27.02.1926
Neðri deild: 16. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í C-deild Alþingistíðinda. (2119)

23. mál, fátækralög

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg vil byrja á því að þakka hv. þm. Str. (TrÞ) fyrir þann stuðning, sem hann veitti þessu máli, en út af því, sem komið hefir fram í málinu, sjerstaklega hjá hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) vil jeg aðeins segja honum það, að ef allir væru nógu góðir, þyrfti enga til þess að sitja við að semja lög, En við komumst nú einu sinni ekki framhjá þessu ástandi, því að mennirnir eru nú ekki eins góðir og þeir eiga að vera, og það veit háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), þó að hann þekki þessi tvö góðu sveitarfjelög, sem kunna að skilja og meta þessi óskráðu lög. Hinsvegar hefir mjer líka heyrst hjer vera einstakar raddir, sem segja, að þetta geti ekki verið eins og hv. þm. (SvÓ) vill hafa það, og líka veit hv. þm. (SvÓ) það, að þó að í einstökum tilfellum megi kannske segja, að 100 króna styrkur geti hjálpað manni, sem er yfir 60 ára, frá því að fara á sveitina, þá mun það ekki nægja víða. Mjer hefir t. d. verið sagt, að í Skaftafellssýslu geri menn sjer mjög mikið far um að hindra menn á öllum aldri frá því að fara á sveitina, t. d. ef einhverjum bónda vegnar miður en skyldi, þá er honum hjálpað um bústofn og annað, sem hann kann að þurfa með. Þetta er gott, þar sem það er gert, en þetta er því miður ekki alment, en það er einmitt það almenna, sem hjer er verið að tala um, og hvað snertir þessi tvö hreppsfjelög í Suður-Múlasýslu, sem hv. þm. S.-M. (SvÓ ) var að tala um, gerir það ekki óþarft að breyta fátækralögunum.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Barð. (HK) var að segja, þá vildi jeg leggja það til, að við færum ekki út í neinar lögskýringar, því að jeg lít svo á, að þeir menn, sem kæmu undir þessi lög og væru yfir sextugt, myndu ekki breyta miklu við kosningar í landinu, og þó að svo færi, að þeir yrðu nokkuð fleiri, sem fengju rjettindi sín með því móti, er jeg lýsti sem skoðun minni á framkvæmd þessa frv., þá held jeg, að það gæti ekki talist annað en bót á lögunum.