23.04.1926
Efri deild: 57. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (2091)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Jeg get verið stuttorður, þar sem hæstv. forsrh. (JM) er, að því er virðist, að rökum til fallinn í valinn. Ræða hans var það, sem maður mundi kalla að bera af sjer sakir, og kom hann með allmörg atriði, þar sem hann þóttist verða fyrir röngum dómi, en í allmörgum atriðum var ekki svo vel, að hann væri saklaus, vil jeg þar meðal annars taka til dæmis kostnaðinn við barnaskólana, þar sem hæstv. ráðh. (JM) vildi sýna fram á, að það væri rangt, að barnaskólar væru eða hefðu verið á sveitarfjelögunum. Hann hefir játað það, að þær þjóðir, sem eru næstar okkur, t. d. Danir, Norðmenn, Svíar og

Finnar, eru allar komnar inn á þessa stefnu, og það er rjett hjá hæstv. forsrh. (JM), að það eru „demokratiskir“ straumar, sem hafa gert þetta að verkum. Skólarnir eru nú orðnir miklu betri en áður og eru nú að mestu kostaðir af landsfje; það er þessvegna ekki annað en það, að hæstv. ráðh. (JM) var að villast, þegar hann var að tala um, að það væri í öfuga átt, sem straumar samtíðarinnar gengi, en það eru einmitt straumar samtíðarinnar, sem hæstv. ráðh. (JM) hefir sjeð flæða yfir landið, þegar barnaskólarnir voru að miklu leyti teknir á ríkissjóð. Hæstv. ráðh. (JM) hafði eitthvað misskilið það, sem jeg hafði sagt um tregleika Reykjavíkur til þess að styðja kvennaskólann, en aftur hafði hv. 4. landsk. (IHB) skilið það rjett; jeg vjek að því, að það væri hvergi nema hjer á Íslandi, að kvennaskólar væru hafðir fastir á ríkissjóði, en að þessi kvennaskóli væri ekki meira metinn hjer í bænum en raun væri á orðin hjá bæjarstjórn, mundi vera af því, að hún teldi hann ekki nauðsynlegan. Þetta hafði hæstv. ráðh. (JM) alveg misskilið, en af því að ræða hans var mjög út í hött, þarf jeg ekki að svara því, heldur aðeins endurtaka það um kröfu kaupstaðarskóla, sem væri vel liðinn, eins og kvennaskólinn gæti verið, að þar ættu næstu sýslur að veita talsvert mikið til hans, eins og jeg hygg, að mundi vera hjer í Reykjavík, ef litið væri á þá möguleika til náms, sem þar eru fyrir hendi, en það væri alt fyrirkomulag skólans, sem væri í ósamræmi við framtíðina, og að bæjarstjórn Reykjavíkur vilji ekki styrkja hann, vegna þess að hún finni, að það ætti að vera til svipaðir skólar bæði fyrir konur og karla; öðruvísi getur þessi skipulagsbundna mótstaða ekki skilist hjá þeim, sem aðallega eiga að senda nemendur til hans. Við sjáum t. d. um Blönduósskólann, að þangað sækja stúlkur af öllu landinu, og jeg geri t. d. ráð fyrir því um þann skóla, að það muni vera einhverjir nemendur þar úr fjarlægum hjeruðum, þótt sýslusjóður styrki hann og hafi lagt þar í byggingarkostnað.

Þá var þetta atriði, sem hæstv. forsrh. (JM) gerði sig svo gildan yfir, um reglugerð fyrir skólann. Nú getur hæstv. ráðh. ekki neitað því, að hann hefir lagt fyrir þingið stjfrv. um þann skóla, þar sem það er nákvæmlega tekið fram, hvað þar á að kenna, og sama er að segja um frv. það, er hann lagði fyrir þingið í fyrra um sama skóla, svo að þetta er aðeins „after-thought“ hjá hæstv. ráðherra (JM), enda sjer hann, að hann mundi jafnvel ekki koma frv. gegnum aðra deildina, ef hann vildi halda því fram, að þetta væri sjálfsagt reglugerðarákvæði, en ætti ekki að vera í lögunum sjálfum, og í kennaraskóla-lögunum er þetta ákveðið, en var meira að segja breytt, og yfirleitt er þetta sú almenna regla, að hæstv. ráðherra getur ekki neitað því, að fyrir háttv. 1. landsk. (SE), þegar hann verður ráðherra næst, er hægt að breyta skólanum algerlega með reglugerð og setja þar eintóma grauta- og kökugerð. Það gæti orðið svipað eins og í Ameríku einu sinni, þegar nýr stjórnarforseti setti 2000 embættismenn frá, þegar stjórnarskifti urðu. Jeg býst líka við, að hæstv. ráðherra (JM) sje það vel ljóst, að hann hefir ekki neista af möguleika til að breyta fyrirkomulagi háskólans, því að hann hefir sín eigin lög og reglur og mundi alls ekki leyfa neinni stjórn að breyta neinu af hans fyrirkomulagi. Og hæstv. ráðherra (JM) hefir líka sýnt það í verkinu, að hann trúir alls ekki á þá aðferð að breyta fyrirkomulagi skóla yfirleitt með reglugerð, því að hann kemur hjer með stjfrv., sem meðal annars fjallar um það, hvað kent skuli í skólanum, af því að hann veit, að þessi gamli siður um, að stjórnin ákveði, hvað kent skuli, er frá þeim tíma, sem við ekki höfðum eigin löggjöf, og þá var það vitanlega stjórnin, sem hafði þessi rjettindi, en ekki þingið. Nú eru t. d. allar líkur til, að hæstv. ráðherra (JM) ráði ekki neitt við, hvað þingið gerir í mentaskólamálinu. Frv. stjórnarinnar er nú víst bæði orðið botnlaust og vitlaust, eða ef það er ekki, þá vantar víst alveg miðpartinn í það. Hæstv. ráðherra (JM) myndi víst strax hafa samið reglugerð fyrir þann skóla, ef hann hefði sjeð sjer það fært, en alt hans ráðherrastarf er jafn-mikil endaleysa og það, sem hann hefir haldið hjer fram um skólamálin.

