12.04.1926
Efri deild: 48. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (2077)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Sigurður Eggerz:

Það er verulega. skemtilegt að hlusta á umræður í þessu máli. Hæstv. forsrh. (JM) kvaðst ekki láta ginna sig til að halda langar ræður. Hver er að ginna hann? Jeg hefi ekki beðið hann að segja eitt einasta orð!

Frá sjónarmiði okkar, sem erum þessu frv. andvígir, er það gleðilegt, að hæstv. stjórn treystist ekki að ræða frv. Jeg mótmæli því, að í þessum umræðum hafi verið leiddar nokkrar líkur að því, að skólar þessir verði reknir betur, þó þeim sje úr einkaskólum breytt í ríkisskóla. Jeg veit, að hæstv. forsrh. (JM) er þó svo sniðugur í umræðum, að ef hann hefði sjeð sjer fært að tilfæra eitt einasta atriði þessu til sönnunar, hefði hann gert það.

Athugasemdir mínar um fjárhagshliðina eru einnig óhraktar. Í fyrsta lagi felast í sjálfu frumv. nú þegar aukin útgjöld, en auk þess má vísa til reynslunnar um það, að ríkisfyrirtæki reynast jafnan dýrari en einkafyrirtæki.

Í tilefni af því, sem hæstv. forsætisráðherra sagði, læt jeg ekki fyrirskipa mjer um það, hvað jeg tali eða hvað jeg ekki tali. Sumt af því, sem sagt var í fyrra, getur verið nauðsynlegt að rifja upp aftur, einkum þegar skilningurinn er ekki alt of næmur.

Út af ummælum háttv. 3. landsk. þm. (JJ) vil jeg taka fram, að besta öryggið fyrir þennan skóla er, að hann sje rekinn vel, því þá mun hann ekki skorta styrk frá því opinbera. Þessi sjálfsbjargarhvöt minkar, þegar ríkið er búið að taka skólann í sínar hendur. Hæstv. stjórn má eiga von á því við hverja einustu umræðu þessa máls hjer í deildinni, að sýnt verði fram á veilurnar í þessu frv. það er broslegt, að þessi stjórn, sem þykist hafa bjargað við fjárhag landsins, og látið blása það út um alt land, skuli koma með slíkt frv. sem þetta. það sýnir best sparsemina.