12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í C-deild Alþingistíðinda. (2105)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Árni Jónsson:

Það er í rauninni synd að vera að tefja umr. lengur, og skal jeg því vera stuttorður, svo að jeg verði ekki til þess að seinka afgreiðslu málsins. En jeg ætlaði aðeins að gera grein fyrir atkv. mínu.

Jeg get tekið undir það með háttv. frsm. meiri hl. (ÞórJ), að kvennaskólarnir eru sjerskólar, sem hafa sama rjett og t. d. búnaðarskólar. En þetta eru alrangar forsendur fyrir niðurstöðunni. Er nóg í þessu sambandi að líta á Reykjavíkurskólann. Hjer er ekki um sjerskóla að ræða, þegar hann var stofnaður fyrir um 50 árum, stóð alt öðruvísi á. Þá var hjer enginn gagnfræðaskóli, verslunarskóli, unglingaskóli o. s. frv., og var því ekki í annað hús að venda en þangað. En bóklega námið þar er ekki annað en það, sem kent er í flestöllum skólum, — alþýðu og unglingaskólum.

Það var tvent, sem jeg hjó eftir í ræðu háttv. frsm. meiri hl. (ÞórJ), sem mjer þótti merkilegt. Hann taldi upp skyldunámsgreinirnar við Blönduósskóla, og eru þær örfáar. En þar á meðal er þó sú námsgreinin, sem er afarnauðsynleg í slíkum skólum, og það er uppeldisfræðin. Er jeg bar þetta svo saman við frv., að því er snertir kvennaskólann í Reykjavík, sá jeg, mjer til mikillar undrunar, að í þessum svokallaða sjerskóla kvenna í höfuðstað landsins er þessari námsgrein slept.

Í frv. er vitnað til handavinnu, útsaums, ljereftasaums o. s. frv. En í öðrum skólum er handavinna líka kend, og þá í tvennu lagi, þannig að karlmenn stunda smíðar, en kvennfólkið saumaskap. Yfirleitt er auðsjeð, þegar maður lítur yfir námsgreinirnar, að það eru aðeins örfáar þeirra, sem eru sjereinkenni kvennaskóla, flestar eru þær einkenni gagnfræða- eða alþýðuskóla.

Jeg ætla ekki að ganga ítarlega inn á þetta mál eða víkja nokkuð að kostnaðarhliðinni. Háttv. frsm. minni hl. (BSt) tók það rjettilega fram, að kostnaðurinn mundi verða hinn sami.

Kvennaskólinn í Reykjavík er auðvitað alls góðs maklegur, og mundi jeg ekki sjá eftir því, þó að kennarar hans fengju þannig bætt kjör, ef hjer væri um sjerskóla fyrir konur að ræða. Háttv. frsm. meiri hl. (ÞórJ) sagði, að ríkið gæti gert þá kröfu, að skólinn yrði meira húsmæðraskóli en hann nú er. En nú er málið ekki á því stigi, að breyting þessi sje gerð, en ef hún væri komin á, gæti jeg fylgt frv. En það er engin hætta á því, að skólinn komist í það horf á þessu þingi, enda hafa forgöngumenn frv. ekki sýnt neinn áhuga á því.

Alt öðru máli er að gegna með kvennaskólann á Blönduósi, og tel jeg illa farið, að hann sje í sama frv., því að hjer er um ólíka skóla að ræða.

Blönduósskólinn er miklu meiri sjerskóli en Reykjavíkurskólinn, sem er ekki sjerskóli að neinu öðru leyti en því, að hann veitir ekki karlmönnum inngöngu. Annað einkenni hefir hann ekki fram yfir gagnfræða- og unglingaskóla.

Minni hl. nefndarinnar hefir borið hjer fram dagskrá. En jeg get ekki felt mig við hana, því að jeg tel enga þörf á að undirbúa þetta mál. Jeg greiði því atkv. móti dagskránni, og ef hún fellur, þá á móti frv.