12.04.1926
Efri deild: 48. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (2075)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Forsætisráðherra. (JM):

Jeg hvorki hirði nje finn ástæðu til að svara fyrirspurnum háttv. 3. landsk. (JJ). Jeg hefi áður lýst fyrir honum, ásamt öðrum háttv. þm. þessarar deildar, skoðun minni á unglingaskólum og því, sem þá áhrærir, og hafa skoðanir okkar ekki fallið saman. Ef stefnu minni og skoðun um skipun unglingaskólanna hefði verið fylgt eða meiri gaumur gefinn, mundi því atriði fræðslumálanna nú betur komið en raunin er á.

Háttv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) talaði um mismun á launum við þessa skóla, að það væri ekki með öllu rjett. Jeg tel launin vera hlutfallslega bætt í báðum þessum skólum eftir frv. Háttv. þm. (GuðmÓ) viðurkendi, að ódýrara væri að lifa á Blönduósi, sem væri nær sama og í sveit væri, og uppbótin á launum við Blönduósskólann er hjer um bil alveg hlutfallsleg við hinn skólann. Jeg tel því ekkert ósanngjarnt í þessu.

Viðvíkjandi því, að hjer sje um stofnun nýrra embætta að ræða, vil jeg leyfa mjer að benda á, að þessir tveir skólar hafa að undanförnu að öllu leyti verið kostaðir af ríkinu, og hjer er því ekki um neinar nýjungar að ræða. Hjer er það aðeins viðurkent með berum orðum, sem verið hefir í verki.

Jeg held það sje máske eitthvað um 2000 kr., sem Reykjavíkurskólinn fær annarsstaðar en úr ríkissjóði, og þessar 2000 kr. koma svo að segja allar úr sjóði skólans, og um 1000 kr. til Blönduósskólans. það getur að vísu verið, að áður hafi eitthvað verið lagt meira til Blönduósskólans úr sýslusjóði norður þar, en nú er skólinn í rauninni kominn á landssjóð.

Viðvíkjandi aðfinslunum um orðalag kaflans um Blönduósskólann, þá hygg jeg þær á engum rökum bygðar, en sje þar eitthvað ábótavant, er það ekki meira en svo, að laga megi á þinglegan hátt með brtt., án þess að frv. þurfi að fara til nefndar, úr því það er borið fram af nefnd. Að fara að vísa frv. til fjhn. sje jeg enga ástæðu til, og skil ekki, hvað liggur til grundvallar þeirri uppástungu. Fari frv. í nefnd, verður það auðvitað mentamálanefnd, — sem jeg þó tel alóþarft, er sú nefnd flytur frv. Vilji menn þó endilega láta frv. fara í nefnd, má gera það við 2. umr., og væri því óhætt að vísa því til 2. umr. nefndarlaust.