23.04.1926
Efri deild: 57. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í C-deild Alþingistíðinda. (2085)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Forsætisráðherra (JM):

Jeg skal láta þess getið, að það varð mjer mikið ánægjuefni, að háttv. frsm. minni hl. (JJ) talaði aðallega um þau atriði, sem tala á um við 2. umr., en ekki um hina almennu hlið málsins. Er skemtilegt að verða var við það, að gætt sje þingskapanna, en það vill nú alloft bregða út af því, og verða því allar umr. stundum aðeins almennar umr. En jeg ætla að virða viðleitni hv. þm. í því að meta þingsköpin. Auðvitað getur hv. 3. landsk. (JJ) ekki alveg brugðið af fornum vana, enda er ekki von á því.

Háttv. þm. (JJ) talaði um það, hversvegna stjórnin hefði borið fram frv. nú, þar sem það hefði fallið í fyrra. Einnig sagði hann, að það mundi ekki hafa verið borið fram, ef hjer væri sama mannaskipun og í fyrra. En þetta er atriði, sem viðkemur stjórninni einni, hvenær hún telur haganlegast að bera fram frv. Háttv. 3. landsk. (JJ) hefir ekki altaf hlíft deildinni við að bera fram frv., sem mætt hafa hjer mótspyrnu. Háttv. þm. sagði, að jeg hefði skift um skoðun á þessu máli, þar sem jeg hefði verið á móti því í fyrra, að Blönduósskólinn yrði gerður að ríkisskóla. Þetta er ekki rjett. Jeg mótmælti aðeins, að Blönduósskólinn yrði borinn fram sem brtt. við frv. Jeg sagði þetta fleirum sinnum, og getur hv. þm. sjeð það í þingtíðindunum. Jeg sagði aftur á móti ekkert um það, að Blönduósskólinn gæti ekki orðið ríkisskóli. En eins og sakir stóðu þá, hefði það aðeins orðið til að tefja fyrir frv. Jeg hefi því aldrei mótmælt því, að gera Blönduósskólann að ríkisskóla, úr því að hann er á annað borð kostaður af ríkinu, svo að segja að öllu. Jeg hefi meira að segja oft sagt það við umr. um fjárlögin, að jeg áliti í raun og veru rangt, að ríkissjóður kostaði fyrirtæki að öllu eða sama sem öllu leyti, en hefði þó engin umráð yfir þeim. Og þetta er einmitt aðalatriðið. En þó lagt sje fram á móti þetta 4–6% af kostnaðinum, þá er það ekki teljandi.

Það er alveg rjett hjá háttv. frsm. minni hl. (JJ), að jeg tel að þessu leyti engan mun á Kvennaskólanum í Reykjavík, og Blönduósskóla; jeg tel þá báða kvennaskóla, enda þótt annar kenni meira hið bóklega, en hinn sje að færast í það horf að verða húsmæðraskóli. Jeg legg áherslu á það, að þar sem skólar þessir hafa nú starfað um marga tugi ára og verið kostaðir af ríkissjóði að öllu leyti, þá sje eðlilegt, að maður stigi sporið alveg út.

Aftur á móti er aðalágreiningurinn við umr. milli mín og háttv. 3. landsk. (JJ) um það, að ef kvennaskólarnir verða gerðir að ríkisskólum, þá sje skylt að gera unglingaskólana það einnig. Þm. segir nefnilega, að ef þeir kvennaskólar, sem veita almenna fræðslu, verða teknir upp á ríkissjóðinn, þá eigi einnig að taka upp hjeraðsskólana, er á eftir kunna að koma. En þetta getur ekki verið afleiðing frv., þar sem hinir skólarnir eru miklu eldri. Hversvegna skyldi þá ekki hafa verið sett heimild til þessa undireins og Eiðaskóli var settur á stofn. Hann er aðeins almennur skóli til lýðmentunar, og þó að hann geti undirbúið einstaka pilta til gagnfræðaprófs, þá sannar það ekkert. Sama má segja um Flensborgarskóla; hafa einstöku piltar þaðan getað með lítilli fyrirhöfn lokið hjer gagnfræðaprófi. Það er því rangt að leiða þessa ályktun af frv. Fordæmið er komið fyrir löngu, með stofnun Eiðaskólans, ef út í það ætti að fara. Í rauninni á alt þetta tal háttv. frsm. minni hl. (JJ) um að rjett sje að taka sjerskólana á ríkissjóðinn, en ekki almennu skólana, alls ekki heima hjer. Aðalsönnunin, að í þessu tilliti sje engin greining hjá oss, er það, að ríkið kostar hjer að miklu leyti barnaskólana, sem víða annarsstaðar eru kostaðir að mestu af sveitar- og bæjarfjelögum. Á síðustu árum er og annarsstaðar farið að tíðkast, að ríkið kosti einnig barnaskólana. Hjer er því engin greining að þessu leyti.

