27.02.1926
Neðri deild: 16. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í C-deild Alþingistíðinda. (2117)

23. mál, fátækralög

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg skal ekki tefja umræðurnar mikið. En jeg kann ekki við það, að háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) standi einn uppi í þessu máli, sem jeg tel hið mesta rjettlætismál. Jeg get alls ekki fallist á ástæðurnar í nál. meiri hl. allshn. Ef um er að ræða ranglæti í löggjöfinni, þá á alls ekki að fresta því að leiðrjetta það. Jeg fæ ekki sjeð, að nokkur trygging sje fyrir því, að bót verði ráðin á þessu á næsta þingi, þó það verði felt nú. Og jeg get ekki verið með í því að greiða atkv. á móti þessu sanngjarna og rjettláta máli og mun því greiða atkv. með frv. Það var mjög fallegt, sem hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði um óskráð, fögur lög. Það er gott og blessað, að þau sjeu til. En hin skráðu lög, sem gilda, eiga líka að vera sanngjörn og fögur, og ef þau eru það ekki, þá á að nema þau úr gildi.