15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í C-deild Alþingistíðinda. (2145)

30. mál, vegalög

Sigurjón Jónsson:

Jeg kom fram með brtt. við frv., sem hjer liggur fyrir, á þskj. 208, þar sem jeg fer fram á, að vegurinn frá Ísafirði til Dýrafjarðar verði tekinn í þjóðvega tölu. Jeg kom ekki fram með þessa brtt. við 2. umr., af því að jeg bjóst ekki við, að frv. það, sem liggur fyrir, næði samþykki deildarinnar. Bygði jeg þá skoðun mína á því, að nefndin, sem hafði fengið málið til meðferðar, lagði til, að frv. yrði felt. En eftir að atkvgr. hafði fram farið við 2. umr. og jeg hafði sjeð örlæti hv. deildar um það, að bæta þessum vegi í Eyjafirði í þjóðvega tölu, þá gat jeg ómögulega álitið rjett af mjer að láta farast fyrir að fara fram á, að þessi vegur yrði einnig tekinn í þjóðvega tölu.

Jeg þarf ekki að minna hv. deild á það, að þarna á Vestfjörðum er enginn vegur, sem heitir þjóðvegur, En hinsvegar er svo háttað þarna, að Ísafjarðarkaupstaður, sem er einn af fjölmennari kaupstöðum landsins, má heita upplandslaus, og því er mjög nauðsynlegt að hafa greitt samband við firðina fyrir vestan, Önundarfjörð og Dýrafjörð. En vegurinn, sem liggur þar á milli, er bæði alllangur og erfiður viðhalds. Bæði Ísafjarðarkaupstað og sveitunum í Önundarfirði og Dýrafirði yrði það því mikið hagræði, ef þarna gæti verið miklu betri vegur en er nú og væri trygt viðhald þess vegar.

Jeg gæti líka í þessu sambandi mint á það, að þó að kringum Ísafjörð sje enginn vegur í þjóðvega tölu, þá er samt tekinn af Ísafirði talsverður skattur af bifreiðum kaupstaðarins. Og eftir því, sem nú er ástatt, þá er ekki líklegt, að Ísafjarðarkaupstaður njóti þar neins í aðra hönd. Þessar bifreiðar eru auðvitað ekki margar ennþá, en samt mun skatturinn nema á ári 7–800 kr. Þar sem þetta gjald er árlegt og fer vaxandi, þá er auðsjeð, að eitthvað ætti að koma á móti frá ríkissjóðsins hálfu til vegar þar vestra. Auk þessa má og segja það, að það væri alveg sanngjarnt, að Ísafjarðarkaupstaður, sem slíkur, njóti einhvers af því fje, sem lagt er til samgöngubóta á landi, þar sem ekki verður talið, að kaupstaðurinn njóti nokkurs af því fje, er lagt er til samgöngubóta á sjó, Við myndum hafa okkar ferðir til Ísafjarðar nákvæmlega jafnmiklar og okkur hagkvæmar, þótt ekkert væri lagt fram til strandferða umhverfis landið.

Jeg vænti þess nú, að þar sem hv. deild hefir nú farið inn á þá braut að breyta vegalögunum, þá verði tekin til greina þessi sanngjörnu tilmæli mín, að þessi vegur verði tekinn í þjóðvega tölu. Jeg gerði ekki ráð fyrir í byrjun, að þessum lögum yrði breytt, ekki heldur eftir að nál. kom fram, en eftir atkvgr. get jeg búist við breytingum, og þá er þetta fylsta sanngirniskrafa að taka þennan veg í þjóðvega tölu.

Jeg skal ekki í þessu sambandi fara inn á það, að kaupstaðurinn eða sveitirnar, sem þarna eiga að standa að, muni ekki reyna að halda við veginum, þótt ekki verði hann tekinn í þjóðvega tölu. Jeg vil ekki hafa neitt í hótunum um það, eins og hv. þm. Eyf. (BSt), að hlutaðeigendur mundu láta grotna niður veginn. Jeg býst við, að sveitirnar, sem að liggja, muni reyna að halda við veginum eftir getu sinni, þótt ekki sje sanngjarnt að láta þær gera það.