Þá kem jeg að hv. 4. landsk. (IHB). Mjer þykir leitt, að hv. þm. (IHB) skuli ekki muna betur, hvað gerðist í mentmn. í fyrra, þar sem við hv. 1. landsk. (SE) vorum í meiri hl. og hv. 4. landsk. (IHB) í minni hl., kom þetta undireins fram, að öll nefndin tók afstöðu í móti Blönduósskólanum. Jeg hefi nú sannfærst um, að það er sá skólinn, er helst fullnægir þeirri kröfu, sem jeg þá gerði, að breytingin er svo óðfluga í þá átt, hússtjórnarskóla-áttina, en það er mjer eiður sær, að hv. 4. landsk. (IHB) barðist fyrst í nefndinni á móti skólanum og svo í þingræðum, sem þá lenti alt á sessunaut mínum, hv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ), sem þá barðist vel fyrir því máli, en það er gleðilegt að sjá, hvernig góður málstaður sigrar, því að honum hefir nú tekist að snúa háttv. 4. landsk. (IHB) og sennilega allmörgum af hans samherjum. Svo hefi jeg komist að raun um, við það að sjá, hvernig skólinn hefir færst í þá átt, sem jeg hefi óskað, en það er alveg tilgangslaus snúningur af hálfu hv. 4. landsk. (IHB), sem ljet sig það engu skifta, hvort hjer var um sjerskóla fyrir kvenfólk að ræða eða ekki, og svo er það náttúrlega frá sjónarmiði þess hv. þm. (IHB) engin eldri reynsla, sem sá hv. þm. (IHB) getur metið neitt, vegna þess að hann kærir sig ekkert um, að skólinn þokist í hússtjórnaráttina. En hvað það snertir, að jeg sje að fleyga frv. með því að koma með alla þessa skóla á brtt. minni, þá vil jeg benda á afleiðingarnar, eins og hv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) gerði í fyrra, nefnilega að allir þeir hv. þm., sem að þessum skólum standa, geri tilraunir til að koma þeim inn þegar á næsta þingi; það er sú aðvörun, sem hjer er komin fram, að ef menn ekki vilja taka við þeim líka, þá að gá að sjer við þessa atkvgr. Ef jeg nú greiði atkv. með því, að þessi skóli, kvennaskólinn í Reykjavík, verði að öllu tekinn á ríkið, þá býst jeg við, ef það skyldi koma fyrir, að honum yrði kastað út á götuna, húsviltum á næstu árum, þá yrði jeg að taka þeim afleiðingum af því að hafa nú greitt honum atkv. mitt, að jeg yrði þá að vera því fylgjandi, að það yrði að byggja yfir hann. Nú er hv. Nd. t. d. með heimavistarhús fyrir mentaskólann, sem mun kosta eitthvað 2–300,000 krónur, sem sennilega verður bygt yfir hann, því að þar er um ríkisskóla að ræða. það gladdi mig mjög, að hv. 4. landsk. (IHB) sparaði mjer þá fyrirhöfn að fara að leita í skrifuðum ræðum, með því að hafa ræðu sína við hendina, og viðurkennir, að það þyrfti ekki að koma mikil breyting á til þess að gera úr kvennaskólanum gagnfræðaskóla, Það er alveg eins og hjá þjóðverjum á stríðsárunum, sem höfðu svo afskaplega fullkomnar verksmiðjur, að einn daginn bjuggu þeir kannske til flugvjelar, og svo kannske venjulegar bifreiðar eða mótora næsta dag. Eins koma úr kvennaskólanum húsmæður annan daginn, en gagnfræðingar hinn daginn. Að það sje sönnun fyrir því, að kvennaskólinn sje fyrir landið sjerstaklega og að bæjarstjórn vilji þessvegna ekki styrkja hann, leyfi jeg mjer að efast um, en verð að halda því fram, að það, að bæjarstjórnin vill ekki styrkja hann, sje mótmæli á móti skólanum, því að borgarstjóri er kunnugur hjer og maður vel viti borinn, og myndi naumast neita því, ef hann áliti skólann góðan; en jeg álít nú samt, að borgarstjóri sje of harður í þessu máli, því að skólinn er þó fyrst og fremst fyrir þennan bæ. En hvernig á svo að neita Árnessýslu, þegar þeir leggja fram 60,000 króna til þess að koma upp skólanum og vilja svo kannske koma honum á ríkissjóð á næsta ári? Og hvað gerir svo Reykjavík fyrir kvennaskólann? Ekkert, og þó er hann fyrir konur í Reykjavík.

Jeg ætla svo að taka það fram, að þessar till., sem jeg ber fram á þskj. 376, eru eingöngu miðaðar við það, að frv. verði samþykt; ef hv. deild aftur á móti fellir frv., þá er alveg sjálfsagt að mínar till, falli líka, þær eru aðeins bornar fram í sama tilgangi og till. hv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) í fyrra, til þess að benda á þær eðlilegu afleiðingar af gerðum deildarinnar. Ef ekki hefði verið þessi dæmalausa þrautseigja í hæstv. stjórn við að koma kvennaskólanum á landið, myndu hjeraðsskólarnir basla áfram eins og fyr.