23.04.1926
Efri deild: 57. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (2089)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Forsætisráðherra (JM):

Það eru aðeins örfá orð, sem jeg þarf að svara hv. 3. landsk. (JJ). Hann sagði, að jeg hefði farið rangt með það, sem jeg sagði um kostnað við barnaskóla í öðrum löndum. Jeg satt að segja get ekki skilið, hvað gat verið rangt í því, sem jeg sagði um þetta. Jeg sagði, að í flestum mentuðum löndum hefði kostnaðurinn við barnaskólana verið greiddur af sveitafjelögunum, en ekki ríkinu til skamms tíma. Hann sagði, að svo hefði verið í mínu ungdæmi. En jeg staðhæfi, að þannig hafi það verið í hans ungdæmi og jafnvel yngri manna. En yfirleitt mun mega segja, að það hafi orðið fyrst á síðari árum, sem sú breyting hafi á orðið í ýmsum löndum, að ríkið tæki að sjer kostnað og rekstur barnaskólanna. Jeg nefndi ekki Norðurlönd sjerstaklega, svo það er alveg rangt hjá hv. þm. (JJ). Jeg veit, að bæði í Danmörku og Noregi hefir á síðari árum orðið slík breyting.

Þá sagði hv. þm. (JJ), að það væri rangt, sem jeg sagði um sjerskólana. Honum finst þó líklega ekki rangt að skoða vjelstjóraskólann og stýrimannaskólann sjerskóla, og mætti þá líklega eins taka iðnaðarmannaskólann á ríkissjóð. Þá mun mega finna fordæmi þess með öðrum þjóðum, að verslunarskólar og aukheldur verslunarháskólar sjeu kostaðir af ríkissjóði. Það gæti líka orðið hjer til bóta, að ríkið ræki verslunarskóla, sem væri jafnt fyrir kaupmenn og samvinnufjelög, því það er engin ástæða til þess að hafa þá kenslu tvískifta. Þá sagði hv. þm., að það væri rangt hjá mjer, sem jeg sagði um Eiðaskólann, að það, sem þar stæði um námstilhögun í sjálfum lögunum, væri aðeins til bráðabirgða, og því hefði ekki verið breytt enn, þótt nokkur ár væri síðan farið hefði verið fram á að breyta. Þetta sannar ekkert. Hv. þm, ætti að lesa lögin.

Þá sagði hv. þm. (JJ), að jeg hefði farið rangt með um samanburð á kvennaskólunum á Blönduósi og í Rvík. Hann neitaði að vísu ekki, hv. þm. (JJ), að þeir væru kvennaskólar, sjerstaklega fyrir konur. En hann sagðist vilja minna á það, hvað kent væri í þessum skólum. Fyrir mjer stendur það nú svo, að þessir skólar sjeu fyrir konur miðaðir við þeirra þarfir, til að búa þær undir þá sjerstöku stöðu, sem þær venjulega eiga að gegna í þjóðfjelaginu.

Þá talaði hv. þm. (JJ) um það, að styrkur frá bænum til kvennaskólans hjer væri síður fáanlegur vegna þessa frv., sem hjer kæmi fram, bæði nú og í fyrra. Sje hann síður fáanlegur nú, þá er skaðinn ekki stór, því jeg hefi nefnilega aldrei orðið var við það, að bærinn legði nokkurntíma nokkuð sem hjeti til skólans, og eru þó nokkur ár, sem hann hefir starfað áður en kom til mála að gera þessa breytingu, sem kom til tals í fyrsta sinn í fyrra.

Þá gerði hv. þm. (JJ) sjer mat úr því og sagði það nýtt uppátæki, að það væri ekki tekið fram í frv., hvaða kenslugreinar ætti að kenna í skólanum. Jeg verð nú að segja það, að háttv. þm. sýnir stundum undraverða vanþekkingu í þeim atriðum sumum hverjum, sem honum ætti þó að vera í kunnugra lagi. Það er einmitt mjög ótítt í lögum sem þessum að tiltaka, hvaða kenslugreinar skuli vera kendar. Til að sýna þetta skal jeg ekki byrja á smærra dæmi en sjálfum háskólanum. Um nám í honum fer alt eftir sjerstökum reglugerðum. Sama var um prestaskólann og gamla lærðaskólann, mentaskólann og gagnfræðaskólann á Akureyri. Þetta er því eins fjarri lagi og getur verið. Það er undarlegt, þegar menn ætla að slá sig til riddara á þeim, sem vita alt miklu betur en þeir sjálfir. Hv. þm. (JJ) getur nú sjálfur reynt að sannfæra sig um þetta, og honum ætti því fremur að vera þetta minnisstætt, að minsta kosti hvað snertir mentaskólann og gagnfræðakólann á Akureyri, þar sem jeg sagði hjer í þinginu í fyrra, að jeg gæti raunar ráðið því, hvaða námsgreinar væru kendar í þessum skólum, og eins um sambandið milli þeirra. Hv. þm. fer nú að sanna sjálfur æði átakanlega hið fornkveðna:

At augabragði

verðr sás ekki kann

ok með snotrum sitr.