27.02.1926
Neðri deild: 16. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í C-deild Alþingistíðinda. (2115)

23. mál, fátækralög

Frsm. meiri hl. (Pjetur Þórðarson):

Það er ekki rjett, sem hv. frsm, minni hl. allshn. (JBald) sagði, að sömu ástæður og áður væru til þess, að fresta þessari breytingu nú. Það er meiri ástæða að fresta henni nú en áður, þar sem að því virðist vera komið, að gagngerð endurskoðun á fátækralögunum fari fram. Jeg hefi fulla ástæðu til þess að vænta þess, að almenn breyting á lögunum verði lögð fyrir næsta. þing, því er meiri ástæða til frestunarinnar nú en verið hefir á undanförnum þingum. Hve mikil rjettarbót væri í þessu fólgin, vildi jeg ekki neitt fara inn á í fyrri ræðu minni, en ummæli hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) gefa mjer tilefni til þess. Þessi rjettarbót mun ekki verða svo víðtæk, sem hv. flm. (JBald) ætlast til, og kemur það af því, að ellistyrktarsjóðirnir eru orðnir svo starfandi í þessu efni. Jeg hygg, að margt gamalt fólk kæmi ekki til með að þurfa á þessari rjettarbót að halda, vegna ellistyrktarsjóðanna. Auk þess mundi hún verða sumum hefndargjöf, þeim, sem orðnir eru svo örvasa, að þeir geta ekki neytt rjettar síns. Jeg segi þetta ekki vegna þess, að jeg telji ekki þessa breytingu rjettláta og sanngjarna, en hjer er ekkert, sem rekur á eftir, og enginn segir flýttu þér, svo að óþarft virðist vera að taka hana út úr sjerstaklega. Jeg hygg, að hún geti beðið og orðið samferða öðrum þýðingarmeiri breytingum. Eins og jeg tók fram áður, er þetta einfalt mál og fremur þýðingarlítið, og hirði jeg því eigi að deila um það, en læt hv. flm. (JBald) um að útlista, hve áríðandi það er nú.