16.02.1926
Neðri deild: 8. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í C-deild Alþingistíðinda. (2110)

23. mál, fátækralög

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg hefi á undanförnum þingum flutt allvíðtækar breytingar á fátækralögunum, en þeim hefir verið misjafnlega tekið. Hv. þm. hafa þó yfirleitt látið í ljós velþóknun sína á einni breytingunni, en það er sú, sem nú er á dagskrá. Hún er þess efnis, að fátækrastyrkur, sem veittur er mönnum 60 ára eða eldri, skuli ekki talinn sveitarstyrkur.

Í mínum augum er þessi breyting mjög sjálfsögð, og af því að mjer hefir virst hún fá mjög góðar undirtektir hjá hv. þm., taldi jeg rjett að bera hana fram sjerstaklega og gefa þeim þannig tækifæri til þess að koma henni fram.

Jeg tel ekki þörf á löngum skýringum, enda hefir áður verið um þetta rætt. Jeg get ekki sjeð, að þessi breyting þurfi nokkuð að raska viðskiftum milli sveitarfjelaga. Kröfurnar mundu ekkert breytast, og þótti mjer ekki þörf á að taka slíkt fram. Einnig lít jeg svo á, að ef breytingin verður samþykt, eigi þeir, sem þegið hafa sveitarstyrk yngri en sextugir, að öðlast þessi rjettindi, er þeir ná sextugsaldri. Með öðrum orðum: Allir 60 ára og eldri eiga að halda fullum og óskertum mannrjettindum, þó þiggja þurfi af sveit.

Vel má vera, að sumir líti svo á, að með þessum hætti muni einhverjir ómaklegir öðlast rjettindi. En hjer er um svo mikla rjettarbót að ræða þeim til handa, sem styrk verða að þiggja, án þess að þeim verði sjálfum um kent, að ekki má setja fyrir sig, þó að einhver óverðugur, að sumra dómi, kynni að slæðast með.

Jeg leyfi mjer að óska, að frv. þessu verði vísað til allshn., að lokinni 1. umr.