27.02.1926
Neðri deild: 16. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í C-deild Alþingistíðinda. (2128)

23. mál, fátækralög

Árni Jónsson:

Mjer þykir mjög leitt, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) skyldi ekki fá að taka til máls, því að það er í rauninni verk þess hv. þm. (JBald), en ekki mitt, að svara hv. 3. þm. Reykv. (JakM) og hv. 2. þm. Árn. (JörB), því að mjer skilst, að af þeim, sem hjer hafa tekið til máls, sje jeg sá eini, sem hefi sama skilning á þessu frv. eins og hv. flm. (JBald), þó að jeg telji það ekki frv. til bóta, sem hann einmitt vill færa því til málsbóta. þykir mjer það ákaflega einkennilegt, að helstu fylgismenn frv. eru honum ósamdóma um mikilsvert atriði í frv. En eins og stendur hjer í nál. meiri hl. allshn., þá er hann alls ekki fráhverfur því, að ný ákvæði verið sett í lögin, til þess að vernda rjettindi þeirra manna, sem fyrir elli sakir verða að leita opinbers styrks.