27.02.1926
Neðri deild: 16. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í C-deild Alþingistíðinda. (2125)

23. mál, fátækralög

Magnús Torfason:

Jeg sagði alls ekkert um, að það undraði mig, svo að þetta er ekki rjett hjá hæstv. atvrh. (MG), en jeg held ekki, þótt jeg hefði farið fram á það, að ráðherra gæfi einhver loforð um þetta efni, að þá væri um neina goðgá að ræða, því að þessi litla breyting hefir þegar verið borin fram á mörgum þingum, og jeg hygg, að hæstv. ráðherra (MG) hafi þegar myndað sjer fasta skoðun um það, hvað hún hafi að geyma. En hvað frv. sjálft snertir, þá er þess að gæta, að það er enn ein umr. eftir, til þess að það nái fram að ganga, svo að það getur glatt hæstv. ráðherra (MG), að það er ekkert hægra fyrir hann en að breyta því alveg eins og hann vill hafa það. En annars verð jeg að undirstrika það, sem hæstv. ráðherra (MG) sagði, að með atkvgr. þeirri, sem hjer fer fram, kemur það glögglega í ljós, hvert fylgi frv. hefir, og ef dagskráin verður samþ., býst jeg við, að hæstv. atvrh. (MG) líti svo á, að breytingin hafi ekki fylgi í deildinni.