27.02.1926
Neðri deild: 16. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í C-deild Alþingistíðinda. (2123)

23. mál, fátækralög

Magnús Torfason:

Við erum allir á sama máli um það, að þetta frv. sje í alla staði rjettmætt, og þessvegna finst mjer allathugaverð aðstaða hv. meiri hl. allshn. En sjerstaklega vildi jeg athuga ummæli hæstv. atvrh. (MG). Hann lofaði að flýta fyrir því, að endurskoðun fátækralaganna færi fram, en engu um það, að taka upp þau ákvæði, sem hjer er talað um. Hefði hæstv. ráðherra (MG) lofað því, þá gæti jeg skilið það, að hv. deild vildi gera hæstv. atvrh. (MG) það til geðs, að falla frá málinu að þessu sinni, en þegar hæstv. ráðh. (MG) ekki lofaði neinu, sýnist ekki vera annað að gera fyrir þessa hv. deild en að láta málið ganga fram, því að vitanlega er þá enginn dráttur verjandi, ef þingið telur málið rjett.

Í þessu sambandi minnist jeg þess, að það var borið hjer frv. fram í hv. Ed. fyrir nokkrum árum, þar sem farið var fram á að hlúa að ellistyrktarsjóðum. Þetta frv. var samþ. í e. hlj. í Ed., en saltað í Nd.; mjer þykir vænt um að heyra, að nú er komið annað hljóð í þessa hv. deild heldur en þá var, því að ef það ráð hefði verið tekið þá, að hlúa að ellistyrktarsjóðnum, þá hefði kannske ekki þurft að koma fram með frv. eins og þetta, en með því að ekkert hefir verið gert í 8 ár að því að hlynna að þeim sjóðum, þá finst mjer það vera skylda okkar að samþykkja þetta frv. eins og það er. En verði dagskráin samþykt, vænti jeg þess, að þeir góðu menn, sem fyrir því ráða, komi þá þegar fram með frv. um að að hlúa eitthvað að ellistyrktarsjóðunum, í staðinn fyrir það, sem þeir hafa brotið af sjer.

Úr því að jeg stóð upp, skal jeg lúka máli mínu með því að óska nafnakalls um þá rökstudda dagskrá, sem fram er komin.