingi, sem vildu koma skólum sinna hjeraða í þessa höfn öryggis- og áhyggjuleysis fyrir framtíðinni? T. d. hv. þm. Borgf., þm. S.-Þing., þm. N.-Ísf. o. fl., o. fl. Annars er það dálítið einkennilegt að tala um það, að það sje stjórnin, sem ráði fjárframlögum til skólanna; en þetta stafar auðvitað af því, að háttv. 4. landsk. (IHB) er svo stjórnlynd sjálf. Auðvitað er það þingið, en ekki stjórnin, sem ræður fjárframlögum til skólanna eins og öllum öðrum fjármálum ríkisins. En jeg ætla mjer alls ekki að hrekja þessi orð háttv. 4. landsk., um að það sje vegna öryggisins. Jeg veit, að þetta er rjett, að einkafyrirtækin vilja miklu heldur sleppa við áhættuna á rekstrinum og komast á ríkissjóðinn. Jeg geri ráð fyrir, að í þessu efni fari líkt fyrir háttv. 4. landsk. (IHB) og móður Sankti Pjeturs, þegar hún var sótt niður í kvalastað fordæmdra. Þegar kvennaskólinn í Reykjavík er kominn í höfn öryggisins, þá koma aðrir skólar og hengja sig tugum saman utan í engilinn, þ. e. forsrh. (JM), er hann ætlar að bera þessa tvo skóla burt úr fordæmingu óvissunnar yfir í hið fyrirheitna land öryggis og þjóðnýtingar.