Jeg vil í þessu sambandi minna hv. þm. á bændaskólana. Þeir veita nú að mestu leyti kenslu í almennri fræðslu, því að þar er fremur lítil kensla í verklegum framkvæmdum og vinnu, á móts við það, sem áður var. Þeir eru aðeins skólar fyrir bændur, alveg eins og kvennaskólarnir fyrir konur.

Háttv. þm. talar um ósamræmi í því, að í frv. eru taldar upp námsgreinir kvennaskólans í Reykjavík, en ekki Blönduósskólans. Þetta er þó alveg í samræmi við frv. um Eiðaskólann, þar sem námsgreinir eru aðeins nefndar til bráðabirgða, ekki fastákveðnar, en skulu síðar ákveðast með reglugerð. En hjer eru þær beinlínis taldar upp. Ástæðan til þess, að námsgreinir Blönduósskólans eru ekki taldar upp, er sú, að því er mjer er tjáð, að skólinn er að taka breytingum og færast nær því að verða húsmæðraskóli. Ef svo er, þá er ekki nema eðlilegt, að námsgreinir sjeu ekki fastákveðnar.

Þá talaði háttv. 3. landsk. (JJ) um ósamræmið milli launa forstöðukvenna þessara tveggja skóla. Það er alveg rjett, að það getur litið svo út, sem svo sje. Gæti ef til vill verið rjett að hækka laun forstöðukonunnar á Blönduósi. Jeg skal ekki fullyrða neitt um það sem stendur. Það þótti ekki ástæða, meðan engin óánægja var með launin, að vera að hækka þau meira en sem nam dýrtíðaruppbótinni. Og er það mikil hækkun frá því, sem nú er.

Háttv. þm. vildi bera laun forstöðukvennanna saman við laun skólameistara Mentaskólans og Gagnfræðaskólans á Akureyri, og sagði, að hlutföllin ættu að vera svipuð. En það er ekki rjett að bera saman þá síðarnefndu, sökum þess, að þar er um kaupstaði að ræða. Þrátt fyrir það, að Blönduós er verslunarstaður, tel jeg vafalítið, að þar mun ódýrara að lifa en t. d. á Akureyri, en hvað sem um þetta er, skiftir það ekki miklu máli, því þetta atriði er ekki stórt, en ef það yrði talið nauðsynlegt að hækka þessi laun, mun stjórnin ekki taka illa undir það, og svo sje jeg ekki ástæðu til að eyða fleiri orðum að þessu atriði.

Háttv. 3. landsk. (JJ) taldi ófært, að forstöðu- og kenslukonunum væri ætlað frítt fæði; en má jeg spyrja, hvers vegna telur þm. þetta óhæfu? Jeg sje ekkert á móti því að áætla þetta í frv. á sama hátt og þessu er nú fyrir komið. Frv. gerir ráð fyrir, að sama skipun haldist í sem flestu eða öllu á skólunum, að því einu breyttu, að ríkið hafi yfirráðin yfir skólunum framvegis. þessi ákvæði um frítt fæði tíðkast víða, bæði hjer og erlendis, bæði í skólum og í ýmsum öðrum stofnunum, sem slíkt á við í. Hjer á landi er þetta altítt, og jafnvel í stofnunum, sem launa starfsmenn sína tiltölulega fult eins vel og skólarnir, t. d. í spítölum og sjúkrahúsum hafa forstöðumenn eða konur og annað starfsfólk venjulegast frítt fæði, ef það er ógift, Auðvitað koma ekki þessi ákvæði til greina á sama hátt gagnvart giftu fólki.

