07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. fyrri kaflans (Þórarinn Jónsson):

Jeg hefi ekkert að segja fyrir hönd fjvn. annað en það, að hún leggur til, að fjárlagafrv. verði samþykt óbreytt eins og það kom frá Ed. Nefndin hefir ekki sjeð þörf á að afgreiða framhaldsnál., og það var kunnugt hjer í hv. deild, þegar auglýst var að fjárlögin kæmu til umr., að nefndin hafði engar breytingar gert. Aðalástæðan er sú, að firra ríkissjóð meiri útgjöldum en orðið er, en hinsvegar er nefndin engan veginn ánægð með allar þær breytingar, sem orðið hafa á fjárlagafrv., hvorki í Nd. og því síður í Ed. Frá sjónarmiði nefndarinnar á þetta þó ekki að geta valdið því, að hún vilji ekki, að frv. verði samþykt óbreytt eins og það er nú. Nefndin væntir þess, að hv. deild styðji hana í þessu með því að samþykkja ekki þær brtt., sem nú eru fram komnar, því nefndin ætlar að greiða atkvæði gegn þeim öllum.

Um breytingarnar, sem orðið hafa í hv. Ed., þýðir lítið að tala. Gjaldahliðin hefir þar hækkað um 100 þúsund krónur. Þegar litið er á það, að á fjárlagafrv. er orðinn 395 þúsund króna tekjuhalli og þess er gætt, að orðin er lækkun á tekjuhliðinni, sem nemur ½ miljón króna, hlýtur tekjuhallinn að verða yfir 3/4 milj. kr. Eftir því útliti, sem nú er, vænti jeg þess fastlega, að hv. deild fallist á gerðir nefndarinnar í þessu efni.

Jeg vil leiða hjá mjer að tala um breytingarnar, sem orðið hafa í hv. Ed. Þær eru ekki þess eðlis, að þær mundu valda neinni verulegri mótstöðu í fjvn. Aðallega eru það brtt. um fje til ýmsra verklegra framkvæmda. Jeg held því, að rjettast sje að minnast ekki á þessar sjerstöku breytingar, og býst jeg við, að hv. frsm. síðari hluta (TrÞ) líti svipað á það mál.

Tillögur einstakra þm. ætla jeg ekki að gera að umtalsefni, nema fyrstu till. á þskj. 514, frá hv. 3. þm. Reykv. (JakM). Jeg lít svo á, — og það býst jeg við, að nefndin geri líka, — að hún geti ekki heyrt til þessu fjárlagafrv. Mín skoðun er sú, að um þetta geti farið eins og venja er til, sem sje að fjvn. og flokkar þingsins geti staðið hjer að þessu máli.

Skal jeg svo ekki fjölyrða um þetta, og vænti þess, að umr. verði stuttar.