20.02.1926
Neðri deild: 11. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í C-deild Alþingistíðinda. (2132)

30. mál, vegalög

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Eins og hv. þdm. muna, voru spítalavegirnir til Vífilsstaða, Klepps og Laugarness teknir í tölu þjóðvega með vegalögunum 1924. Frv. þetta, sem jeg flyt nú, fer eingöngu fram á það, að vegarspottinn frá Akureyri til Kristness verði einnig tekinn í þjóðvega tölu, vegna heilsuhælisins, sem reisa á í Kristnesi. Mjer virðist þetta raunar vera svo einfalt og sjálfsagt mál, að það þurfi ekki að eyða að því mörgum orðum. Öllum hlýtur að vera það ljóst, að sömu ástæður, sem eru fyrir því, að spítalavegirnir hjer syðra eru í tölu þjóðvega, hljóta einnig að eiga við um þennan kafla af Eyjafjarðarbrautinni. Það er augljóst, að til þess að heilsuhælið komi að notum, verður að liggja þangað greiður vegur frá Akureyri. En trygging fyrir því, að svo verði, fæst ekki með öðru móti en því, að þessi vegur verði tekinn í tölu þjóðvega.

Jeg vænti þess fastlega, að þetta frv. dragi ekki svipaða dilka á eftir sjer og frv. það um breyting á vegalögunum, sem jeg flutti hjer í fyrra, um að taka Eyjafjarðarbrautina, frá Akureyri að Saurbæ, í tölu þjóðvega. Að vísu var sú tillaga rjettmæt og sjálfsögð að mínu áliti, og jeg sný ekki aftur með neitt, sem jeg sagði þá um rjettmæti þess máls. En þó vil jeg ekki fara fram á slíkt nú, svo hjer rigni ekki niður frv. um breytingar á vegalögunum, líkt og þá. Hjer fer jeg því aðeins fram á það, að þessi litli hluti — ¼ af Eyjafjarðarbrautinni — verði tekinn í tölu þjóðvega, af þeim sjerstöku ástæðum, sem jeg nefndi áður.

En fari nú svo ólíklega, að frv. þetta verði til þess, að fram komi frv. um fleiri nýja þjóðvegi, þá mun jeg koma með breytingartillögu við þetta frv., um að taka brautina alla í þjóðvega tölu.

Mál þetta er í sjálfu sjer svo einfalt og sjálfsagt, að það virðist ekki bein þörf, að nefnd fjalli um það. En þó vil jeg leyfa mjer að leggja til, að því verði vísað til samgmn., að umr. lokinni.