Þá sagði háttv. 3. landsk. (JJ), að það væri hart fyrir ýmsa aðra hluta landsins, að þessir tveir skólar aðeins væru gerðir að ríkisskólum. Hvað mættu þá t. d. Vesturlandshjeruðin segja, sem eiga engan skóla? Það var ekki vel heppilegt fyrir háttv. þm. að koma með þessi dæmi nú. Á Austurlandi er þó t. d. Eiðaskólinn, háttv. þm. hefir víst ekki munað eftir honum. Á Suðurlandi eru ýmsir skólar og á Norðurlandi sömuleiðis, t. d. búnaðarskólarnir, gagnfræðaskólarnir hjer syðra og á Akureyri. Á Norðurlandi á einnig að komast bráðlega á fót spítali, sem áreiðanlega verður ríkisstofnun, enda þótt byrjað sje á því fyrirtæki að mestu með styrk frá einstökum mönnum. — Nei, Norðlendingar hafa ekki farið varhluta af því, að fá til sín ríkisstofnanir, skóla eða annað: þeir hafa venjulega sagt til sinna þarf með fullri einurð, og jeg er ekki að lasta það. En íbúar Vesturlandsins hafa ekkert fengið ennþá, sem verulega er um vert, síðan Ólafsdalsskólann leið. Um Staðarfellsskólann má vel segja, að hann sje ekki til enn þá eða ekki kominn á ríkið, þar eð fjárveitingu vantar til hans ennþá í fjárlögin.

Enn sagði háttv. 3. landsk. þm. (JJ), að meiri ástæða væri til að gera hjeraðs- eða unglingaskólana að ríkisstofnunum heldur en barnaskólana, vegna þess að unglingafræðslan gerði meira gagn en sú fræðsla, sem veitt væri í barnaskólunum. Mjer finst ekki heppilegt að jafna þessum skólum saman; jeg geri ráð fyrir, að æði mikið mundi draga úr því gagni, sem unglingaskólarnir gera, ef nemendurnir kynnu hvorki að lesa nje skrifa, er þeir kæmu í skólana. Nei, barnaskólarnir leggja grundvöllinn, sem allir aðrir skólar verða að byggja á fræðslu sína, og þá kemur það einnig til álita, að í unglingaskólana fara hvergi nærri allir unglingar á skólaaldri. það er óhugsandi, í jafnfátæku og strjálbygðu landi og Íslandi, að allir unglingar á 14–20 ára aldri geti gengið á unglingaskóla, en í barnaskólana verða þeir allir að fara, því barnaskólafræðslan er nauðsynlegur grundvöllur undir hverja þá fræðslu, sem unglingunum gefst kostur á.

Hvað húsmæðraskólann á Akureyri snertir, þarf jeg ekki að ræða hann nú; skólinn er ekki ennþá kominn á fót, og því finst mjer, að nógu snemt sje að taka ákvarðanir um hann, þegar hann er tekinn til starfa.

