27.02.1926
Neðri deild: 16. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í C-deild Alþingistíðinda. (2122)

23. mál, fátækralög

Jakob Möller:

Mjer þykir það undarlegt, ef hv. meiri hl. nefndarinnar villir afstöðu sína til frv. með þeim skýringum, sem hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) var að lýsa. því að eftir því, sem hv. flm. (JBald) fórust orð, skilst mjer, að þetta geti ekki náð til annara en þeirra, sem þiggja styrk eftir að þeir eru orðnir 60 ára, vegna þess að þeir, sem hafa þegið sveitarstyrk áður, standa í sveitarskuld, og þessvegna geta þeir ekki fengið kosningarrjett, nema skuldin hafi verið strikuð út, því að sú skuld, sem þeir þegar hafa stofnað, getur ekki breytt eðli sínu, þó að þeir verði 60 ára. En í frv. er aðeins farið fram á, að sá styrkur, sem þeginn er eftir 60 ára aldur, skuli ekki talinn sveitarstyrkur, og þiggjendur skuli ekki missa rjett sinn. Mjer skilst, að allir, sem tekið hafa til máls, sjeu sammála um, að þetta sje rjettlátt og sanngjarnt, og þessvegna get jeg ekki skilið það, hversvegna á að hindra framgang þessa frv., að minsta kosti finst mjer það vel til fallið að undirstrika þann vilja þingsins, að endurskoðun fátækralaganna verði hraðað, með því að láta frv. ganga til 3. umr. Jeg skil ekki, að nokkur maður sje svo sinnaður, að honum virðist rjett að láta það varða rjettindamissi, þó að 60 ára einstæðingur þurfi að leita hjálpar, og er frv. því fullkomlega rjettmætt.