26.04.1926
Efri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í C-deild Alþingistíðinda. (2095)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Sigurður Eggerz:

Mjer þykir nauðsynlegt að taka það fram nú við 3. umr., þar sem mikill hluti umr. hafa snúist um mentamálaatriðin, að þungamiðja málsins liggur alls ekki þar. Hjer er ekki um það að ræða að leggja áherslu á að fá fullkominn kvennaskóla, hjer er um engar breytingar að ræða í þá átt að greiða götu lærimeyjanna. Það er ekki að verða hjer nein stefnubreyting í mentamálunum, síður en svo; og þessvegna hefði mátt fella niður allar umr. um þessa hlið málsins. En það er fjárhagshliðin, sem alt snýst um, nefnilega það, hvort ástæða sje til að auka kostnað ríkissjóðs með því að setja á hann skóla, sem er einkafyrirtæki og mjög sómasamlegur í alla staði. Það er vel þess vert, að það sje athugað, sem hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) mintist á viðvíkjandi lögunum frá 1917 um húsmæðraskóla á Akureyri, hvort ekki mundi heppilegra að verja fje, ef til er, til stofnunar þeim skóla, heldur en að auka útgjöld ríkissjóðs að óþörfu. Væri það ólíku skynsamlegra, enda hrein skylda Alþingis, þar sem nú allir Norðlendingar mæna vonaraugum eftir hinum nýja húsmæðraskóla.

Yfirleitt sýnast heldur daufar undirtektirnar undir sparnaðarhlið þessa máls. Jeg vil benda á, að það er farið að draga nokkuð úr þessum sparnaðarblæ, sem reynt hefir verið að festa á Íhaldsflokkinn, og menn taka það ekki nærri sjer, þótt stjórnin sje nokkuð „flott“. Mjer þykir leitt, að hæstv. forsrh (JM) er ekki viðstaddur, en jeg verð að segja það, að jeg er mjög óánægður með stefnu stjórnarinnar í mentamálunum. Jeg býst við, að margir muni fyllast gremju, þegar stjórnin er að setja nýja skóla á ríkissjóðinn, rjett um það leyti, sem hún gerir ráðstafanir til þess að kasta gagnfræðaskólunum á gaddinn. Hræddur er jeg um, ef nú á að fara að setja á stofn latínuskóla með sama sniði og í gamla daga, og taka af Reykvíkingum gagnfræðaskólann, að það komi hljóð úr horni til stjórnarinnar. Og þá mun hún lítið geta varið sig með því, þegar hún hefir gleymt gagnfræðaskólanum, að hún hafi munað eftir kvennaskólanum í Reykjavík. Jeg vil, að það komi skýrt fram, að jeg er óánægður með stefnu stjórnarinnar í þessu máli. Hún hefir daufheyrst við því, þegar talað er um, að verið sje að auka útgjöldin að óþörfu. En hún er aftur næmari fyrir, ef minst er á að auka öryggið í Hæstarjetti, með því að bæta við einum tveim embættum, en berst fyrir því með hörku, þing eftir þing, að koma kvennaskólanum á ríkissjóðinn.