15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í C-deild Alþingistíðinda. (2148)

30. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Það mun sýna, hvert stefnir, ef þetta frv. verður sett á. Jeg hygg það verði ekki einn klukkutími, sem við notum til að lengja umræðurnar, heldur talsvert margir, því það mun bætast við brtt. (BSt: Þetta er seinasta umr.). Já, en það er líka til önnur deild, sem heitir efri deild.

Annars er ekki hægt að neita því, að vegurinn frá Ísafirði til Dýrafjarðar er líklegastur til þess að vera með sanngirni álitinn þjóðvegur, fjölfarinn vegur milli tveggja hjeraða. Hitt eru innanhjeraðsvegir hvorttveggja. Eyjafjarðarbrautin kvað nú ekki vera sýsluvegur, ekki er hann þjóðvegur, — að hann sje vegleysa hygg jeg að fáir muni skrifa undir. Það myndu áreiðanlega mörg hjeruð vilja eiga álíka veg og Eyjafjarðarbrautina innan sinna endimarka, þótt þau yrðu að kosta sjálf viðhald. Við Vestfirðingar myndum þakka fyrir, ef við ættum 40 km. spotta, þar sem þörfin er mest, eins vel bygðan og Eyjafjarðarbrautina.

Annars er ekki til neins að tala langt um þetta, það er hægt með sönnu að segja, að það sje þörf að fjölga þjóðvegunum, mikil þörf víða, en jeg held, að okkur endist ekki tími til þess að tína það upp, og það sje því rjett að láta allar breytingar á vegalögunum bíða. Í samráði við meðnefndarmenn mína vil jeg því leyfa mjer að bera fram svofelda rökstudda dagskrá:

„Með því að ekki þykir rjett að gera breytingu á vegalögunum að svo stöddu, og með því að samþ. hefir verið hjer í deildinni fjárframlag til vegarins að heilsuhælinu í Kristnesi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“