Háttv. 3. landsk. þm. (JJ) sagði, að það, sem sjerstaklega væri athugavert við frv., væri það, að það drægi mjög úr samúð almennings með þeim skólum, sem væru einkastofnanir, og vilji manna til að leggja fram fje til skólanna mundi minka, ef frv. yrði samþ. En jeg hefi ekki orðið var við, að alment væri hjer á landi, að menn legðu að jafnaði fram fje til fyrirtækja, sem ekki gefa neinn arð eða von um arð í aðra hönd. Menn eru fljótir á sjer og fúsir til að hjálpa til að byrja á einhverju og eru þá oftast nær framlagafúsir, þegar um er að ræða að stofna einhver ný fyrirtæki. En þegar þau eru komin upp, og stundum jafnvel áður en alveg er búið að koma þeim að öllu leyti á fót, fer jafnan að draga úr framlögum og fórnfýsi manna, og vantar því oft fje á síðustu stundu, til þess að fyrirtækin geti tekið til starfa. Jeg held, að reynslan hafi nægilega sýnt það að því er hjeraðaskólana snertir, að menn halda ekki að staðaldri áfram með að leggja fje til þeirra. Jeg fæ ekki sjeð, að nokkur ástæða sje til að vænta þess fremur af konum en körlum framvegis í Rvík, að lagt verði stórfje af mörkum til uppihalds kvennaskólanum, enda hafa konurnar í Reykjavík þegar haldið uppi þessum skóla um mörg ár, áður en ríkið fór að styrkja hann. Sem dæmi um hina miklu hrifningu, sem oft grípur almenning, þegar um er að ræða að koma einhverjum nýjum fyrirtækjum á fót, mætti t. d. nefna stofnun Eimskipafjelags Íslands, bygging Vífilsstaðahælisins o. fl., en þó fór það svo, að öll fjárframlög hættu, áður en alveg var búið að ganga frá Vífilsstaðahælinu; þá skorti fje til að lúka við það að fullu og byrja rekstur þess. Þó hefir fórnfýsi almennings að því er fjárframlög snertir aldrei komið betur í ljós en þegar safnað hefir verið til byggingar heilsuhælisins á Norðurlandi, og verður það ávalt Norðlendingum til sóma, hvernig þeir hafa snúist við því máli. En menn munu þó fljótt þreytast, ef til þess yrði ætlast, að heilsuhælið í Kristsnesi yrði rekið og því að öllu leyti haldið uppi með almennum fjárframlögum að staðaldri. En til þess hefir auðvitað aldrei verið ætlast. Það mun altaf hafa verið gert ráð fyrir því, að ríkið tæki við hælinu, þegar það væri komið á fót. Þess vegna er ekki rjett og má ekki til lengdar byggja á eða treysta fórnfýsi almennings til fjárframlaga. Kvennaskólarnir á Blönduósi og í Reykjavík hafa um alllangt árabil bjargast áfram við ríkissjóðsstyrkinn einn saman og án nokkurs fjárframlags, sem nokkru nam, annarsstaðar að. Jeg verð því að segja, að það væri ósanngjarnt að ætlast til þess fremur af konum en körlum, að nú væri lagt fram fje, sem um munaði, til þessara skóla.

Um brtt. háttv. 3. landsk. (JJ) ætla jeg ekki að fara mörgum orðum. Jeg álit, að þær sjeu aðeins bornar fram til að sýna afleiðingar frv. frá sjónarmiði háttv. þm., — þær eigi að vera einskonar grýla á stjórnina fyrir að hafa lagt fram þetta frv. En þetta hefir þó tekist allóhöndulega fyrir háttv. þm., því nær því sanna hefði þá verið, ef á þessar afleiðingar hefði verið bent, er Eiðaskólinn var tekinn á ríkissjóð. Þetta kemur því full-seint fram; líklega af því, að hv. þm. hefir ekki sjeð þetta fyr.

Jeg verð að segja um það, sem háttv. þm. (JJ) hefir talað um, að verið væri að gera upp á milli hjeraða eða mismuna þeim, að jeg fæ ekki sjeð, að Árnesingaskólinn þurfi að vera miklu stærri en aðrir skólar af því tagi, þar sem skólinn er aðeins ætlaður Árnessýsla einni. Í fyrstu var til ætlast, að þessi skóli ætti að vera fyrir fleiri sýslur en Árnessýslu eina, en frá því virðist nú vera fallið og skólinn eiga að vera aðeins fyrir þetta eina sýslufjelag. Jeg veit ekki, hvort svo mjög er misjafnað á framlagi til þessa skóla í Árnessýslu á móts við aðra slíka skóla, en mjer hefði þótt miklu heppilegra, ef komist hefði á fót miklu stærri og myndarlegri skóli fyrir alt Suðurland, en þetta getur ef til vill liðkast eitthvað.

Loks skal jeg geta þess, að það var skólanefnd kvennaskólans í Reykjavík, og ekki síst formaður skólanefndarinnur, prófessor Eiríkur Briem, sem kom til mín og mælti fast fram með því, að skólinn yrði gerður að ríkisskóla, og er það því aðallega hans áhrifum að þakka, að frv. er fram komið. Hitt er auðvitað satt, að háttv. 4. landsk. (IHB) hefir mjög stutt þetta mál og er því mjög fylgjandi, sem vonlegt er. En miklu rjeð um, að frv. þetta er frá stjórninni komið, tillögur stjórnarnefndar og aðallega formanns hennar um þetta mál. Jeg nefni þetta vegna þess, að það hefir hvorki þótt óskynsamlegt nje gefist illa að taka dálítið tillit til álits og tillagna þessa manns (próf. E. Briem), að minsta kosti í fjármálunum. Ráð hans hafa til þessa hvervetna og áreiðanlega gefist vel.