15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í C-deild Alþingistíðinda. (2146)

30. mál, vegalög

Ólafur Thors:

Þrátt fyrir það, að mjer hafa borist einróma áskoranir úr hjeraði um að flytja breytingu á vegalögunum á þessu þingi, hafði jeg ekki hugsað mjer að verða við þeim óskum fyr en jeg sá, að hv. 2. þm. Eyf. (BSt) kom með brtt. við þessi lög. Þá fann jeg mig knúðan til að verða við þessum óskum, sem jeg fann, að bygðust á mikilli sanngirni. En því aðeins vildi jeg ekki verða við þeim í upphafi, að jeg gerði ráð fyrir, að ef flutt væri brtt. við vegalögin, myndu margar aðrar fylgja í kjölfarið. Og mjer þótti betra, að þeir menn, sem jeg er umboðsmaður fyrir, yrðu að búa við misrjetti í þessu efni, heldur en að eiga í vændum stórfeldar breytingar á vegalögunum eða þá langar umræður um slíkar breytingar, án þess að þær næðu framgangi.

Sýsluvegirnir í þessu hjeraði eru alls um 90 km. Til þeirra hefir verið kostað á síðustu 20 árum yfir 200 þús. kr. Af þessum sýsluvegum eru aðeins 38 km. taldir þjóðvegur, og ekki fyr en 1924, ef jeg man rjett. Jeg hefi borið fram þá tillögu, að til viðbótar þessum 38 km. verði tekinn vegarspotti í þjóðvega tölu, sem er 20 km. Þessi vegur er mjög fjölfarinn, og það af utansveitarmönnum, svo að viðhaldskostnaður verður mjög mikill. Og það er ósanngjarnt, að hann sje algerlega borinn uppi af því sýslufjelagi. Vil jeg í því sambandi benda á það, að umferð um þennan veg er mikið að aukast í þágu Reykjavíkur, þar sem mikið er flutt um hann af nýjum fiski til bæjarins frá Sandgerði og öðrum veiðistöðvum suður með sjó.

Þetta er í sjálfu sjer til hagsmuna fyrir Reykjavík, lækkar verð á fiski hjer. Ýmsar nauðsynjar eru fluttar til bæjarbúa, sem þeir yrðu annars að neita sjer um. Miklir mjólkurflutningar eiga sjer stað til Reykjavíkur um þennan veg. Það er líka til hagsmuna fyrir bæinn. Jeg neita ekki, að hjeraðsbúar hafi hag af þessum flutningum, en jeg leyfi mjer að benda á, að það eru fleiri. Meðal annars er það ríkissjóðnum í hag, þar sem dýrtíðin í bænum verður minni en ella.

Á þinginu 1924 var rætt um þetta mál. Og þar sem hjer sitja þeir sömu hv. þm. og þá, sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, en leyfi mjer að vænta þess, að ef gerð verður breyting á vegalögunum, þá verði ekki þessi till. feld, sem byggist á fullri sanngirni.