23.03.1926
Neðri deild: 38. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í C-deild Alþingistíðinda. (2138)

30. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg ætla ekki að leggja mikið kapp á þetta mál, en hinu held jeg fram, að alt öðru máli sje að gegna um Eyjafjarðarbraut en um Hvammstanga- og Biskupstungnabrautirnar. Hvammstangabrautin liggur frá aðalkauptúninu á þjóðveginn, en um Eyjafjarðarbrautina vita allir, að hún er aðeins innansveitarvegur. Hvað skal segja um þá vegi, sem liggja milli hjeraða og ekki eru í þjóðvegatölu? Jeg skal t. d. nefna veginn milli Ísafjarðar og Önundarfjarðar, sem er mjög fjölfarinn. Er hann í þjóðvegatölu? Nei.

Annars hjelt jeg, að hv. flm. (BSt) þyrfti ekki að verða hissa, þó að meiri hl. nefndarinnar færi eftir áliti vegamálastjóra. Hvað er eðlilegra en farið sje eftir tillögum hans? það má auðvitað búast við, að umferðin um veginn aukist eitthvað við byggingu heilsuhælisins. En er þá Eyfirðingum ekkert hagræði í því að fá hælið? Jeg trúi ekki öðru en að bændur í nágrenninu geti hagnast á að selja því afurðir sínar, og yfirleitt verður hjeraðinu mikill hagur að því að fá þessa stofnun. Jeg tel ekkert eftir hjeraðsbúum að kosta dálítið meiru til vegarins vegna þessara þæginda, enda eykst ekki umferðin svo mjög, þó að við bætist 40–50 manns. Það er álíka og þrjú meðalheimili í sveit.

Jeg ætla ekki að leggja út í deilur um þetta mál, en mjer finst, að hverjum manni ætti að vera auðskilið, að hjer er ekki um sanngirniskröfu að ræða, og að á mörgum öðrum stöðum er miklu brýnni nauðsyn á að kosta til vegagerða, Jeg held, að flestum hafi þótt Eyfirðingar bera óþarflega mikið úr býtum til vegar síns hjerna á árunum, en þá áttu þeir fulltrúa á þingi, sem mikil áhrif höfðu og sköruðu fullkomlega eld að köku hjeraðsbúa.