27.02.1926
Neðri deild: 16. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (2127)

23. mál, fátækralög

Jörundur Brynjólfsson:

Af því að hæstv. forseti (BSv) getur ekki gegn þingsköpum veitt hv. 2. þm. Reykv. (JBald) orðið, hefi jeg leyft mjer að taka til máls. Jeg skal alls ekki blanda mjer inn í verksvið forseta í þessu efni, því að það mun vitanlega rjett, að ekki hafa verið bornar sakir á hv. 2. þm. Reykv. (JBald), en mjer þykir vonlegt, eftir því, hvernig tekið hefir verið á móti frv., að hann vildi gjarnan tala fyrir þessu máli, því að það er enginn nýr gestur í þessari hv. deild. Það hefir verið hjer nokkrum sinnum áður og alt af verið skotið á frest, og þær ástæður færðar til, að endurskoðun fátækralaganna stæði fyrir dyrum; þessu er enn þá barið við, og þó veit enginn, hvort þeirri endurskoðun verður lokið fyrir næsta þing, nje heldur hvort þetta ákvæði verður tekið upp í lögin, þótt einhverjar breytingar verði gerðar á þeim.

Jeg hefi altaf verið því fylgjandi, sem í þessu frv. felst, að þeir, sem verða fyrir því að þurfa að leita sveitarstyrks og komnir eru yfir sextugsaldur, mistu ekki mannrjettindi sín. Nú mætti kannske segja, að það væri ekki svo mikill skaði skeður, þó að frv. væri látið bíða, ef það væri vissa fyrir því, að samhljóða breyting yrði borin fram á næsta þingi, og mjer hefði þá ekki þótt svo fjarstætt að greiða atkv. með dagskrá meiri hl. allshn., ef hann annaðhvort í nál. sínu eða hinni rökstuddu dagskrá hefði vikið að því, að það væri meining hans, að breyting í þessa átt yrði tekin upp í þær breytingar, sem stjórnin ætlar að láta gera á fátækralögunum. Hv. meiri hl. hefir aðeins lýst yfir því, að honum finnist ekki nema sanngjarnt, að breyting þessi nái fram að ganga, hann drepur stuttlega á það í nál. sínu, en í hinni rökstuddu dagskrá er ekki minst á það. Þetta tel jeg bágborna frammistöðu af heilli nefnd, og ekki hefir það orðið til þess að bæta fyrir frv., að hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) fór að taka hjer til máls, þar sem hv. þm. (ÁJ) fór að drepa á það atriði í sambandi við frv., að þeir menn, sem mistu mannrjettindi sín innan 60 ára aldurs, sökum þegins sveitarstyrks, ættu að ná þeim aftur eftir þessu frv. Jeg veit ekki, hvernig hv. þm. (ÁJ) ætlar að láta þá menn, sem þegar hafa tapað mannrjettindum sínum fyrir þeginn styrk, öðlast þau aftur án þess að greiða skuld sína aðeins með ákvæðum þessa frv.; jeg hygg, að það komi alls ekki til mála. Viðvíkjandi öðrum atriðum, sem hv. sami þm. drap á, vil jeg segja það, að mjer hefði fundist það miklu skemtilegra, ef hv. þm. (ÁJ) hefði gert sitt til þess að endurbæta frv. í nefndinni, í stað þess að finna aðeins að agnúunum sem á því eru, hjer við umræðurnar, en vera því þó fylgjandi, eftir því sem hv. þm. (ÁJ) gefur í skyn; sú afgreiðsla málsins, að nefndin hefði lagt til þær breytingar, sem henni hefði þótt til bóta, hefði verið í alla staði skemtilegri og þinglegri. Út frá skoðun hv. meiri hl. allshn. get jeg sagt það, að mjer finst einstaklega hart aðgöngu, að þing eftir þing er verið að tala um þessa rjettarbeit fyrir nokkur gamalmenni, og alt af er henni skotið á frest. Vona jeg, að hv. deild hendi það ekki að fella þetta litla frv. það er víst, að það raskar í engu því þjóðskipulagi, sem hjer er, en það er mannrjettindabót fyrir nokkra gamla menn, sem oft á tíðum eiga það skilið, og það sýnir skilning og mannúð þessarar hv. deildar, hvernig hún fer með þetta mál.